Árið 2022 réðust Rússar inn í Úkraínu. Íslensk stjórnvöld fordæmdu innrásina strax og lýstu algjörum stuðningi við Úkraínu. Fordæmingu innrásarinnar var fylgt eftir með aðgerðum. Eðlilega.
Dæmi um aðgerðir sem gripið var til:
- Öll samskipti og samstarf með fulltrúum rússneskra stjórnvalda voru tafarlaust takmörkuð
- Íslenskri lofthelgi var tafarlaust lokað fyrir umferð rússneskra loftfara
- Sett var hafnarbann á öll skip undir fána Rússlands í íslenskum höfnum
- Víðtækar viðskiptaþvingarnir voru settar á Rússland.
- Dæmi um þvingunaraðgerðir gegn Rússlandi sem Ísland framfylgir í samstarfi við alþjóðastofnanir og samstarfsríki sem snerta hernað beint:
- Sölubann á vopn og skyldan búnað.
- Innflutningsbann á vopn og skyldan búnað.
Við erum að tala um Rússland. Ríki sem Ísland hefur átt í viðskiptum og menningarsamstarfi við frá því fyrir tíma stofnunar ísraelsríkis. Ísland átti ekki í neinum vandræðum með að bregðast við innrás Rússa í Úkraínu. Eðlilega ekki.
Palestína hefur sætt áratuga löngu hernámi af Ísrael, hernámi sem var dæmt ólöglegt af Alþjóðadómstólnum í Haag.
Alþjóðadómstóllin hefur nú til meðhöndlunar kæru Suður-Afríku gegn Ísrael vegna yfirstandandi þjóðarmorðs á Gasa.
Þjóðarmorðið á Gasa á sér stað í beinni útsendingu. Sönnunargögnin eru yfirgnæfandi. Borgir og byggðir Gasa eru jafnaðar við jörðu, innviðir markvisst eyðilagðir, sjúkrahús sprengd, fjölmiðlafólk markvisst myrt, og allir íbúar Gasa, konur karlar og börn, eru myrt markvisst á allan mögulegan hátt, sprengd, skotin, brennd lifandi og svelt til dauða.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir segir „þetta óásættanlegt“, „hryllingnum verði að linna“ og kallar eftir „vopnahléi og mannúðaraðstoð“ til Gasa. Kallar eftir aðgerðum en aðhefst ekkert.


Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Facebook færsla:
Dag eftir dag berast fréttir frá Gaza sem eru svo hryllilegar að það er ólíðandi. Tugþúsundir látin, þar af yfir 17 þúsund börn – og yfir 30 þúsund til viðbótar særð. Saklaust fólk hefur verið svipt öryggi sínu og framtíð. Hungri er beitt sem vopni. Þetta er óásættanlegt. Eins og ég hef sagt eru þetta í mínum huga þjóðernishreinsanir – og nú þarf alvöru aðgerðir.
Ísland hefur ekki setið hjá. Við höfum talað skýrt á alþjóðavettvangi, m.a. í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna og kallað ítrekað eftir vopnahléi og mannúðaraðstoð. Við höfum krafist þess að Ísrael axli ábyrgð á brotum sínum, m.a. með sjálfstæðri greinargerð Íslands til Alþjóðadómstólsins í Haag. Við höfum aukið framlag til Palestínuflóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna og sótt fólk til Gaza og bjargað úr bráðri neyð, á grundvelli fjölskyldusameininga. Við höfum átt frumkvæði að og tekið þátt í fjölda yfirlýsinga um mannúðaraðstoð og vopnahlé – en við vitum líka að þó yfirlýsingar séu mikilvægar eru aðgerðir nauðsynlegar.
Nú í kvöld held ég til New York þar sem ég tek þátt í ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um tveggja ríkja lausnina. Margir spyrja hvort sú lausn sé lengur raunhæf. Það er eðlilegt að hafa áhyggjur af því en einmitt þess vegna skiptir þessi fundur nú máli. Ég bind vonir við að þar verði tekin alvöru skref – að þjóðir heims horfist í augu við ábyrgð sína og sameinist um aðgerðir. Ég mun meðal annars eiga fundi með utanríkisráðherra Palestínu, aðalritara Sameinuðu þjóðanna og hópi líkt þenkjandi ríkja sem við höfum skipað okkur við hlið síðustu mánuði.
Þessu verður að linna. Annað er hreinlega ekki í boði.
Íslensk ríkisstjórn fékk tækifæri til þess að grípa til raunverulegra aðgerða í júlí síðastliðnum þegar Íslandi var boðin þátttaka í neyðarráðstefnu Haag hópsins þann 16 júlí 2025. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir afþakkaði boðið.
Niðurstaða ráðstefnunnar var samkomulag 13 ríkja á vegum Haag hópsins um að ráðast þegar í stað í aðgerðir til þess að rjúfa tengsl ríkja sinna við hernaðaraðgerðir Ísraels í Palestínu og stöðva þjóðarmorðið sem Ísrael hefur óhindrað framið á Gasa í 22 mánuði. Aðgerðirnar eru:
- Að stöðva afhendingu, sölu eða flutning vopna, skotfæra, hergagna og eldsneytis til hernaðarnota til Ísrael
- Að stöðva för farartækja um landhelgi ríkjanna, í höfnum og á flugvöllum
- Að koma á banni við því að farartæki sem bera þjóðfána ríkjanna flytji vopn, skotfæri, eldsneyti til hernaðarnota og hergögn til Ísrael
- Að hefja þegar í stað endurskoðun allra opinberra samninga, til að koma í veg fyrir að opinberar stofnanir og fjármunir ríkjanna styðji ólöglega hernámsstefnu Ísrael í Palestínu.
- Að gera fullnægjandi ráðstafanir til að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar ríkjanna samkvæmt þjóðarrétti um ábyrgð vegna alvarlegustu brota á mannúðarlögum og þjóðarrétti
- Að nýta allsherjarlögsögu innan réttarkerfa ríkjanna til að tryggja réttlæti fyrir fórnarlömb alþjóðaglæpa sem framin eru á hernumdu palestínsku landsvæðunum.
Það er hárrétt Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, hryllingnum verður að linna. Hvað ætlar þú að gera í því?
Þú og Íslensk ríkisstjórn skuldið þjóðinni skýringu á því að hafa ekki gerst samstarfsaðilar ríkjanna á bak við Haag hópinn, að hafa ekki tekið þátt í neyðarfundinum í júlí og hafa ekki enn, í 22 mánuði þjóðarmorðs á Gasa, gripið til neinna aðgerða. Haag hópurinn er kjörin vettvangur til þess.
Birtist fyrst á Facebook.