Þorgerður Katrín utanríkisráðherra tilkynnti nýlega aðgerðir sem eiga að sýna að ríkisstjórn Íslands sé vöknuð til verka vegna þjóðamorðs Ísraels í Palestínu.
Meðal aðgerða er að merkja skuli vörur frá ólöglegum landránsbyggðum á Vesturbakkanum.
Tillaga um slíkar merkingar kom fyrst fram á þingi 2012 en náði aldrei út úr nefnd vegna andstöðu m.a. frá Sjálfstæðisflokknum, þáverandi flokkur Þorgerðar Katrínar.

Meðan þessi tillaga Árna Þórs Sigurðssonar VG lá í skúffu Alþingis seldi ríkisfyrirtækið Vínbúðin vörur frá ísraelska fyrirtækinu Psagot sem starfar í ólöglegri landránsbyggð í Palestínu. Vínin frá Psagot eru horfin úr hillum Vínbúðarinnar. Það gerðist eftir að Félagið Ísland – Palestína vakti athygli á þessu víni og uppruna þess.
Vínbúðin selur í dag vín frá ísraelska fyrirtækinu Clos de Gat Harel Winery.
Á vef Vinbúðarinnar er uppruni vínsins sagður vera Ísrael – Judean Hills. Höfuðstöðvar Clos de Gat voru upprunalega í Mateh Yehuda sem er mjög nálægt vopnahléslínunni frá 1949, en innan svæðisins sem Ísrael hertók 1949.
En Clos de Gat fyrirtækið flutti höfuðstöðvar sínar fyrir nokkrum árum yfir á hernuminn Vesturbakkann, nánar tiltekið til landránsbyggðarinnar Sha’ar Binyamin.
Sú aðgerð ríkisstjórnarinnar, að merkja landránsbyggðarvörurnar, eru ómerkileg viðbrögð við þjóðarmorði.
Ef ríkisstjórnin hefur áhuga á að rétta Palestínumönnum hjálparhönd þá setur hún á viðskiptabann á allar ísraelskar vörur.
Birtist fyrst á Facebook-síðu höfundar.
Sniðgangan 2025 verður gengin laugardaginn 20. september 2025, bæði á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri.