Söguna um Rachel Corrie þekkja flestir. Hún var bandarísk baráttukona og meðlimur í International Solidary Movement. Þekktust er hún fyrir átakanlegan dauðdaga sinn en hún lést, tuttugu og þriggja ára gömul, þann 12. október 2003 í borginni Rafah á Gazaströndinni þegar hún reyndi að koma í veg fyrir að jarðýta ísraelska hersins jafnaði hús palestínskrar vinafjölskyldu hennar við jörðu. Síðan Rachel dó hafa foreldrar hennar, Cindy og Craig Corrie, haldið minningu hennar á lofti með því að tala fyrir friði í Ísrael og Palestínu og stuðla að aukinni þekkingu umheimsins á málstað Palestínumanna.

Þann 9. október síðastliðinn tóku Corrie-hjónin við Lennon Ono friðarverðlaununum úr hendi Yoko Ono í Hörpunni fyrir hönd Rachel. Félagið Ísland-Palestína efndi þann 12. október til hádegisverðarfundar með hjónunum í Iðnó þar sem þau röktu sögu Rachel Corrie og sögðu frá friðarbaráttu sinni í nafni samtakanna The Rachel Corrie Foundation for Peace and Justice. Árið 2005 lögðu þau fram ákæru á hendur Ísraelshers og ísraelska varnarmálaráðuneytisins sem þau telja að beri ábyrgð á dauða dóttur þeirra. Þau stóðu í málaferlum fram í ágúst á þessu ári þegar ísraelskur dómstóll hafnaði táknrænum kröfum þeirra um eins dollara skaðabætur. Hjónin undirbúa nú áfrýjun á úrskurði dómstólsins um leið og halda áfram að helga líf sitt þeirri baráttu sem dóttir þeirra hóf.
Áhrifaríkar frásagnir í bréfum Rachel
Rachel kom til foreldra sinna árið 2002 og sagðist ætla til Palestínu á vegum vinaborgarverkefnis en fjölskylda bjó í borginni Olympia í Washington-fylki. Á þessum tíma stóð síðari Intifadan sem hæst. Þarna hófst nýr kafli í sögu fjölskyldunnar en eins og flestir Bandaríkjamenn höfðu Corrie-hjónin að eigin sögn verið fáfróð um ástandið í Ísrael og haft samúð með málstað Gyðinga.

„Rachel byrjaði að fræða okkur áður en hún fór af stað vegna þess að hún vildi að við skildum hvers vegna hún færi og hvað hún ætlaði að gera,“ segir Cindy og leggur áherslu á að á þessum tíma hafi þau hugsað eins og vel flestir Bandaríkjamenn. „Ég hafði lesið sögur fyrir börnin mín um helförina og bækur eins og Dagbók Önnu Frank svo að allur okkar skilningur var Gyðinga megin. En þegar Rachel var byrjuð að skrifa okkur bréf frá Gaza runnu á okkur tvær grímur. Upplifanir hennar voru svo sterkar og við vissum að hún var greinargóður athugandi og slyngur penni. Við vissum að orð voru henni mikils virði og treystum því frásögnum hennar. Það sem hún skrifaði í bréfin hafði allt önnur áhrif á okkur en venjulegur fréttaflutningur. Þau voru mjög persónuleg og við höfðum aldrei áður heyrt frásagnir frá þessum sjónarhóli. Þetta var okkur mikill skóli.“
Craig bætir við að Cindy hafi verið fljótari að tileinka sér ný viðhorf heldur en hann. „Sjálfur var ég hermaður í Víetnam þó að reyndar væri það ekki það sem ég vildi. En ég þekkti nokkuð til stríðsreksturs. Fyrst óttaðist ég að Rachel yrði handtekin en þegar ég las lýsingar hennar á ummerkjum eftir byssuskot á útveggjum húsa þar sem dvöldu börn jukust áhyggjur mínar og ég skildi að hún var að fást við stjórnlausan her. Ég talaði við hana rétt áður en hún fór til Palestínu og sagði: „Rachel, þú veist að þú þarft ekki að gera þetta. Það áfellist þig enginn þó að þú farir ekki.“ Hún svaraði: „Ég veit að ég þarf ekki að gera þetta en ég held að ég geti það og ég veit að ég verð að reyna.“ Og svo fór hún,“ minnist Craig. Í máli þeirra kemur skýrt fram að þó að þau hafi fengið tækifæri til að hitta marga ráðamenn eru það kynnin af venjulegu fólki sem opnar þeim skilning að ástandinu í Ísrael og Palestínu. Aðspurð um álit þeirra á tveggja ríkja lausninni svarar Craig: „Við fórum ekki til Palestínu fyrr en í september 2003 en auðvitað höfum við heyrt þessa umræðu allt okkar líf því við erum álíka gömul og hernámið. En þessi umræða er ákaflega flókin vegna spennunnar sem þarna ríkir. Mér skilst að Ísraelsmenn hafi alltaf litið meira og minna á allt svæðið sem þeirra. Mér er þetta illskiljanlegt sem Bandaríkjamanni sem alist hefur upp við frelsisyfirlýsinguna því að þó að við sem þjóð höfum ekki alltaf farið eftir henni eigum við það alla vega á prenti að réttur allra skuli vera jafn. Við eigum palistínska vini sem búa í Ísrael. Þessi fjölskylda hefur verið að safna fyrir húsinu sem hún var rekin úr árið 1948 og tókst fyrir örfáum árum að kaupa húsið aftur. Þetta fólk vill ekki kalla sig Palestínu-Araba heldur ísraelska Araba en fyrir því eru flóknar pólitískar ástæður. Vinur okkar í fjölskyldunni segist vilja fá tækifæri til að gera Ísrael eins og það var þegar hann fæddist eftir ´48. Hann segir: „Ég er ísraelskur borgari, hvort sem mér líkar það betur eða verr, og ég á rétt á líkar það betur eða verr, og ég á rétt á fyrir alla sem þar búa.“ Vandamálið er fyrir alla sem þar búa.“ Vandamálið er draumar. Við verðum að vinna þannig að tekið sé tillit til hinna margvíslegu sjónarmiða. Sem Bandaríkjamanni finnst mér að við megum ekki styðja það að sumir hafi meiri rétt en aðrir. Við það að sumir hafi meiri rétt en aðrir. Við verðum að auka skilning umheimsins á ástandinu og við verðum að viðurkenna að þarna skortir allt jafnvægi á milli réttar þessara tveggja þjóða. En þetta fólk sem samt neytt til að halda áfram að búa saman og við verðum að skapa þeim framtíð sem er boðleg börnum þeirra því öll dreymir okkur jú um bjarta framtíð fyrir börn okkar.“
Cindy bætir við að Bandaríkin hafi leikið stórt hlutverk í þessari deilu en þau afskipti hafi ekki alltaf verið uppbyggileg. „Ameríkanar misskilja ennþá stöðuna og eru fáfróðir um ástandið. Heima í Olympíu eigum við vini sem eru Gyðingar og trúa á málstað Ísraels. Þegar ég sagði þeim að fjórðungur landsmanna væri Palestínuenn trúðu þau mér ekki og við þurftum að leita til háskólamanns til að sannfæra þau. Þau áttuðu sig ekki á því að þarna búa Ísraelsmenn og Palestínumenn hlið við hlið án þess að njóta sömu réttinda. Við eigum vini af mörgum kynþáttum í Ísrael og við sjáum þá berjast saman fyrir sömu hugsjóninni. Það er slíkt fólk sem færir okkur nær lausninni. Jafnvel á Gaza sér maður stundum frekar það sem sameinar fólk en sundrar því. Með því að einblína á þetta get ég viðhaldið bjartsýni vegna framtíðarinnar.“
Sögur fólksins segja okkur mest
Corrie-hjónin eru spurð hvort þau hafi nýtt sér söguna til að skapa hlekki á milli þess sem var og er. Cindy segir að þau hafi mest lært af þeim sögum sem fólk hefur sagt þeim enda þótt sögurnar geti verið mjög ruglandi á stundum. „Það bjuggu Palestínumenn í bænum okkar þegar Rachel var drepin sem við þekktum ekki þá en þekkjum nú. Þetta fólk bjó nálægt Haifa árið 1948 og átti þar aldingarða sem þau misstu. Ég get sett mig í þessa spor af því að ég ólst upp á búgarði sem ég hef ennþá tekjur af. Ég skil því sögu þeirra á mjög persónulegan hátt og get sett mig inn í sorgina í andliti Assans, vinar míns. Sem Bandaríkjamaður getur hann ferðast á þessar slóðir og hefur gert það en segist ekki langa aftur. Ég held að það sé of sársaukafullt fyrir hann að sjá hvernig ástandið er og minnast hvernig það var. Á Gaza hittum við yfirmann Heimsþings kirkna. Hann er kristinn Arabi og líka frá Haifa. Hann sagði okkur frá því að þegar hann var sjö ára gamall varð fjölskylda hans að yfirgefa heimilið en gat snúið aftur til að sækja eigur. Þegar þau komu aftur féll móðir hans í fang nágrannakonu sinnar, sem var Gyðingur, og þær grétu og grétu vegna þess að þær voru nánar vinkonur þrátt fyrir að vera ekki af sama kynstofni. Mér finnst þessar sögur setja mig inn í sorgina sem fólk hefur þurft að upplifa en þær hjálpa mér líka að skilja ástand sem þarf ekki að vera svona. Ég hef von af því að ég veit að til er fólk sem vill gera framtíðina friðsamlegri og réttlátari.“
Craig tekur undir orð Cindyjar og ítrekar enn að þau hafi ekki sett sig vandlega inn í söguna: „En við höfum lifað söguna. Ég var fylgjandi Ísraelsríki eins og ég held að flestir í kringum mig hafi verið. Ég bjó í Iowa og ég man að ég hugsaði: „Hvað ef fyrirheitna landið hefði verið í Iowa? Þá hefði ég kannski aðra skoðun á málinu.“ Það örlaði sem sagt fyrir þeirri hugsun að einhverjir kynnu að hafa búið þar sem Ísraelsríki var reist. Við verðum að vera svolítið auðmjúk og sýna samkennd. Upphaflega erum við öll meira og minna landnemar. Ég man að ég heyrði ísraelskan rabbía segja: „Vandamálið er að ef til verður ríki Gyðinga í miðju Arabalandi kallar það á þjóðernishreinsanir“. Ég ákvað að ég gæti aldrei stutt þjóðernishreinsanir. Annar ísraelskur rabbíi fór með okkur yfir til Palestínu sem hann gat gert af því að hann hafði bandarískt vegabréf. Þar hittum við góða vini hans sem voru Arabar. Það er til mikil vinátta þvert á landamæri. En það er engin leið til að bæta upp alla þá kvöl sem farið hefur úr böndunum á þessu svæði. Ég get skilið að Gyðingar sem sluppu úr herförinni hafi þurft öruggan stað en Gyðingar sem við þekkjum í Ísrael í dag segja að það sé eini staðurinn í heiminum þar sem þeir upplifa ekki öryggi. Ég held að það sé á ábyrgð okkar að leggja eitthvað af mörkum svo að bæði Ísraelsmenn og Palestínuarabar geti búið við öryggi.“
Viðtal: Björg Árnadóttir og Hjálmtýr Heiðdal.
Birtist í Frjáls Palestína.