Lokaritgerð Önnu Margrétar Pétursdóttur til BA-gráðu í stjórnmálafræði við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands.
Útdráttur
Hefðbundin umfjöllun um átök Ísraela og Palestínumanna byggir gjarnan á túlkun á aðstæðunum sem óleysanlegri þjóðernisdeilu tveggja jafnvígra fylkinga. Í þessari ritgerð er leitast við að afbyggja hugmyndina um samband Ísraels og Palestínu sem deilu og færa þess í stað rök fyrir því að aðstæðurnar séu sviðsmynd landtöku-nýlendustefnu (e. settler colonialism). Til þess að leggja grunninn að röksemdarfærslunni eru helstu atriði úr sögu Ísraels og Palestínu tilgreind og landtöku-nýlendustefna útskýrð sem sjálfstæð fræðigrein. Aðstæðurnar, bæði í sögulegu samhengi og í nútímanum, eru síðan skoðaðar út frá greiningarramma landtöku-nýlendustefnu. Þetta er gert í gegnum umfjöllun um nokkrar helstu kenningar og grundvallareinkenni hennar: rökvísi útrýmingar, það að landtöku-nýlendustefna sé skipulag en ekki atvik, jákvæðar og neikvæðar víddir stefnunnar, algenga ferla hennar, íbúarekstur og sjálfsmynd landtökuverkefna og loks kenningar um tilfærslu.
Umfjöllunin bendir til þess að að pólitískur síonismi – sem varð að Ísrael – sé í grunninn evrópskt landtökuverkefni. Aðstæðurnar eru þannig ekki „deila“ , og margumrætt ofbeldi Palestínumanna er fyrst og fremst andspyrna frumbyggja gegn nýlenduveldi. Áfallið mikla, Nakba, er þannig áframhaldandi ástand sem birtist í viðvarandi undirokun og útrýmingu Palestínumanna innan og utan Ísraelsríkis. Í gegnum þessa umfjöllun er sérstöðuhyggja Ísraels auk þess dregin í efa og sjálfsmynd þess sem nútímalýðræðisríkis gagnrýnd. Gagnrýnin og virk fræðileg umfjöllun byggð á greiningarramma landtöku-nýlendustefnu endurstillir þannig hefðbundið sjónarhorn og vekur upp áleitnar spurningar um raunverulegt réttlæti fyrir alla íbúa svæðanna.
Birtist í Skemmunni.