Núna er öllum ljóst að Ísrael er með kerfisbundnum og úthugsuðum hætti að svelta Palestínufólk til dauða á Gaza. Meira að segja helfararfræðingar eru komnir á þá skoðun, sem og svokallaðir „frjálslyndir síonistar“. Nokkur dæmi allra síðustu daga eru Dov Waxman sem var lengi eini þekkti þjóðarmorðsfræðingurinn sem taldi ekki að Ísrael væri að fremja þjóðarmorð og rithöfundurinn David Grossman.
Það er auðvitað í raun glæpsamlegt að reyna að hvítþvo þjóðarmorð sem hefur blasað við í meira en 20 mánuði en þetta ætti þó að vera til marks um þann consensus sem hefur myndast um það sem mjög margir hafa reynt að neita, fela eða hvítþvo í hátt í tvö ár. Og enn gera æðstu valdamenn það, ásamt mörgum öðrum, sem eru þó nú í minnihluta.
Þau (fjölmörgu) sem sáu strax hvað var að gerast, eftir 7. október 2023, sáu það ekki vegna skyggnigáfu heldur vegna þekkingar á síonisma. Síonismi er mjög vel skilið fyrirbæri, rannsakað í bak og fyrir og í grunninn ekki mjög flókið. Bæði Palestínumenn og greinendur annars staðar frá gátu um leið séð fyrir að Ísrael myndi grípa tækifærið og reyna að ganga frá og tortíma endanlega Palestínufólki á Gaza. Allt frá því að síonisminn varð til hefur það verið markmið hans að eyða tilvist Palestínufólks í Palestínu, annaðhvort með því að hrekja fólkið burt eða drepa það ef það fer ekki. Það má skilja allar aðgerðir Ísraels frá stofnun (og fyrir stofnun þess) út frá þessari grunnhugmynd. Þetta er nýlendustefna sem gengur út á að sölsa undir sig land, hvað sem það kostar. Það sem greinir „frjálslynda síonista“ frá hinum er að þeir telja betra að festa í sessi landvinningana frá 1948, tryggja öryggi þess hernumda svæðis og „leyfa“ Palestínumönnum að fá aftur landið sem var rænt 1967, gegn „friði“.
Punktarnir eru að fólk sem spáði réttilega fyrir um viðbrögð Ísraels er það fólk sem við ættum að taka mark á og að nú mun Ísrael og bandamenn þess gera allt til að sú saga (narratífa) verði ofan á að „stjórn Netanyahu hafi gengið of langt“ en að „auðvitað hafi frumorsökin verið árás Hamas 7. október“ og því fylgir að „Hamas þurfi að afvopnast og gefast upp“. Þannig verður til réttlæting fyrir þjóðarmorðinu sem hefði verið í lagi ef það hefði ekki gengið alveg svona langt. Við erum jú að tala um „villimennina í Hamas“.
Nokkrir leiðtogar nokkurra vestrænna ríkja hafa hótað því að viðurkenna ríki Palestínu á næstunni en samt ekki strax. Af hverju ekki strax? Og hvaða ríki með hvaða landamærum? Þessu er ósvarað. Auk þess eru inni í þessum hótunum skilyrði sem fela í raun í sér að Palestína yrði alls ekki fullvalda ríki. Ísrael hefði allt í hendi sér og öll völd. Palestína mætti til dæmis ekki hafa varnir. Kostulegt í ljósi nýlegra ákvarðana um aukna hernaðaruppbyggingu í hinni friðelskandi Evrópu.
Yfirlýsingar um skilyrtar viðurkenningar á ríki Palestínu virðast fyrst og fremst vera leiktjöld, til að þurfa ekki að taka ákvarðanir sem ríki eru þó skyldug til ef þau vilja virða alþjóðalög og alþjóðadómstóla: þeim ber að sjá til þess að Ísrael endi hernám sitt og viðveru á þeim svæðum sem voru hernuminn 1967 (Gaza og Vesturbakkanum). Þetta er algerlega fortakslaust og skilyrðislaust og er ekki umsemjanlegt. Glæpurinn frá 1948 stæði að vísu enn, enda Sameinuðu þjóðirnar sjálfar sem stóðu að honum með síonistum.
Baráttan endar ekki fyrr en aðskilnaðarstefnan hefur verið aflögð, landránsnýlenduhyggjan brotin á bak aftur, glæpir gerðir upp með viðeigandi refsingum og bætur borgaðar, og allar manneskjur hafi (jöfn og sömu) mannréttindi í allri Palestínu.
Birtist fyrst á Neistar.