Með sverð í hendi

Um síðustu aldamót bjuggu í Palestínu um 50 þúsund gyðingar, þeir voru um 8% íbúanna og áttu rúm 2% landsins. 1922 voru gyðingar um 10% íbúafjöldans.

Við stofnun ísraelsríkis, árið 1948, voru gyðingar 33% íbúanna með löglega eign á 5,6% landsins. Af þeim 77% íbúanna sem ekki voru gyðingar flúðu tveir þriðju landið. Hundruð þúsunda urðu að yfirgefa heimili sín og setjast að í flóttamannabúðum fjarri heimilum sínum.

Í dag lifir um helmingur þeirrar þjóðar er átti það land sem í dag kallast Ísrael í flóttamannabúðum — en hinn hluti Palestínuaraba lifir undir járnhæl Ísraelshers. Þjóð sem telur fjórar milljónir á engan tilverurétt í sínu forna landi svo lengi sem það Ísraelsríki sem stofnað var 1948 er við lýði.

Þetta er í stuttu máli sagan að baki þess ástands sem nú ríkir fyrir botni Miðjarðarhafs.

Útþensla og eðli Ísraels

Hryðjuverkastarfsemi og landarán — vopnuð útþensla, þetta eru lykilatriði í tilurð ísraelsríkis. Ekki er að furða þótt einhver mótstaða verði af hálfu Palestínuaraba og nærliggjandi þjóða þegar slíkt ríki er sett á laggirnar á landi þar sem arabar hafa búið í rúm þúsund ár.

Orsök átakanna er því ekki barátta Palestínuaraba eins og Haraldur Blöndal heldur fram í grein sinni í DV 2. júlí sl.

Megin orsökin er stefna forystumanna Ísraels, þ.e. síonisminn. Ísrael er ríki gyðinga, byggt á trúarlegum grunni, þar mega landflótta Palestínumenn ekki setjast að. Ísrael hefur sifellt verið að þenjast úr, nýjustu dæmin eru 1980 innlimun Jerúsalem og í desember 1981 voru hinar herteknu Gólanhæðir gerðar að hluta ríkisins með stuðningi 2/3 hluta þingmanna á Knesset.

Hugmyndafræði síonista er slík að endanleg stærð Ísraels — Erez Israel, eins og það heitir á máli þeirra, gæti orðið þó nokkuð stærri en núverandi ríki. Enginn skyldi því verða hissa þótt hægt muni ganga að koma innrásarhernum frá Líbanon — og enn síður kæmi það á óvart þótt aðrir landshlutar sem Ísraelsher hefur hernumið verði lýstir löglegir hlutar síonistaríkisins.

PLO-frelsissamtök Palestínuaraba

Síonistar bera ekki hina minnstu virðingu fyrir réttindum Palestínuaraba. Þeir hafa gert þá landræka, myrt leiðtoga þeirra, gert loftárásir á flóttamannabúðir og kúgað þá miskunnarlaust á þeim svæðum sem hernumin eru af Ísraelsher. Stjórnvöld í Ísrael neita að ræða við leiðtoga PLO á þeirri forsendu að þeir séu hryðjuverkamenn. Þetta eru hláleg rök manna sem sjálfir eru fyrrverandi stjórnendur fjöldamorða — Begin forsætisráðherra var eftirlýstur fyrir morð á ungum sem öldnum. Varnamálaráðherrann, Sharon, sem nú stjórnar fjöldamorðunum í Líbanon, var foringi sveitar sem myrti rúmlega 60 araba þ. 15. október 1953. Þess má geta að hér var um að ræða konur, karla og börn.

PLO eru ekki eingöngu sveitir skæruliða. Samtökin eru í raun bakhjarl í tilveru Palestínuaraba, þau eru félagslegur, pólitískur og hernaðarlegur málsvari hinnar landflótta þjóðar. Þau eru ekki ein samlit heild og innan þeirra eru til öfgar eins og margfrægt er. En það að stimpla þau sem hryðjuverkasamtök — eins og Haraldur Blöndal gerir í fyrrnefndri grein sinni — er staðreyndafölsun. Þessi fölsun er gerð til þess að fegra hinn ljóta málstað síonista.

Síonisminn

Til þess að skilja þær hugmyndir sem búa að baki útþenslu og árásarstefnu ísraelskra stjómvalda er ágætt að kynna sér skoðanir leiðtoganna.

Moshe Dyan, fyrrverandi varnarmálaráðherra er gott dæmi um síonista. Uri Avnery, ísraelskur þingmaður og ritstjóri hefur kallað Dayan „arabaveiðara” með tilvísun til landnáms Ameríku þar sem indiánaveiðarar eltu upp og drápu miskunnarlaust heilu indíánaættflokkana í þeim tilgangi að ræna landi þeirra.

Skoðanir Dayan koma skýrt fram í þeim ræðustúfum sem hér birtast:

„Í átta ár hafa þeir (Palestínuarabar) setið i flóttamannabúðum sínum í Gaza, beint fyrir framan augu þeirra gerum við jörðina og þorpin sem þeir og forfeður þeirra byggðu, að okkar eign… Við erum kynslóð nýlendusinna (kolonister), og án stálhjálms og fallbyssu getum við ekki gróðursett eitt einasta tré né byggt hús. Við skulum ekki víkja þegar við finnum hatrið sem æsir og fyllir hug hundruð þúsunda araba allt í kringum okkur. Lítum ekki undan, svo að hönd okkar missi ekki takið. Þetta eru örlög okkar kynslóðar — valin lífsbraut, að vera tilbúnir og vopnaðir, sterkir og harðir — því annars missum við sverðið úr hendinni og lífsneisti okkar verður drepinn…” (1956)

„Það er viðurkennt, að frá árinu 1936, hefur allt sem við höfum náð, fengist með vopnavaldi…”

„Þar sem allt, fram að þessu, hefur fengist með stríði — hví skyldum við þá hafa áhuga á friði nú? Hvers vegna skyldum við ekki búast við enn frekari vinningum í styrjöldum framtíðarinnar…” (1967)

Golda Meir, hinn frægi forsætisráðherra Ísraels sagði þ. 15. júni 1969:

„Það eru ekki til neinir Palestínuarabar, og hafa aldrei verið til”.

Lausn málsins

Í grein sinni í Dagblaðinu & Visi segir Haraldur Blöndal: ,,En það er trúa mín að herför ísraelsmanna muni skapa varanlegan frið í Líbanon…“

Þessi þankagangur kallar á fjári margar innrásir í nágrannaríki Ísraels. „Friðun” með vopnavaldi er ekki lausn til langframa og síst til þess fallin að koma á ró. Sú afstaða ísraelsstjórnar að allt megi gera, þ.á.m. fjöldamorð á Líbönum og Palestínumönnum, til þess að tryggja öryggi Ísraels er fordæmanleg.

Lausn þessa máls felst e.t.v. í þeim tillögum sem PLO hefur lagt fram, þ.e. að ísraelsríki verði leyst upp og þess í stað verði stofnað lýðræðisríki þar sem allir, jafnt arabar sem gyðingar njóti sömu réttinda án tillits til trúarbragða. Langt er í land. Núverandi afstaða ráðamanna í Ísrael og Bandaríkjunum — sem eru stoð og stytta síonísku útþenslu- og árásarstefnunnar — mun leiða til nýrra átaka.

Afstaða íslendinga

Íslendingar geta lagt sitt af mörkum til þess að koma á réttlátri lausn málsins. Ísrael hefur haft nokkurn meðbyr meðal almennings á Vesturlöndum. Finni þeir að almenningsálitið hefur snúist gegn þeim svo máli skiptir gæti það komið breytingum til leiðar. Íslensk stjórnvöld, félög og einstaklingar sem eiga samskipti við Ísraela geta skorið þau niður þar til breyttir vindar blása í Tel-Aviv. Stjórnvöld í Ísrael gera mikið til að laða til landsins ráðstefnur og mót af ýmsu tagi. Tilgangurinn er auðvitað sá að draga úr einangrun landsins og að láta sem Ísrael sé jafn eðlilegt ríki og hvert annað.

Með því að sækja ekki slíkar ráðstefnur má láta þá skilja að heimurinn getur ekki samþykkt framferði þeirra.

(Heimildir: Israel uden zionisme e. Uri Avnery þingmann og ritstjóra í Israel. „Þetta er palestínska þjóðin” smárit Palestínunefndarinnar 1976. Palestína no. 1. útg. Palestínunefndin 1975. Gnistan 14. jan. 1982. Dagblaðið, Timinn o.fl. blöð.)

Birtist fyrst í DV.

Scroll to Top