Lítill heimur

Sem ungur drengur í Reykjavík á árunum fyrir heimstyrjöldina síðustu dreymdi mig um að ferðast til fjarlægra landa og fá að kynnast annarri menningu og öðrum siðum. Mér sýndist, hins vegar, afar ólíklegt, að úr slíku gæti nokkru sinni orðið. Þessi lönd voru svo óra langt í burtu. Hvað, sem gerðist í þessum fjarlægu löndum, var jafnvel enn fjarlægara. Fréttir af styrjöldum og hvers konar hörmungum bárust seint og illa. Slíkt virtist koma okkur lítið við. Þetta var annar heimur.

Nú er þetta gjörbreytt. Jafnvel fjarlægustu lönd eru orðin okkar næstu nágrannar. Að flestu, sem þar gerist, verðum við vitni heima í stofu nánast samstundis. Styrjaldirnar, mannréttindabrotin, hungrið, svo fátt eitt sé nefnt, fer ekki fram hjá neinum. Stórstígar framfarir í flugi og fjarskiptum, ekki síst sjónvarpið og veraldarvefurinn, hafa gert margskiptan heim að einum heimi, einni vistarveru, og hún er þétt setin. Þetta veldur jafnframt því að flest, sem gerist í okkar litla heimi, hefur bein eða óbein áhrif á okkar eigið líf.

Sameiginleg vandamál heimsbyggðarinnar eru mörg. Loftslagsbreytingar af mannavöldum eru líklega mest áberandi eins og stendur. Það mun, ef ekki verður breyting til batnaðar, valda ýmis konar harðindum, sem geta leitt til mikilla átaka. Misskipting veraldlegra gæða er gífurleg. Víðast í vestrænum heimi búum við við allsnægtir á meðan milljónir manna víða um heim eru á vergangi og farast af hungri og sjúkdómum. Í litlum heimi er þetta í dag öllum sýnilegt og veldur tortryggni og jafnvel hatri. Ýmiss konar misklíð veldur styrjöldum, sem oft verða að báli, m.a. vegna máttleysis Sameinuðu þjóðanna og vafasamra afskipta stórvelda.

Ástandið fyrir botni Miðjarðarhafsins er tvímælalaust sú glóð, sem að stærsta ófriðarbálinu getur orðið, ef ekki er farið með mikilli gát og horfið frá þeirri stefnu yfirgangs, sem þar hefur ráðið för. Um leið og ég fordæmi þau hryðjuverk, sem öfgafullir íslamstrúarmenn hafa framið, velti ég því fyrir mér, hvort ekki megi rekja þær gerðir til þeirrar harðlínustefnu, sem gyðingar og kristnir bókstafstrúarmenn hafa boðað og framfylgt í þessum heimshluta, einkum í deilu Ísraels og Palestínumanna.

Flestir viðurkenna nú, að innrásin í Írak var mikil mistök. Hún hefur stóraukið tortryggni í garð vestrænna þjóða og verið mikið vatn á myllu hryðjuverkamanna. Ekki er séð fyrir endann á því hvernig það mikla sár verður grætt. Hitt er ég sannfærður um að friður næst ekki í Miðausturlöndum fyrr en sátt næst með Ísrael og Palestínumönnum. Þetta hygg ég að flestir viðurkenni nú. Harðlínumenn á meðal gyðinga og í Bandaríkjunum neita hins vegar að standa að því sem gera verður til þess að þetta megi takast.

Sameinuðu þjóðirnar hafa ítrekað krafist þess að Ísraelar hverfi að landamærunum frá 1967. Á þetta hafa Arabalöndin fallist og Evrópa, en Bandaríkjamenn og Ísraelar hafnað. Þetta er þó vafalaust algjör forsenda fyrir því að samningar megi nást. Alþjóðadómstólinn í Haag hefur úrskurðað að múrinn mikla, sem Ísraelar byggja, sé þeim óheimilt að reisa. Þeir byggja hann samt með þegjandi samþykki Bandaríkjanna og innlima með honum stór landssvæði Palestínumanna og skipta jafnvel athafna svæðum.

Hvernig má það vera, að viðurkenndar alþjóðastofnanir eru virtar að vettugi, stofnanir, sem þó eru settar á fót til að stuðla að friði í heiminum? Þegar svo er, er varla von að vel fari.

Mörg fleiri dæmi um furðulegan framgang í málefnum Palestínu mætti nefna. Til dæmis voru Palestínumenn hvattir til að halda lýðræðislegar kosningar. Þær fóru vel fram að mati eftirlitsmanna. Hins vegar voru niðurstöður kosninganna ekki Ísraelum og Bandaríkjamönnum þókn anlegar og sú ríkisstjórn, sem á grundvelli þeirra var mynduð, því ekki viðurkennd. Utanríkisráðherra Íslands, Valgerður Sverrisdóttir, hefur lagt til, að við Íslendingar förum að fordæmi Norðmanna og viðurkennum nýja ríkisstjórn Palestínu. Því ber að fagna. Við skulum vona að ríkisstjórnin hafi manndóm til að fara að tillögu Valgerðar.

Íslendingar hafa áður sýnt skilning á málefnum Ísraels og Palestínumanna. Í maí 1989 ályktaði Alþingi um málið. Þar segir meðal annars:

„Nauðsynlegt er að báðir aðilar sýni raunverulegan samkomulagsvilja og viðurkenni rétt hvors annars í samræmi við ályktun Sameinuðu þjóðanna nr. 181 frá 29. nóvember 1947 sem ásamt ályktunum öryggisráðsins nr. 242 frá 1967 og nr. 338 frá 1973 eru sá grundvöllur er skapað getur varanlegan frið og öryggi í Austurlöndum nær.

Alþingi leggur áherslu á að viðurkenna beri sjálfsákvörðunarrétt palestínsku þjóðarinnar og tilverurétt Ísraelsríkis.“ Enn fremur segir í ályktuninni: „Alþingi telur að Ísland eigi að hafa vinsamleg samskipti við Frelsissamtök Palestínu, PLO.“

Ég ákvað að fylgja eftir ályktun Alþingis, og þáði boð um að heimsækja Arafat í höfuðstöðvum hans í Túnis. Þangað fór ég þann 12. maí, 1990, fyrstur norrænna forsætisráðherra. Arafat tók mér mjög vel. Ég gerði honum grein fyrir ályktun Alþingis og viðhorfi Íslendinga. Við áttum ágætar og hreinskiptar umræður. Ég sannfærðist um að Arafat vildi mikið til vinna að ná samningum og friði við Ísrael, en hann var með erfitt bakland.

Ýmsir mikils metnir einstaklingar hafa bent á þau atriði, sem ég hef nefnt, sem forsendu samkomulags á milli Ísrael og Palestínumanna og gagnrýnt harðlega framkomuna við Palestínumenn. Þetta gerir m.a. einn merkasti baráttumaður fyrir mannréttindum, sem uppi er nú, Carter, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, í bók, sem er nýlega út komin. Fyrir bók sína hefur Carter verið fordæmdur af harðlínugyðingum í Bandaríkjunum.

Mjög athyglisverð er einnig niðurstaða eins virtasta fræðimanns gyðinga í nútímasögu, prófessors Ilan Pappe. Prófessorinn kemst að þeirri niðurstöðu eftir ítarlega rannsókn á áður lokuðum heimildum um það, sem í raun gerðist árið 1948, þegar Ísraelsríki var formlega stofnað, að hin opinbera söguskýring sé röng og í raun fölsuð og svo hafi verið alla tíð síðan. Í erindi, sem dr. Pappe flutti í Tokyo í marsmánuði s.l., lýsir hann þeirri skoðun sinni að „þrátt fyrir harða alheims gagnrýni hefur Ísrael í engu breytt stefnu sinni um hernám og þjóðfélagslega hreinsun. Forysta zíonista skilur ekki enn, að breyting á þessari stefnu er forsenda tilveru [Ísraelsríkis].“ (Í lauslegri þýðingu minni.)

Staðreyndin er að friður er ekki síður nauðsynlegur fyrir íbúa Ísraels en Palestínu. Friður í Miðausturlöndum er reyndar nauðsynlegur fyrir okkur öll, íbúa í litlum heimi.

Birtist í Frjáls Palestína.

Scroll to Top