Það var seint um kvöld í janúar sl. sem ég kom á heimili Sveins Rúnars Haukssonar, læknis og formanns Félagsins Ísland-Palestína, til að taka viðtal við Ali Zbeidat. Ali Zbeidat er Palestínumaður, búsettur í Sakhnin, sem nú liggur innan landamæra Ísraelsríkis. Hann hefur í áraraðir barist fyrir mannréttindum Palestínumanna sem búa innan landamæra Ísraels (stundum kallaðir ísraelskir arabar) og er fyrrum pólitískur fangi. Hann hefur verið framarlega í baráttunni gegn niðurrifi Ísraela á íbúðarhúsum Palestínumanna, sem hann hefur sjálfur reynslu af. Hann kom til Íslands á vegum Félagsins Ísland-Palestína og hélt opinn fund í Alþjóðahúsinu, en auk ræðu sem hann hélt var sýnd 25 mínútna heimildamynd um eyðileggingu palestínskra íbúðarhúsa. Ali hafði verið í viðtölum allan daginn þegar mig bar að garði og átti að fljúga af landi brott daginn eftir, en samt gaf hann sér tíma til að ræða við mig. Það stóð heldur ekki á svörunum.

Ali: „Fyrst vil ég nefna að fyrir 1948 var Palestína eitt land. Það gekk undir nafninu Palestína öldum saman og fólk bjó þar. Ísrael varð til fyrir tilstilli Bandaríkjanna, Evrópu og annara ríkja og Sameinuðu þjóðirnar kváðu á um að Palestínu yrði skipt í tvennt, en þegar til átti að taka hertóku gyðingar 78% af Palestínu strax árið 1948 og hin 22% landsins voru hertekin árið 1967. Hvar sem ég fer legg ég áherslu á að það gleymist ekki, að hertekna landið er einnig það sem var hertekið árið 1948. Það sama gildir um það og Vesturbakkann og Gaza, það er enginn munur þar á. Fyrir okkur er öll Palestína hertekin.
Ég álít Ísrael ekki lögmætt ríki. Það er runnið undan rifjum zíonista og byggir á nýlendustefnu og rasisma, bæði hugmyndafræðilega og í verki, og hefur verið þannig í heil 60 ár. Á þessum 60 árum urðu 2/3 Palestínumanna flóttamenn. 97% landsins var gert upptækt, 530 þorp voru jöfnuð við jörðu. Slíkt ríki getur ekki verið ríki Palestínumanna. Þvert á móti var það reist á rústum palestínsks samfélags. Núna reyna margir ekki aðeins að sundra landi Palestínumanna heldur Palestínumönnum sjálfum. Þeir halda að hver reyni að leysa vandamál sín á eigin hátt í sínu horni, Palestínumenn á Gaza sér, þeir á Vesturbakkanum sér, að þeir í Ísrael þurfi að finna sínar eigin lausnir innan Ísraelsríkis og að flóttamennirnir í Líbanon og Sýrlandi þurfi að finna lausn á vanda sínum fjarri þorpunum sínum og heimilum.
Við leggjum áherslu á það að við erum ein þjóð, hvar sem við erum og hvað sem líður stjórmálaástandinu sem veldur núna sundrung – við álítum okkur eina þjóð Palestínumanna alls staðar. Eins og aðrar þjóðir hafa Palestínumenn sjálfsákvörðunarrétt, rétt til sjálfsvarnar og til að snúa aftur til lands síns og heimila. Þess vegna segjum við að réttur flóttamanna sé lögmætur – grundvallarréttindi sem við munum aldrei hvika frá.“
Ali kemur frá bænum Sakhnin í Galíleu. Hann segir suma telja Galíleu til Ísraels, en Ali segir bæinn sinn vera palestínskan þótt bærinn og landið séu hernumin. Þar sæti fólk í senn hernámi, mismunun, húsasrústunum og aðskilnaðarstefnu. Landtökubyggðir séu út um allt og þess vegna sé Palestínumönnum meinað að þróast, að þróa samfélagið og þorpin, og allt starf hans miði að því að berjast fyrir lögmætum réttindum þeirra. Þetta þýði að fólkið sé andvígt yfirráðum zíonista á landinu þeirra, sem það telur ólöglegt.
Ali segist hafa verið dæmdur nokkrum sinnum í fangelsi fyrir baráttu sína fyrir lögmætum réttindum Palestínumanna. Einu sinni hafi hann setið sex ár inni og einu sinni þrettán ár. Hann hafi sætt ferðatakmörkunum, verið haldið í stofufangelsi mörgum sinnum og verið hnepptur í varðhald svo vikum og mánuðum skipti. Þrátt fyrir það hafi barátta hans og félaga hans verið friðsamleg; fólkið hafi einungis farið í kröfugöngur og þess háttar, en jafnvel slíkt sé bannað.

Ali segist gáttaður á því hversu margir trúi lyginni um að Ísrael sé eina lýðræðisríkið á svæðinu. Sé nokkurt lýðræði einskorðist það við landtökumennina, fasíska Ísraela sem séu vopnaðir og ofsæki Palestínumenn hvar vetna á Vestubakkanum og um alla Palestínu. Kannski hafi þeir eitthvað lýðræði en fyrir Palestínumenn sé ástandið verra en undir nokkurri einræðisstjórn.
Ali segir mér nánar frá ástandinu í fangelsunum í Palestínu. Þar séu nú 11.500 fangar, sem hann telur að sé hæsta hlutfall í veröldinni. Meðal þeirra séu núna um 100 ungmenni undir sextán ára aldri. Samkvæmt alþjóðalögum sé þetta ólöglegt, en Ísrael virði ekki nokkur alþjóðalög. Aðstæður fanganna segir hann afar slæmar. Flest fangelsin séu í Negev-eyðimörkinni. Þar sé afar heitt á sumrin og afar kalt á veturna, illa sé hlúð að heilbrigði þeirra, verðirnir komi illa fram við þá, yfirvöldin setji þeim endalausar skorður, sértaklega heimsóknum frá fjölskyldum þeirra. Fangarnir búa að auki við slæman mat og stöðuga ólykt. Þeir hafi þurft að berjast lengi fyrir að fá að búa við eilítið mannúðlegri aðstæður, fyrir að fá einum brauðmola meira með matnum sínum eða stöku heimsóknir frá ættingjum.
„Í mörg ár þurftu palestínskir fangar að greiða þetta dýru verði; um tvö hundruð manns létust innan fangelsismúra vegna illrar meðferðar af hálfu ísraelskra yfirvalda. Þess vegna teljum við að frelsun fanganna sé eitt mikilvægasta mál í allri réttindabaráttu Palestínumanna.“
Ali segir húsið sitt, sem sé í hættu á að vera rifið, ekki einsdæmi, það séu um 30.000 palestínsk hús sem eigi á hættu að vera rifin í Galíleu einni. Þetta sé einfalt, stefna Ísraels liggi ljós fyrir: Þeir vilji eins mikið af landi og hægt er, með sem fæstu fólki. Ísraelar beiti hvarvetna miklum þrýstingi til að framfylgja þessari stefnu og þar af leiðandi fái Palestínumenn ekki leyfi til að byggja ný hús og erfiðast sé þetta fyrir ung pör. Það sé orðið stærsta vandamál arabískra bæja og þorpa að fá ekki rými til að þróast og fólki sé meinað að byggja ný hús eða önnur nauðsynleg mannvirki. Palestínumenn hafi erft þetta land frá forfeðrum sínum og byggt þar og búið kynslóðum saman frá því löngu áður en Ísraelsríki var stofnað, og telji sig því eiga fullan rétt á að byggja húsin sín á landinu sínu í þorpunum sínum. Ali telur að flestir hafi lært af því sem gerðist árið 1948. Hlutirnir séu erfiðari núna, en fólkið muni halda áfram að standa fast á landinu sínu og hvergi gefast upp. Þetta snúist um land og allt það sem sé að gerast núna á pólitíska sviðinu.
Ég spyr Ali hvort hann og félagar hans hafi unnið með öðrum friðar- eða mannréttindahreyfingum og hvernig sú samvinna hafi þá gengið.
„Fyrir löngu starfaði ég með ýmsum stjórmálaflokkum og öðrum hreyfingum en ég vinn núna sjálfstætt með öðrum einstaklingum. Ég trúi ekki lengur að nokkur stjórnmálaflokkur geti talað í nafni fólksins. Flokkarnir hafa sína eigin stefnuskrá. Stundum erum við sammála og stundum vinnum við saman, en stundum ekki. Fyrir mig skipta stjórnmálaflokkar ekki miklu máli, heldur aðeins fólkið sjálft. Ég vinn því mest beint með því og það er fjöldi einstaklinga og hópa sem hafna stjórnmálaflokkum, sem vinna þessi störf.“
Ég bið Ali að segja mér nánar frá hans eigin reynslu af því þegar átti að rífa húsið hans. Hvernig það atvikaðist, upplifun hans, hvernig Ísraelar hafi reynt að réttlæta það, um lagalegar leiðir til að áfrýja og hvernig málið gekk fyrir rétti.
„Í heimabænum mínum, Sakhnin, búa um 20.000 íbúar. 90% landsins var gert upptækt og lagt undir landtökubyggðir eða herbúðir umhverfis Sakhnin. Það eru 30 landtökubyggðir umhverfis bæinn og þær eru sameiginlega kallaðar Misgav. Samtals eru búa 15.000 manns í landtökubyggðunum og ráða yfir 183 ferkílómetrum lands, en íbúar Sakhnin eiga aðeins 9 ferkílómetra.
Ég bjó í nokkur ár í Hollandi og sneri aftur til Sakhnin árið 1994. Ég bjó þar í 4 ár í litlu húsi með bróður mínum. En að því kom, að ég var kominn með fjölskyldu og bróðir minn var með enn stærri fjölskyldu, og húsið rúmaði okkur ekki öll. Við eigum landskika sem tilheyrði föður okkar, það er meira að segja skráð hjá yfirvöldum í Ísrael, það leikur enginn vafi á eignarrétti okkar, svo ég reyndi að byggja lítið hús á þessari landareign, sem er umkringd húsunum í Sakhnin á þrjá vegu. Ég leitaði til skipulagsstofnunar, sem sagði mér að þessi landskiki tilheyrði Misgav, þ.e. landtökubyggðunum. Ég veit ekki hvernig hann lenti þar, en öll kortin eru teiknuð hjá innanríkisráðuneytinu í Jerúsalem án þess að það sé borið undir neinn. Ég fór því til landtökubyggarinnar og bað, rétt eins og aðrir borgarar, um leyfi til að byggja hús. Ég þurfti að bíða í 4 ár þar til þeir gáfu mér skýra neitun, þeir vildu ekki leyfa mér að byggja húsið mitt.
Eftir að ég gafst upp á þessu lagaferli, sem var í raun alls ekki löglegt í mínu tilfelli, byggði ég húsið mitt bara samt og fjöldi fólks, jafnvel úr öðrum þorpum og bæjum, aðstoðaði mig. Ég byggði húsið mitt í leyfisleysi árið 1998. Ég fékk samstundis fyrirskipun um að rífa húsið, annars myndu þeir senda herinn, jarðýtur og lögreglu til að gera það innan þriggja sólarhringa. Ég flýtti mér því að hafa samband við fjölda fólks frá Sakhnin og þúsundir fólks dreif að, reiðubúið að leggjast fyrir jarðýturnar ef með þyrfti.
Þegar yfirvöld sáu hversu alvarlegt málið var og hvert gæti stefnt, hættu þau við að senda jarðýturnar á svæðið. Þess í stað var ég kærður fyrir að byggja húsið mitt ólöglega. Dómstóllinn vinnur eftir rasískum aðskilnaðarlögum og mér var sagt að ég þyrfti að fá leyfi, annars yrði húsinu mínu einfaldlega rústað og ég var látinn greiða háa sekt.
Kaldhæðnin og harmleikurinn í þessu öllu saman er að ég get ekki fengið leyfi, af þeirri einföldu ástæðu að þeir úthluta ekki leyfum. Fjöldi fólks reyndi þó að hafa áhrif. Borgarstjórinn í Sakhnin, nefndin sem átti að fylgja tilskipuninni eftir, og jafnvel þingmenn í Knessetinu stigu fram og sögðu að það væri fáránlegt og órökrétt að neita mér leyfi til að byggja húsið. Málin standa þannig að við höfum skipulagsnefndir sem eru skipaðar af yfirvöldum, og hlutverk þeirra er að finna leiðir til að hindra borgarana í að geta fengið tilskilin leyfi í stað þess að hjálpa fólki að skipuleggja sig eða fá leyfin. Fram til dagsins í dag höfum við staðið í baráttu í réttarsölum, í Knessetinu og meðal almennings til að fá því framgengt að þessi svokölluðu ólöglegu hús verði úrskurðuð lögmæt, og mitt hús er þar á meðal. Það var byggt í trássi við lög, en það stendur enn og ég bý þar með fjölskyldunni minni. Á hverri stundu gæti það samt verið rifið. Ég, konan mín, börnin mín og margir íbúanna í Sakhnin höfum hins vegar einsett okkur að ef nokkur dirfist að rústa húsinu okkar, þá munum við falla með því og sá hinn sami neyðist þá til að grafa okkur undir húsarústunum. Við eigum ekki í nein önnur hús að venda og við getum ekki sætt okkur við að reistar séu gríðarstórar landtökubyggðir – það er ekki einu sinni búið í þeim öllum – á meðan fjölskyldu er bannað að reisa sér lítið hús til að skýla sér um vetur. Svona standa sem sagt málin með húsið mitt.“
Ég spyr hann nánar hvort honum sé virkilega engin leið fær samkvæmt lögum þar í landi.
Ali segir lögin byggð á rasisma, eins og annað. Það sé ekki hægt að áfrýja til laga sem séu hönnuð til að vinna gegn manni. Hann hafi reynt að áfrýja til æðri dómstiga, en það hafi verið sama sagan. Svona sé þetta víðar en í Sakhnín, þetta sé svona alls staðar og sum staðar jafnvel verra en hjá honum sjálfum. Til dæmis vilji Ísraelar rústa heilu þorpunum í Negev, þar sem fjöldi palestínskra bedúína býr – þar séu um 40 þorp sem séu „ekki viðurkennd“.
„Þeir vilja ekki eyða einu og einu húsi heldur vilja þeir safna öllum bedúínunum saman á einn stað, en það eru um 70.000 manns, og smala þeim í einn bæ þar sem alla innviði vantar og þróunaraðstoð er engin. Þeir umturna lífsviðurværi þeirra. Þeir vilja ekki að íbúarnir séu fjárhirðar eða bændur áfram, heldur vilja þeir taka land til að byggja landtökubyggðir og herbúðir. Ástandið er því miklu miklu, verra þar heldur en hjá okkur norður í Galíleu.“
Ég spyr hvort yfirvöld hafi gefið út einhvers konar yfirlýsingu eða reynt með öðrum hætti að réttlæta það að þau vildu láta rífa hús Alis.
Ali segir núna vera starfandi sérstakt ráðuneyti fyrir þetta sem nefnist Þróunarstofnun Galíleu og Negev. Í raun sé þróunaraðstoð hennar samt ekki fyrir Palestínumenn, heldur aðeins fyrir landtökumennina.
Hann segir Ísraela vilja safna Palestínumönnum saman í samanþjöppuðum háhýsabyggðum í stað lágreistra húsa í dreifbýli, undir því yfirskyni að þeir vilji hjálpa þeim að „þróast“, en í raun sé þetta aðeins til að Ísraelar geti tekið meira land af þeim. Ef ísraelsk fjölskylda vill fá leyfi til að reisa hús einhvers staðar þá fær hún öll þau leyfi sem henni sýnist. Í Negev séu meira að segja til svokallaðar einstaklingslandtökubyggðir, þar sem ein manneskja getur sest að, ein eða með litla fjölskyldu og fengið viðurkenningu, aðstoð og hvaðeina. Alls staðar í heiminum séu borgir en það segi enginn, t.d. í Bandaríkjunum, að þeir vilji rústa ákveðnu þorpi til að þorpsbúar „geti“ flutt til borganna. Þetta sé allt ein stór lygi til að koma höndum yfir meira land. Fram til 1948 tilheyrðu 97% landsins aröbum en nú eiga þeir minna en 3%. Nú viðurkenna Ísraelar að baráttan snýst um land. Ali segir að ein stærsta lygi zíonismans sé þegar þeir sögðu fyrir 120 árum að þeir væru landlausir menn að flytja til mannlauss lands. Þeir vildu sanna þessa kenningu sína, en það var bara þjóð fyrir í landinu. Þar voru bændur, menn bjuggu þar og störfuðu – þetta var helber lygi.
Ég spyr Ali um heimildamynd sem var sýnd í Friðarhúsinu, sem fjallaði um hvernig Ísraelar rústa húsum Palestínumanna og viðnám þeirra gegn því. Ali Zbeidat gegnir stóru hlutverki í þeirri mynd, þar sem hann segir sögu sína og frá ástandinu og baráttunni gegn niðurrifinu.
„Norskur fréttamaður og heimildamyndagerðarmaður gerði myndina. Hann hafði dvalist og unnið á margvíslegum stöðum í Palestínu. Við unnum saman og tókum húsið mitt sem dæmi, en töluðum líka um niðurrifsstefnuna í víðara samhengi. Við sýndum myndina í Reykjavík þar sem fjöldi fólks sá hana. Málið lá afar ljóst fyrir og ég skynjaði að öllum líkaði myndin og skildu vandamálið.
Við sýndum líka á hátíðum í Hollandi, í Noregi og víðar; hún fékk 2. verðlaun á kvikmyndahátíð í Los Angeles og var sýnd á nokkrum stöðum þar. Í Palestínu sýndum við hana í Nasaret, Jerúsalem og Sakhnin. Þessi mynd er í raun ekki pólitísk eða áróðurskennd, þetta er bara heimildamynd og við sýnum myndir af húsinu, við töluðum við fólk sem var orðið heimilislaust og við fólk sem reyndi að skilja hvað fengi Ísraela til að gera þetta. Ég tel myndina afar fræðandi, góða heimildamynd.“
Ég spyr hvort viðbrögðin við myndinni hafi þá almennt verið jákvæð.
Ali: „Hingað til hef ég aðeins heyrt jákvæð viðbrögð.“
Einnig í Ísrael?
„Sumir sýndu afar jákvæð viðbrögð. Það fór eftir því hverjum hún var sýnd. Fólk á hægri vængnum kemur ekki til að sjá svona myndir. Aðrir mannréttindasinnar og aktívistar, hvort sem um var að ræða einstaklinga eða hreyfingar, lýsti mikilli ánægju með hana.“
Var myndin sýnd í almennum kvikmyndahúsum í Ísrael?
„Hún var um tíma tekin til sýninga í einu kvikmyndahúsi. Þetta er í fyrsta sinn sem við gerum heimildamynd um þetta efni, en vandamálið sjálft er mjög vel þekkt. Nú erum við komin með fjöldahreyfingu og hvenær sem við heyrum að yfirvöld vilji rífa nokkurt hús nokkurs staðar, þá er strax gripið til aðgerða: Við fylkjum öll liði og sýnum samstöðu, stundum dveljum við alla nóttina við húsið til að hindra jarðýturnar. Síðasta atvikið átti sér stað fyrir þremur vikum í þorpi sem heitir Hara. Þar átti að rústa þremur húsum en hundruð manna þustu til og komu í veg fyrir það. Í sumum tilvikum, þegar þorpin eru lítil og langt í burtu, tekst yfirvöldum að láta rústa húsunum, en við höfum stöðvað það víða annars staðar. Það er ekki lengur eins auðvelt fyrir yfirvöld að gera þetta.“
Ég bið Ali að segja mér nánar frá því hvernig ástandið á Gaza horfi við honum og hvaða augum hann líti ráðstefnuna í Annapolis.
Ali lýsir því hvernig hann les á hverjum degi um dráp á Gaza. Þar sé fólk drepið svo til daglega og Palestínumenn séu hættir að telja mannfallið. 17 manns hafi verið drepnir á þeim tveimur mánuðum sem liðnir séu frá ráðstefnunni í Annapolis í nóvember 2007. Landtökubyggðunum fjölgar og þær eru stækkaðar. Nú sé verið að byggja nýja landtökubyggð í Jerúsalem og áfram sé haldið að byggja múrinn. Hann segir ástandið á Gaza vera stríðsglæp, glæp gegn mannkyni. Fólkið sem beri ábyrgð á því ætti að vera dregið fyrir alþjóðlegan stríðsglæpadómstól. Glæpir þeirra séu þekktir, glæpir Baraks, Sharons, Mofaz og Dan Halutz, og allir viti upp á hár hvað þeir hafi unnið til saka. Til allrar hamingju sé fólk núna orðið meðvitað um þetta, og Ali nefnir sem dæmi að 15 háttsettir yfirmenn Ísraelshers þori ekki að fara út fyrir Ísrael, því víða starfi samstöðuhreyfingar að því að fá þá dregna fyrir rétt og ákærða. Síðasta dæmið hafi verið í London, þegar yfirmaður heraflans þorði ekki þangað vegna þess að mannréttindasamtök gyðinga, Palestínumanna og Englendinga hafi verið tilbúin með kærur til að leggja fram gegn honum. Ali og félagar hans krefjast þess að ísraelskir stríðsglæpamenn verði dregnir fyrir alþjóðadómstól sem fyrst.
Ali segir þjóðernishreinsanir nú eiga sér stað á Gaza. Hann lýsir því hvernig innflutningur á lyfjum hafi verið stöðvaður, skorið hafi verið á rafmagn, fólk svelti og Sameinuðu þjóðirnar vari við síversnandi ástandinu. Ali segir það ekki aðeins vera Ísraelsher sem beri ábyrgð á ástandinu, heldur alþjóðasamfélagið líka, sérstaklega Bandaríkin og ESB. Allir sem viti af ástandinu og geri ekkert séu meðsekir og verði að svara til saka fyrir það. Þetta sé harmleikur Palestínumanna og ef sömu atburðir gerðust annars staðar væru viðbrögð umheimsins önnur. Það þurfi að stöðva Ísrael áður en allt fari í bál og brand. Ali segir fólk ekki telja að Bandaríkjastjórn áhugasama um að semja um frið. Nú sé Bush í heimsókn í Ísrael, sem sé að sjálfsögðu eina landið í Mið-Austurlöndum sem hann heimsæki því hann sé ekki velkominn annars staðar. Ali segir friðartal Bush einungis hafa verið sjónarspil. Hann hafi logið að umheiminum og jafnvel sjálfum sér þegar hann lofaði að friður yrði kominn á fyrir árslok 2008. Hann segir Bush ekki hafa frið í huga heldur vilji hann þvert á móti safna liði í stríð gegn Íran. Það sé meginmarkmið heimsóknarinnar.
Aðspurður um hvaða mögulegar lausnir hann sjái í stöðunni, segist Ali ekki trúa því að hugmyndin um tvö ríki muni ganga. Ísrael og Bandaríkin hafi eyðilagt alla möguleika á ríki á Vesturbakkanum. Það sé ekki hægt að reka lífvænlegt ríki með 600 km langan, 8 metra háan múr með 600 eftirlitsstöðum, sem aðskilji þorp frá þorpi, fjölskyldur frá fjölskyldum og nemendur frá skólunum sínum. Þetta eigi sér enga hliðstæðu í sögunni. Landtökubyggðir og eftirlitsstöðvar séu hvarvetna.
Ali segir landtökubyggðirnar skipta Vesturbakkanum í fjóra eða fimm meginhluta, og allar samgöngur þar á milli séu ómögulegar. Hann spyr hvers konar ríki það eigi að vera. Ísraelskir og palestínskir stjórnmálamenn séu líka margir hverjir sannfærðir um það sín á milli, að tveggja ríkja lausnin muni ekki duga. Sjálfur segist hann skynja aukið fylgi við eins ríkis lausnina, og segist telja að trú á henni muni fara vaxandi. Til skamms tíma litið játar hann að hann sé ef til vill svartsýnn, en til lengri tíma litið sé hann hins vegar mjög bjartsýnn og telji að ástandið eigi eftir að breytast og batna þótt það sé ólíft núna.
Þar sem landamærin frá 1967 eru einu landamærin sem Sameinuðu þjóðirnar viðurkenna og eru viðurkennd alþjóðlega, spyr ég Ali hvort hann samþykkti sjálfur lífvænlegt ríki innan þeirra landamæra ef það byðist, og eins hvort hann telji Palestínumenn almennt mundu fallast á slíkt.
Ali segist ekki telja að slíkt tilboð kæmi nokkurn tímann. Hann segist telja að friður samræmist ekki núverandi eðli Ísraels. Það sé ekki hægt að búast við að hægt sé að semja um raunverlegan frið við ríki sem byggist á nýlendustefnu og rasisma. Hann leggur áherslu á að aðskilnaðarstefna ríki í Ísrael og líkir ástandinu við Suður-Afríku á tíma apartheid-stjórnarinnar. Ótta gyðinga við að verða „bolað út í sjó“ muni ekki linna fyrr en aðskilnaðarstefnan verði upprætt, rétt eins og gerðist í Suður-Afríku. Þar búi hvítir menn ennþá og hafi það betra en víða annars staðar.
Ég spyr Ali hvort hann telji almenning á svæðinu munu knýja fram eitt ríki fyrir alla, eins og hann lýsti, eða hvort alþjóðlegs þrýstings og íhlutunar sé þörf til þess að slíkt geti orðið.
Ali telur að þrýstingurinn verði að hefjast meðal fólksins í landinu, hann verði að koma frá Palestínumönnum og þeim gyðingum sem hafna zíonisma. Að sjálfsögðu þurfi utanaðkomandi þrýstingur líka að koma til og þetta tvennt sé hvort tveggja nauðsynlegt. Ali segist vera vongóður. Ísrael neiti enn að axla ábyrgð á því sem gerðist 1948 og hafni rétti flóttamanna til að snúa aftur til heimkynna sinna. Þeir neiti að fjarlægja landtökubyggðirnar og vilji halda áfram uppbyggingu múrsins. Þeir neiti Palestínumönnum í Jerúsalem um réttindi sín. „Hvernig er hægt að semja um frið, um eitt ríki eða tvö við svona aðstæður?“ Það verði að snúa baki við zíonisma, landráni, aðskilnaðastefnu og rasisma. Hann telur einu lausnina felast í veraldlegu lýðræðisríki þar sem allir íbúarnir standi jafnir.
Ég spyr Ali hvað hann telji að umheimurinn, bæði stjórnvöld og venjulegt fólk, geti lagt jákvætt af mörkum, og nefni sérstaklega Ísland.
„Strax eftir aðeins fárra daga dvöl hér, kom það mér á óvart hvað margir Íslendingar vita hvað er að gerast, og almennt sýndu þeir mikinn skilning og samúð með málstað Palestínumanna. Ég fann sannarlega til mikillar samstöðu. Ég vona að þetta muni halda áfram og þróast frekar. Venjulegt fólk getur alltaf farið til Palestínu sem sjálfboðaliðar, aðstoðað við félagsstörf, sjúkrahús eða aðstoðað bágstadda, það er nóg verk að vinna þar. Ég veit að margir hafa unnið sjálfboðastörf og margir eru að því núna, en ég vonast líka til þess að meiri þrýstingur verði settur á stjórnvöld að taka skýra afstöðu gegn glæpum Ísraels, fordæma Ísrael innan Evrópu, innan Sameinuðu þjóðanna og senda bein mótmæli til Ísraels gegn aðförunum á Gaza og annars staðar í Palestínu.“
Ali hvetur fólk til að koma til Palestínu og sjá ástandið með eigin augum. Sjálfur muni hann taka vel á móti hverjum þeim sem það gerir og sé tilbúinn að deila reynslu sinni.
Ég spyr Ali að lokum hvaða augum hann líti framtíðina og hvernig ungt fólk í Palestínu líti á ástandið.
„Eins og ég nefndi, þá er ástandið núna mjög dimmt og dapurlegt vegna allra vandmálanna, en það mun von bráðar breytast. Bush verður farinn eftir eitt ár. Olmert verður ekki einu sinni svo lengi í viðbót. Nú er hann flæktur í málaferli vegna spillingar. Við arabar segjum stundum að þegar neyðin er stærst, sé hjálpin næst.
Hvað æskuna varðar, þá býr von hverrar þjóðar í henni. Ef gamla fólkið þreytist á baráttunni og eygir enga von, þá heldur æskan henni áfram og framtíð þjóðarinnar er bundin við hana. Unga fólkið er jafnvel meðvitaðra en eldri kynslóðin, og enn einbeittara í að halda baráttunni áfram. Þetta gerir Ísraela alveg óða. Það er mikil andstaða stefnu þeirra meðal unga fólksins í Palestínu og maður sér unga fólkið fara fyrir kröfugöngunum á Landdeginum, Alakba eða í mótmælum. Það vekur von um framtíðina.“
Viðtal: Einar Steinn Valgarðsson
Birtist í Frjáls Palestína.