Að undanförnu hefur spurning brotist um í höfði mínu og haldið fyrir mér vöku: Hvað fékk unga Palestínumanninn, sem braut inn í Kibbutz Metzer, til að miða vopninu sínu á móður með tvö börn og drepa þau?

Í stríði drepur maður ekki börn. Það er eðlislægt grundvallaratriði meðal fólks, óháð þjóð og menningu. Jafnvel Palestínumaður sem vill hefna fyrir þau hundruð barna sem Ísraelsher hefur drepið, ætti ekki að taka hefnd sína út á barni. Það siðferðislögmál er ekki til, sem segir „barn fyrir barn“.
Fólkið sem gerir þetta er ekki þekkt sem brjálaðir morðingjar með meðfæddan blóðþorsta. Þeim er lýst í nánast öllum viðtölum sem ósköp eðlileg um einstaklingum sem hneigjast ekki til ofbeldis. Margir þeirra eru ekki öfgatrúarmenn. Sirkhan Sirkhan, maðurinn sem framdi ódæðið í Kibbutz Metzer, tilheyrði reyndar Fatah-hreyfingunni, sem er veraldleg. Þessar manneskjur koma af öllum þjóðfélagsstigum, sumar úr fátækum fjölskyldum sem lifa við hungurmörk, en aðrar koma úr millistéttafjölskyldum, eru háskólanemar, menntafólk. Erfðaefni þeirra er ekkert öðruvísi en okkar. Hvað er það þá sem fær fólk til að fremja þessi verk? Hvað fær aðra Palestínumenn til að réttlæta þau?
Til að þola við er nauðsynlegt að skilja, og það þýðir ekki að maður réttlæti. Ekkert í veröldinni getur réttlætt að Palestínumaður skjóti barn í fangi móður sinnar, rétt eins og ekkert getur réttlætt Ísraela sem varpar sprengju á hús þar sem barn sefur í rúminu sínu. Eins og hebreska skáldið Bialik reit fyrir hundrað árum, eftir Kishinev-ofsókninirnar: „Jafnvel Satan hefur ekki enn hugsað upp hefnd fyrir blóð lítils barns.“
Án skilnings er ómögulegt að takast á við vandann. Yfirmenn hersins hafa einfalda lausn: Skjóta, skjóta drepa. Drepið árásarmennina. Drepið yfirmenn þeirra. Drepið leiðtoga hreyfinganna þeirra. Rústið heimilum fjölskyldnanna þeirra og sendið ættingja þeirra í útlegð. En, eins ótrúlegt og það kann að virðast, hafa þessar aðferðir þveröfug áhrif. Eftir að risavaxin jarðýta hersins jafnar „innviði hryðjuverkastarfseminnar“ við jörðu, og rústar, drepur og rífur allt upp með rótum sem verður á vegi hennar, eru nýir „innviðir“ komnir á laggirnar innan fárra daga. Samkvæmt skjölum hersins sjálfs hafa komið meira en fimmtíu aðvaranir á dag, vegna aðsteðjandi hættu, meðan á nýlegri hernaðaraðgerð stóð, sem kennd var við „Varnarskjöld“. Ástæðuna fyrir þessu má draga saman í einu orði: Heift.
Hræðileg heift sem fyllir sálu manns og skilur ekki eftir pláss fyrir nokkurt annað. Heift sem stýrir öllu lífi manns, og gerir sjálft lífið ómerkilegt. Heift sem þurrkar burt öll mörk, myrkvar öll gildi og slítur festar fjölskyldu og ábyrgðar. Heift sem maður vaknar með að morgni, fer með til svefns á kvöldin og dreymir um á nóttunni. Heift sem segir við mann: Farðu á fætur, taktu vopn eða sprengjubelti, farðu heim til þeirra og dreptu, dreptu, dreptu, sama hverjar afleiðingarnar verða. Venjulegur Ísraeli sem hefur aldrei verið á svæðum Palestínumanna getur ekki einu sinni ímyndað sér orsakirnar fyrir þessar heift. Fjölmiðlarnir okkar hunsa gjörsamlega það sem er að gerast þar, eða færa okkur það í sykurhúðuðum smáskömmtum. Hinn almenni Ísraeli veit nokkurn veginn að Palestínumenn þjást (það er að sjálfsögðu þeim sjálfum að kenna) en hann hefur enga hugmynd um hvað á sér stað þar í rauninni. Hann varðar heldur ekkert um það. Húsum er rústað. Kaupmaður, lögfræðingur, eða venjulegur handverksmaður sem er virtur í samfélaginu sínu, verður á einni nóttu „heimilislaus“, og börnin hans og barnabörn líka. Hvert þeirra sem er gæti orðið sjálfsmorðsprengjumaður.
Ávaxtatré í þúsundatali eru rifin upp með rótum. Fyrir hermanninum er þetta aðeins tré sem er fyrir honum. Fyrir eigendunum er þetta hjartablóð þeirra, arfleið forfeðra þeirra, áralangt strit, lifibrauð fjölskyldunnar. Hvaða fjölskyldumeðlimur sem er gæti orðið sjálfsmorðssprengjumaður. Á hæð milli þorpanna hefur hópur fanta reist „útvarðarstöð“. Herinn mætir á svæðið til að vernda þá.

Þegar þorpsbúarnir koma til að vinna á ökrum sínum er skotið á þá. Þeim er bannað að erja akra eða vinna í aldingörðum í tveggja kílómetra radíus, svo að öryggi „útvarðarins“ sé ekki stefnt í voða. Bændurnir mæna úr fjarska á ávextina sína rotna á trjánum, akrana þekjast þyrnum og þistlum sem ná manni upp í hné, á meðan börnin þeirra hafa ekkert að borða. Hver þeirra sem er gæti orðið sjálfsmorðssprengjumaður. Fólk er drepið. Limlest lík liggja á götum úti í allra augsýn. Sumir eru „píslarvottar“, sem kusu sér örlög sín sjálfir. En margt annað fólk – menn, konur og börn – er drepið „fyrir mistök“ þar sem það „reyndi að flýja“, var „nálægt skotmarkinu“ eða vegna einhverrar annarrar af hundrað og einni afsökun sem opinberir talsmenn nota. Herinn biðst ekki afsökunar, herforingjum og hermönnum er ekki refsað vegna þess að „svona er þetta í stríði“. En sérhver manneskja sem var drepin á foreldra, bræður, syni eða frændur. Hver þeirra sem er gæti orðið sjálfsmorðssprengjumaður.
Fyrir utan þetta eru fjölskyldurnar sem lifa við hungurmörk, og þjást af alvarlegum næringarskorti. Feður sem geta ekki fært börnum sínum mat fyllast örvæntingu. Þetta gætu allt orðið sjálfs morðssprengjumenn. Hundruðum þúsunda er haldið í útgöngubanni svo vikum og mánuðum skiptir, átta manneskjur kúldrast í tveim eða þrem herbergjum. Þær aðstæður eru víti líkastar og erfitt að gera sér í hugarlund, á meðan landtökumennirnir skemmta sér konuglega fyrir utan og njóta verndar hersins. Þetta er vítahringur: Í gær ollu sprengjuárásarmennirnir útgöngubanninu og útgöngubannið elur af sér sprengjuárásarmenn morgundagsins. Fyrir utan allt þetta er hin algera niðurlæging sem allir Palestínumenn, óháð aldri, kyni eða þjóðfélagsstöðu, upplifa hverja einustu stund í lífi sínu. Ekki afstæða niðurlægingu, heldur afar áþreifanlega: Að líf hans og dauði séu háð duttlungum átján ára drengs úti á götu eða við einn af hinum óteljandi vegatálmum sem Palestínumenn þurfa að fara um, hvert sem þeir ætla, á meðan óaldarhópar landtökumanna eru frjálsir ferða sinna og „heimsækja“ þorpin þeirra, rústa eignum þeirra, tína ólífurnar og bera eld að aldingörðunum. Ísraeli sem hefur ekki séð þetta getur ekki ímyndað sér annað eins líf, kringumstæður þar sem hvaða skíthæll sem er hegðar sér eins og kóngur í ríki sínu, og „þrællinn er orðinn húsbóndi“ – kringumstæður þar sem í besta falli er fólki bölvað og hrint, oft hótað með vopnum og stundum í raun og veru skotið. Að ekki sé minnst á sjúklinga á leið í blóðskilun, óléttu konurnar á leið á spítala, námsmenn sem komast ekki í kennslutímana sína og börn sem komast ekki í skólann. Ungmennin sem sjá virðulega afann sinn niðurlægðan opinberlega af einkennisklæddum stráksa með horinn lekandi úr nefinu. Hvert þeirra sem er gæti orðið sjálfsmorðsprengjumaður. Venjulegur Ísraeli getur ekki ímyndað sér allt þetta. Hermennirnir eru, þrátt fyrir allt, góðir strákar, synir okkar allra, það er ekki lengra en síðan í gær að þeir voru skóladrengir. En þegar maður tekur þessa góðu stráka, setur þá í einkennisbúninga, treður þeim í gegnum hernaðarmaskínuna og setur þá í aðstæður þar sem hernám ríkir, þá kemur eitthvað fyrir þá. Margir reyna að halda mannlegri ásjónu við ómögulegar kringumstæður, margir aðrir verða að vélmennum sem fylgja einfaldlega fyrirskipunum. Og það eru alltaf, í öllum hópum, einhverjir truflaðir einstaklingar sem dafna við svona ástand og fremja viðurstyggileg verk, vitandi það að yfirmenn þeirra munu líta undan – eða blikka þá með velþóknun.
Ekkert af þessu réttlætir að barn sé drepið í fangi móður þess. En það hjálpar manni að skilja hvers vegna þetta á sér stað og hvers vegna þetta mun halda áfram að gerast eins lengi og hernámið varir.
Einar Steinn Valgarðsson þýddi.
Birtist í Frjáls Palestína.