Vonir um frið í Miðausturlöndum hafa ekki glæðst sem skildi undanfarna mánuði. Mál hafa þróast þannig, að ekki verður lengur sagt, að fyrr eða síðar hljóti réttlátur friður að nást, heldur mun nær sanni, að friður náist fyrr eða aldrei. Hátt á annað ár er nú liðið frá undirritun Oslóar-yfirlýsingarinnar um grundvallaratriði (Declaration of Principles) sem líta mátti á sem fyrsta skrefið í eiginlegum friðarumleitunum Ísraelsstjórnar og PLO, Frelsissamtaka Palestínumanna.

fangelsinu Ansar 2 á Gaza.
Madridráðstefnan og framhaldsfundir hennar, sem Bandaríkjastjórn beitti sér fyrir áður, höfðu hvað eftir annað siglt í strand. Þær viðræður voru þeim annmarka háðar, að Bandaríkjastjórn lét Ísraela komast upp með að viðurkenna ekki PLO, eina réttmæta fulltrúa palestínsku þjóðarinnar, sem fullgildan aðila að fundunum. Sá hroki hernámsstjórnarinnar spillti eðlilega fyrir viðræðunum, sem snúast áttu fyrst og fremst um framtíð Palestínu.
Það var því fagnaðarefni, þegar fréttist í septemberbyrjun 1993, að ráðamenn Ísraels, Yitshak Rabin og Shimon Peres, væru reiðubúnir að setjast að samningaborði, andspænis Jasser Arafat, forseta Palestínu. Það hefur ekki verið jafnánægjulegt að fylgjast með framgangi þessara viðræðna og efndum Ísraelsmanna á þeim fyrirheitum sem gefin voru um að aflétta hernáminu og fá Palestínumönnum í hendur stjórn sinna mála.
Vonbrigði á vonbrigði ofan hafa einkennt þá tuttugu mánuði sem liðnir eru. Íbúar herteknu svæðanna hafa ekki fundið fyrir breytingum til batnaðar og smám saman hafa vonirnar kulnað. Möguleikar íbúanna til að brauðfæða sig hafa síst lagast og ofbeldi hernámsins er viðvarandi.
Enn eru ekki færri en sjö þúsund samviskufangar í Ísraelskum fangelsum við illan aðbúnað. Ísraelar hafa leyft sér að nota pólitísku fangana sem gísla. Í stað þess að láta þá alla lausa tafarlaust í samræmi við alþjóðalög, er takmörkuðum hópi sleppt af og til, þegar Ísraelsku herforingjunum finnst þeir hafa náð einhverju fram í viðræðum. Á sama tíma er haldið áfram að fangelsa fólk á öllum aldri, þar á meðal börn, meðal annars fyrir það eitt að láta í Ijós aðra skoðun á hernáminu og „friðarferlinu“ en þóknanleg er Ísraelsstjórn.
Ástandið minnir einatt á allsherjar fangabúðir. Það á ekki síst við, þegar Ísraelsher lokar af allri umferð til og frá Vesturbakkanum og Gazasvæðinu. Þegar hryðjuverk eru framin af einstaklingum, sem taldir eru til Palestínumanna, er þjóðinni allri, það er íbúum herteknu svæðanna, refsað með innilokun og útgöngubanni. Slík hóprefsing sem bitnar á hverjum einasta íbúa, alveg án tillits til aldurs eða aðstæðna, hvað þá heldur afstöðu til málsins, er einkar grimmdarleg. Hún er einnig gróft brot á Genfarsamningunum um meðferð íbúa í hernumdum löndum og brot á öðrum mannréttinda- og alþjóðalögum. Þegar hryðjuverkamennirnir eru hinsvegar skráðir Gyðingatrúar og með Ísraelskt vegabréf, horfa málin öðru vísi við. Þá varpar Ísraelsstjórn allri ábyrgð af sér og kennir um brjálsemi einstakra manna, jafnvel þótt viðkomandi sé einkennisklæddur herforingi í liði Ísraels, eins og raunin var við hin hryllilegu fjöldamorð fyrir rúmu ári í Abrahamsmoskunni í Hebron.

Jafnvel enn alvarlegra er, að þau stóru mál, sem á eftir að útkljá í eiginlegum friðarviðræðum, virðast óleysanlegri en fyrr. Framtíð hinnar herteknu Jerúsalemborgar, landnemabyggðimar, réttur flóttamanna til að snúa heim aftur, endanleg brottför Ísraelska hemámsliðsins og viðurkenning á rétti Palestínumanna til sjálfstæðs ríkis, allt eru þetta grundvallaratriði sem Ísraelskir ráðamenn virðast engan veginn tilbúnir til að taka á með friðsamlega lausn fyrir augum. Þvert á móti hefur stöðugt verið aukið á hernám Jerúsalemborgar og nágrennis hennar og sífellt er verið að styrkja landnemabyggðir og vígstöðu Ísraelshers.
Sú tímaáætlun, sem Oslóaryfirlýsingin gerði ráð fyrir, er öll úr skorðum gengin. Þannig hefur tilflutningi ísraelska hernámsliðsins seinkað og kosningum verið slegið á frest. Yfirgangur Ísraelsstjórnar kemur meðal annars fram í því, að hún vill ráða því, hvaða Palestínumenn fái að kjósa, og tekur þá mið af skoðunum þeirra. Semja á um kosningar í byrjun júlí. Samkvæmt síðustu tímaáætlun eiga friðarviðræðurnar sjálfar að hefjast eigi síðar en í maíbyrjun 1996. Þá eiga stóru málin loks að komast á dagskrá.
Mikil breyting þarf að verða á viðhorfum og framferði Ísraelsstjórnar ef friðsamleg lausn á að nást. Sú breyting þarf að koma fljótt ef ekki á að sjóða upp úr. Fyrirsögn þessarar greinar vísar til þess, hversu knýjandi afstöðubreytingin er: Friður fyrr eða aldrei. Tíminn er útrunninn. Palestínumenn hafa viðurkennt tilvist Ísraelsríkis, en Ísraelar eiga eftir að sýna að þeir séu reiðubúnir til að viðurkenna rétt palestínsku þjóðarinnar til frelsis og fullveldis og þarmeð tilurð Palestínuríkis. Sú viðurkenning þarf að koma strax.
Birtist í Frjáls Palestína.