Afvegaleiðing meginstraums fjölmiðla á vesturlöndum varðandi málefni Palestínu hefur um langt skeið fylgt ákveðinni aðferðafræði til að sjálfviljugt þóknast hagsmunum vestrænna stjórnvalda, þ.m.t. bandarískra og ísraelskra.
Þar hafa fjársterkir og öflugir þrýstihópar ísraela á vesturlöndum verið hvað mest ráðandi enda hefur það verið sérstakt markmið Ísraels að halda úti áróðri (Hasbara) á vesturlöndum til að afvegaleiða staðreyndir um nýlenduverkefni síonista í Palestínu þar sem þjóðernishreinsun, þjóðarmorð og landrán hefur staðið yfir í 77 ár.
Þrýstingur á fjölmiðla
Sjálfsritskoðun blaðamanna eykst því meira sem þrýstingur ólíkra hagsmunaaðila og þrýstihópa eykst og það á ekki síst við um fréttaumfjöllun um málefni Palestínu.
Þrýstingurinn kemur frá eigendum viðkomandi fjölmiðla, fjárhagslegum bakhjörlum þeirra (m.a. stuðningsaðilum ísraelsríkis (síonistum)) og fjársterkra ísraelskra þrýstihópa á vesturlöndum sem valda viðvarandi og skipulögðu áreiti gegn fréttastofum, blaðamönnum og ritstjórum ef fréttaflutningur er ekki þeim að skapi.
Þrýstihópur ísraela er mjög áhrifaríkur í að beina neikvæðri umsögn til fréttastofa. „Það eykur óþægindin fyrir ritstjóra og framleiðendur þegar þeir snerta eitthvað af þessum fréttum.“
William Youmans, rannsakandi í alþjóðlegum fjölmiðlum, lögum og stjórnmálum.
Afleiðing áreitis frá innri og ytri aðilum
Afleiðingin er að blaðamenn sem berjast fyrir betri umfjöllun um það sem raunverulega á sér stað á Gaza verða fyrir m.a. eftirfarandi hefndaraðgerðum af hálfu fréttastofanna:
- fréttaumfjöllun um Gaza er flutt til annarra blaðamanna.
- ekki tekið við efni um Gaza frá lausráðnum blaðamönnum til umfjöllunar í fjölmiðlinum ef þær kunna að stuða hagsmunaaðila og þrýstihópa.
- endalausar tillögur ritstjórnar um breytt orðalag fréttar áður en hún fæst birt (til að þreyta blaðamann eða seinka/sleppa birtingu fréttarinnar).
Aðferðafræðin felst í því að skapa vinnuumhverfi þar sem blaðamenn finna sig óörugga í sinni fréttaumfjöllun þegar hún kann að vera í andstöðu við vilja eigenda, bakhjarla, samstarfsmanna eða öflugra utanaðkomandi þrýstihópa.
Eftirfarandi eru dæmi um það sem blaðamenn hafa fengið að reyna vegna umfjöllunar um atburði í Palestínu og þá sérstaklega Gaza:
- Blaðamenn upplifa ótta og fyrirlitningu í fréttavinnslu á fréttastofunni þegar þeir vilja fjalla ítarlega um Palestínu.
- Ritstjórar segja viðkomandi blaðamönnum að fréttastofan fjalli ekki um erlendir fréttir þrátt fyrir að fjallað sé um Úkraínu og Íran.
- Blaðamenn óska eftir að fréttastofan ítreki kröfur alþjóðalaga um vernd samstarfsmanna á vettvangi og almennur leiðari er skrifaður um vernd blaðamanna á átakasvæðum án þess að minnast á hlutverk Ísraels í brotum á alþjóðalögum í því sambandi.
Starfsmannahald fjölmiðla
Fréttastofur vestrænna fjölmiðla hafa ráðið fyrrverandi yfirmenn leyniþjónustu Ísraels og blaðafulltrúa þeirra til starfa til að fjalla sérstaklega um Palestínu sem þjónkun við hagsmuni ísraelskra stjórnvalda.
- New York Times réð fyrrverandi ofursta í leyniþjónustu Ísraels til að fjalla um nauðganir 7. okt. 2023 með ótrúverðugum heimildum.
- CNN réð fyrrverandi blaðafulltrúa Ísraels og ofursta í leyniþjónustu Ísraels á fréttastofu sína í Jerúsalem sem annaðist fréttaumfjöllun og fréttamat atburða í Palestínu og sú vinnsla var háð kvöðum um ritskoðun af hálfu Ísraelska hersins.
- The Wall Street Journal réð fyrrverandi ofursta Ísraelska hersins í starf pólitísks fréttaritara til að halda á lofti fullyrðingum Ísraelskra stjórnvalda sem miðuðu að því að grafa undan starfsemi Flóttamannahjálpar SÞ fyrir Palestínu (UNRWA).
- Blaðamenn sem eru af palestínskum uppruna eða arabar og múslimar voru færðir til í starfi vegna þess að þeir voru taldir hlutdrægir miðað við uppruna sinn eða trú.
Áreiðanleiki fréttaheimilda
Margar bandarískar fréttastofur vísa til ísraelskra opinberra heimilda, þar á meðal hernaðarheimilda, þrátt fyrir að þær hafi margsinnis reynst óáreiðanlegar á umliðnum áratugum og jafnframt eru palestínskar heimildir dregnar í efa.
Umdeildir ritstjórnarferlar
Fréttir um Palestínu eru oft undirorpin óvenju umdeildum ritstjórnarferlum sem miða að því að koma í veg fyrir áreiti frá ísraelskum þrýstihópum. Margar bandarískar fréttastofur fyrirskipuðu blaðamönnum og ritstjórum að forðast hugtök sem mannréttindasérfræðingar nota almennt til að lýsa brotum Ísraelsmanna á alþjóðalögum.
Fyrir 17. október 2023 þá minntust enskir fréttamiðlar almennt á Heilbrigðisráðuneyti Palestínu varðandi tölur látinna palestínumanna en eftir það fóru þeir að nota hugtakið „Hamas rekið“ eða „Hamas stjórnað“ Heilbrigðisráðuneyti til að rugla saman borgaralegu ráðuneyti og vopnuðum andspyrnuhópi.
Dæmi um ritskoðun ritstjórnar á viðurkenndum hugtökum sem best lýsa því sem fjallað er um og í staðinn að nota hugtök sem ná ekki almennilega utan um það sem verið er að lýsa og eru jafnvel afvegaleiðandi, sjá eftirfarandi ábendingu ritstjóra til blaðamanns:
Vinsamlegast skiptið orðinu „aðskilnaðarstefna“ út fyrir „mismunun“ í sögunni, jafnvel þótt það sé úr beinni tilvitnun. Fjarlægið hugtakið „þjóðernishreinsun“ og lýsið fjöldaflutningum Ísraelsmanna á Palestínumönnum á Gaza sem „brottflutningi“.
Ritstjórnir sumra vestrænna fjölmiðla (m.a. New York Times) gáfu út lista yfir hugtök sem blaðamenn fjölmiðlanna voru beðnir um að forðast í fréttaumfjöllun um Palestínu og Gaza, sjá eftirfarandi lista:
- Aðskilnaðarstefna
- Nýlendustefna
- Þjóðernishreinsun
- Þjóðarmorð
- Hernumið landsvæði
- Palestína
- Flóttamannabúðir
- Síonismi
Hlutdrægni í fréttaumfjöllun
Afmennskandi orðalag gagnvart Palestínumönnum fékk oft ekki sömu naflaskoðun og orðalag sem staðfesti réttindi Palestínumanna.
Dæmi um fréttaflutning hjá AP fréttastofunni:
- Upplýsingar frá palestínumönnum eru dregnar í efa með því að gefa til kynna að um fullyrðingu sé að ræða en ekki staðreynd, „Heilbrigðisráðuneyti Gaza sagði„, eða hlutlaust tilgreina atburði þar sem gerandi er ekki nefndur, „hefðu verið drepin„, og að afmennska með köldum hætti þegar börn eru myrt, „undir 18 ára aldri„.
- Fréttflutningur um palestínumenn er hins vegar þannig að gerandi er ávallt tilgreindur og ísraelar eru myrtir, „Árás Hamas … drap“ og myrtum ísraelum er lýst með mannlegum og lýsandi hætti, „börn og unga tónlistarhátíðargesti„.
„Heilbrigðisráðuneyti Gaza sagði á föstudag að um það bil 1.900 manns hefðu verið drepin á svæðinu, þar á meðal meira en 580 undir 18 ára aldri og 351 kona. Árás Hamas … drap meira en 1.300 manns í Ísrael, þar á meðal konur, börn og unga tónlistarhátíðargesti.“
Frétt frá Associated Press, 13. október 2023
Samkvæmt greiningu þriggja helstu fjölmiðla voru gildishlaðin lýsingarorð (e. emotive terms) oftar notuð til að lýsa dauðsföllum ísraelsmanna en dauðsföllum palestínumanna, sérstaklega á fyrstu vikum þjóðarmorðsins.
Minnisblað sent á blaðamenn New York Times varðandi fréttaumfjöllun um Palestínu
Orð eins og „slátrun“, „fjöldamorð“ og „blóðbað“ miðla oft meiri tilfinningum en upplýsingum. Hugsið ykkur vel um áður en þið notið þau með ykkar röddu.
Minnisblað New York Times, nóvember 2023
Orð sem notuð voru í fréttaumfjöllun New York Times á tímabilinu 7. október til 24. nóvember 2023
Orðanotkun í fréttaflutningi | Látnir ísraelar (hversu oft notuð) | Látnir palestínumenn (hversu oft notuð) |
---|---|---|
Fjöldamorð | 53 | 1 |
Slátrun | 22 | 1 |
Hræðilegt | 11 | 1 |
Á endanum skyggir ritstjórnarferlið oft á hver, hvað og hvers vegna í sögunni – kjarnan í umfjöllun staðreynda – sem sjálfviljugt verndar hagsmuni bandarískra og ísraelskra stjórnvalda.
Heimildir:
- Visualizing Palestine – Sjónræn birting á niðurstöðum rannsóknarskýrslu Laura Albast hjá Prism Reports á hlutdrægni gagnvart Ísrael í hefðbundnum bandarískum fréttastofum, sérstaklega eftir 7. október 2023. Skýrslan kannar ítarlega reynslu blaðamanna af kúgun og þöggun í Bandaríkjunum með ítarlegum hætti og staðreyndum um þjóðarmorðin. Þetta samstarf milli Prism og Visualizing Palestine afhjúpar og lýsir því hvað gerist við fréttir um Palestínu í bandarískum fréttastofum, frá upphafi fréttar til umfjöllunar, ritstjórnunar og birtingar.
- Prism Reports – ‘I’m so dehumanized’: Journalists say U.S. newsrooms treat Palestine with fear and contempt
- Sjá einnig greinar (pistla) hér að neðan sem innihalda vísun í frekari heimildir.