Nýlenduveldi fyrri tíma voru böl þjóðanna sem urðu fórnarlömb þeirra. Nýlendustefnan byggir á kynþáttahyggju, frumbyggjar í löndum Afríku, Asíu og Suður Ameríku voru undirokaðir, rændir landi sínu og lífsháttum.
Frumbyggjar Palestínu, með yfir 4000 ára sögu búsetu í landinu, voru ekki hafðir með í ráðum þá þótt það væri framtíð þeirra sem um var að tefla
Saga Palestínuþjóðarinnar er hrópandi dæmi um þjóð sem vestræna nýlenduhyggjan hefur haldið í krumlum sínum allt frá árinu 1922. Þá fól Þjóðabandalagið heimsveldi Breta umsjón Palestínu eftir sigur á Ottómanveldinu 1917. Frumbyggjar Palestínu, með yfir 4000 ára sögu búsetu í landinu, voru ekki hafðir með í ráðum þá þótt það væri framtíð þeirra sem um var að tefla. Bresku heimsvaldasinnarnir studdu síðan síonista til áhrifa í Palestínu og bera beina sök á því ástandi sem þar hefur ríkt frá árinu 1947.
Að undirlagi Breta lagði Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna til skiptingu Palestínu milli frumbyggja landsins og aðkomufólks frá Evrópu árið 1947. Palestínumönnum var haldið utan við umræður og ráðagerðir um framtíð þeirra, gömlu nýlenduveldin réðu mestu um þróun mála. Niðurstaðan varð sú að Ísrael, síonískt nýlenduríki, tók yfir stærstan hluta Palestínu með stuðningi Vesturveldanna, og hrakti frumbyggjana á brott.
Í dag er enn verið að ráðskast með örlög Palestínumanna. Þorgerður Katrin utanríkisráðherra smáríkisins Íslands gefur út fáránlegar yfirlýsingar um að sumir Palestínumenn skuli ekki fá að eiga þátt í mótun þeirra eigin framtíðar. Hvaðan fær hún umboð til slíkra yfirlýsinga? Verkefni ríkisstjórnar Íslands er að stöðva þjóðarmorðið með öllum ráðum, eins og Sáttmálinn gegn þjóðarmorði kveður á um.
Eftir smá hlé í þjóðarmorðsstríði Ísraels (vopnahlé sem Ísrael virðir einskis) á Gaza og á Vesturbakkanum hefur Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkt tillögu sem ríkisstjórn Trumps lagði fyrir Öryggisráðið og sögð „vera söguleg heildaráætlun um að binda enda á átökin á Gaza.“ Allt er í sama farinu. Framtíð Palestínumanna er á dagskrá án þeirra aðkomu.
Í tillögu Bandaríkjanna eru áætlanir um „að stofna alþjóðlega hersveit sem tryggi öryggi á landamærasvæðum og annist afvopnun á Gaza í samvinnu við Ísraela, Egypta og nýstofnaða palestínska lögreglu.“
Afvopnun á Gaza þýðir eingöngu afvopnun palestínsku sveitanna sem hafa staðið gegn árásum Ísraels; gegn þjóðarmorðinu. Afvopnun í „samráði við Ísrael“, — já — það á að vera í samráði við hersveitirnar sem hafa drepið tugþúsundir Palestínumanna bæði á Gaza og á Vesturbakkanum í samráði við stjórnvöld sem hafa sigað her sínum á framtíð Palestínuþjóðarinnar – á börnin. Börn hafa verið drepin – og limlest – og svelt – og gerð munaðarlaus – og svipt menntun í hundruð-þúsunda tali.
Samþykkt Öryggisráðs SÞ felur Donald Trump æðstu stjórn yfir Gaza, og mögulega með stríðsglæpamanninn Tony Blair sem næsta undirmann sinn í „friðarráði“. Þetta er sami Trump og hélt ræðu í þingi Ísraels 13. október sl. og hrósaði her Ísraels fyrir beitingu vopna sem Bandaríkin sendu þeim til að drepa Palestínumenn: „En þið notuðuð þau vel. Það þarf líka fólk sem kann að nota þau og þið notið þau augljóslega mjög vel.“
Bestu grínistar ná ekki að toppa þessar ráðgerðir – enda er þetta ekkert fyndið.
Palestínski læknirinn og baráttukonan Ghada Karmi sagði í viðtali sem ég tók við hana: „Stofnun Ísraels var vestrænt framtak“ og „í augum Araba augljóst dæmi um nýlendustofnun“ þar sem aðkomufólki frá Evrópu „var leyft að yfirtaka land og stofna ríki”. “Þetta var alþjóðlegur glæpur – það er engin önnur leið til að lýsa þessum hörmungaratburði”.
Þessi alþjóðlegi glæpur, þetta „vestræna framtak” er enn í fullu gildi.
Enn skal framtíð Palestínuþjóðarinnar vera í höndum þeirra sem starfa uppfullir af kynþáttahyggju nýlendustefnunnar. Og nú koma einnig til leiks ríkisbubbarnir Jared Kushner tengdasonur Trumps og Elon Musk. Þeir ætla að fjárfesta á Gaza – til þess að létta Gazabúum lífið? Nei – til þess að stela, eiga og græða i samvinnu bandarískrar heimsvaldastefnu og síonistaríkisins.
Palestínumenn eiga landið sem siðspilltir stjórnmálaleiðtogar og fjárglæframenn hyggjast nú ráðskast með. Palestínumenn og stuðningsfólk þeirra um allan heim munu berjast gegn þessum áformum.
Lifi frjáls Palestína!
Birtist í Frjáls Palestína.
