Apartheid í Palestínu

Það hefur vafalaust ekki farið framhjá neinum að sannkölluð ógnaröld hefur geisað í Palestínu og Ísrael síðan Ariel Sharon heimsótti hina hernumdu Musterishæð fyrir um einu og hálfu ári ásamt fjölmennu her- og lögregluliði. Undanfarið hefur heimsbyggðin horft upp á ofbeldið á svæðinu stigmagnast. Þær raddir verða háværari að hér sé á ferðinni vítahringur sem ómögulegt sé að leysa og margir vestrænir ráðamenn tala um að Ísraelsmenn og Palestínumenn eigi jafn mikla sök á friðnum. Hér er verið er að breiða yfir kjarna málsins: 35 ára hernám Ísraelsmanna á palestínsku landi, og þá staðreynd að lykilinn að lausn átakanna er að finna í samþykktum Sameinuðu þjóðanna. Það er hreinlega kjánalegt að leggja að jöfnu eitt öflugasta herveldi heims og varnarlausa þjóð sem ekki aðeins hefur fallist á samþykktir S.þ. heldur einnig nýjar vopnahlés og friðartillögur Bandaríkjamanna og Sádi-Araba. Palestínska þjóðin hefur mátt þola hernám og kúgun Ísraelsmanna í áratugi og það hefur aldrei verið mikilvægara en nú að taka undir kröfur hennar um al þjóðlega vernd.

Palestínumenn eru þjóð án heimalands. Um ein milljón þeirra býr sem annarsflokks þegnar í sérríki ætluðu gyðingum, Ísrael, en Palestínumenn eru bæði múslimar og kristnir. Meginpartur þjóðarinnar býr hins vegar án ríkisborgararréttar við ísraelskt hernám, á einangruðum sjálfstjórnarsvæðum og sem flóttamenn. Samkvæmt flóttamannahjálp S.þ. eru palestínskir flóttamenn um 4 milljónir og hírist þriðjungur þeirra í flóttamannabúðum. Réttur þeirra til að snúa aftur til heimkynna sinna hefur verið sniðgenginn af Ísraelsstjórn þrátt fyrir margítrekaðar ályktanir S.þ.

Kúgunar- og hernámsstefna

Ísraela Ísraelsmenn hertóku síðustu landsvæðin sem áður tilheyrðu Palestínu, Vesturbakkann og Gasaströndina, fyrir 35 árum. Þó þessi svæði hafi ekki verið innlimuð í Ísraelsríki hefur hernámsliðið innleitt þar kerfi þar sem fólki er gróflega mismunað eftir þjóðerni og trú. Þessi ísraelska útgáfa af aðskilnaðarstefnu (Apartheit) er jafnvel grimmilegri en sú sem leið undir lok í Suður-Afríku fyrir rúmum áratug. Þar sem Ísraelsmenn telja Genfarsáttmálann og önnur alþjóðalög ekki gilda á hernámsvæðum sínum eru íbúar þeirra réttlausir og ofurseldir vilja hernámsliðsins.

Einn af hornsteinum kúgunarstefnu Ísraela og ein helsta hindrunin í átt til friðar á svæðinu er skipulagt landrán Ísraelsmanna. Mörg ákjósanlegustu landsvæði Palestínumanna hafa á undanförnum áratugum verið gerð upptæk fyrir aðflutta gyðinga og í dag hefur helmingur alls lands á Vesturbakkanum og Gasa verið lagður undir landránsbyggðir og starfsemi hersins. Hið aðflutta landránsfólk býr sem herraþjóð í landi annarra og nýtur m.a. kosningaréttar og annara réttinda samkvæmt Ísraelskum lögum, auk forgangs til vatnsveitu. Varla þarf að taka það fram að landránið stenst hvorki alþjóðalög né samþykktir S.þ. Innan Ísraelsríkis er Palestínumönnum einnig mismunað á skipulagðan hátt. Bæði fyrir og eftir stofnun Ísraelsríkis hafa eigur þeirra, íbúðarhús og landsvæði verið gerð upptæk í stórum stíl og komið í hendur gyðinga. Um 90% allra Palestínumanna í Ísrael búa á svokölluðum „öryggissvæðum“ undir herlögum þar sem aðgangur þeirra að mennta- og sjúkrakerfi landsins er takmarkaður og atvinnumöguleikar mun síðri. Sumar arabískar byggðir innan Ísraels eru flokkaðar sem „ósamþykktar“ og fá ekki rafmagn, þó vatnsveita til þeirra hafi verið tryggð eftir úrskurð Alþjóðadómstólsins í Haag. Augljósasta misréttið felst í lögum Ísraelsríkis þar sem fólki af gyðingatrú er tryggður réttur til að flytjast til Ísraels á meðan palestínskum flóttamönnum er neitað um að snúa aftur til heimkynna sinna innan Ísraels og Palestínu.

Hið aðflutta landránsfólk býr sem herraþjóð í landi annarra og nýtur m.a. kosningaréttar og annara réttinda samkvæmt Ísraelskum lögum, auk forgangs til vatnsveitu. Varla þarf að taka það fram að landránið stenst hvorki alþjóðalög né samþykktir S.þ.

Réttmætar kröfur Palestínumanna

Þegar aðildarríki S.þ. samþykktu árið 1947 að skipta Palestínu milli gyðinga, sem flestir voru aðkomumenn og aðeins tæpur þriðjungur íbúanna, og Palestínumanna, fengu þeir fyrrnefndu yfir helming landsins. Í átökunum sem fylgdu skiptingunni náðu Ísraelsmenn 78% landsins á sitt vald og lögðu síðar undir sig alla Palestínu. Í dag krefjast Palestínumenn þess aðeins að fá aftur þau svæði sem Ísraelar hertóku árið 1967 (22% af upprunalegri stærð Palestínu) og stofna þar sjálfstætt ríki, að palestínskir flóttamenn fái að snúa aftur og að landránið verði stöðvað. Þessar kröfur eru allar í takt við samþykktir S.þ. Barátta Palestínumanna fyrir frelsi sínu og mannréttindum hefur stundum tekið á sig ljóta mynd. Í dag sjáum við ungt fólk sem lifað hefur við hernám og í flóttamannabúðum allt sitt líf svo blindað af hatri að það er tilbúið að taka eigið líf í hryðjuverkaárásum á ísraelska borgara. Sjálfsmorðsárásir skaða frelsisbaráttu Palestínumanna meira en nokkuð annað, enda fordæmdar af palestínskum yfirvöldum. Þær breyta því hins vegar ekki að stöðva verður undirrót hatursins, kúgunarkefi Ísraela og hernám þeirra á palestínsku landi.

Hvað getum við Íslendingar gert?

Þó við Íslendingar séum fámenn þjóð getur stefna okkar í alþjóðamálum skipt máli. Til dæmis voru ráðamenn okkar fljótir að viðurkenna sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna fyrir um áratug og fulltrúar okkar hjá S.þ. áttu ekki í vandræðum með að greiða atkvæði með skiptingu Palestínu árið 1947 og gegna stóru hlutveki í stofnun Ísraelsríkis. Er ekki kominn tími til að við viðurkennum og styðjum í verki rétt Palestínumanna til að fá að snúa aftur til heimalands síns og lifa sem frjáls þjóð í eigin ríki?

Við höfum tök á að láta rödd okkar heyrast á alþjóðavettvangi og nota atkvæðisréttinn hjá S.þ. með skynsamlegri hætti en að sitja hjá þegar kosið er um hvort senda eigi alþjóðlegt friðargæslulið til verndar Palestínumönnum. Við eigum að sýna heiminum gott fordæmi og slíta öllum tengslum við ríkisstjórn Sharons og setja viðskiptabann á Ísrael þar til ráðamenn þar í landi taka sér tak og virða alþjóðalög, friðarsamninga og samþykktir S.þ. Alþjóðlegur þrýstingur getur skipt sköpum í baráttunni gegn hernámi og mismunun fólks eftir trú og þjóðerni. Fall aðskilnaðarstefnunnar í Suður-Afríku er gott dæmi um það..

Birtist fyrst í Frjáls Palestína.

Höfundur

Stöðvið helför Ísraels á Gaza - Mótmæli.
Mótmæli við ríkistjórnarfund Hverfisgötu 4, föstudaginn 22. ágúst klukkan 8:45, nánar.

Scroll to Top