Peningar, vald og hvítþvottur þjóðarmorðs: Ný heimsmynd Trumps

Ræða Donalds Trump í ísraelska þinginu þann 13. október var ógeðsleg. Þetta var ekkert annað en sjálfsupphafning og opinberun á spillingu í beinni útsendingu og hápunktur í nýrri pólitískri heimsmynd þar sem blóð, peningar og völd renna saman í eitt. Þetta var tilkynning um nýtt siðferðislegt landslag: þar sem opinber stuðningur við þjóðarmorð er ekki lengur taboo. Trump nýtti tækifærið til að þakka Miriam Adelson ísraelsk-amerískum milljarðamæringi fyrir 100 milljón Bandaríkjadala í framlög til kosningabaráttu sinnar og leyndist engum að framlag Miriam átti stóran þátt í að tryggja stuðning Trumps við herrekstur Ísraels. Þarna mátti sjá valdið afhjúpa sig, án skammar, án dulargervis, án siðferðis. Það sem áður þótti óhugsandi er orðið markaðsvara: stuðningur við þjóðarmorð, seldur á markaði. Hér má sjá ræðuna í fullri lengd:

Trump er ekki að miðla friði – hann er að selja Palestínu

Það er nauðsynlegt að undirstrika afdráttarlaust að Trump er ekki að boða frið. Hann lítur ekki á Palestínu sem heimili milljóna manna, heldur sem markaðsvöru. Sýn hans á „framtíð Gaza“ er ekki fullvalda ríki, heldur viðskiptaverkefni eftir stríð fjármögnuð af ríkum arabískum ríkjum, stjórnað af bandamönnum Bandaríkjanna, byggt upp sem „efnahagssvæði“ án þjóðarréttar, lýðræðis eða sjálfsákvörðunarréttar. Trump og fjölskylda hans hafa fjárhagslega hagsmuni af hernámi Ísraels yfir Palestínu. Jared Kushner, lykilmaður í „samningunum um framtíð svæðisins“, hefur þegið milljarða frá Sádi-Arabíu og öðrum ríkjum inn í fjárfestingarsjóð sinn og fjárfest í ísraelskum fyrirtækjum á hernumdu svæðum. Að láta slíkan mann, sem gegnir þar að auki engu opinberu embætti hanna framtíð Palestínu er ekki aðeins hagsmunaárekstur það er siðferðislegur fáránleiki.

Á meðan Donald Trump stóð í ræðustól í Knessetinu og hafnaði allri umræðu um sjálfstætt ríki Palestínu, flutti Abdel Fattah El-Sisi, forseti Egyptalands. friðarboðskap á ráðstefnunni í Sharm El-Sheikh, þar sem hann lýsti því yfir að tveggja ríkja lausnin væri „eina raunhæfa leiðin“ til friðar. Á sama tíma hafði Trump sagt: „There will be no Palestinian state. There will be no return to 1967 borders.“ Þetta ósamræmi opinberar hið klassíska leikrit svæðisins: leiðtogar nota orð um „reisn og réttlæti“ fyrir framan alþjóðasamfélagið en taka þátt í pólitískum samningum sem útiloka einmitt þá framtíð sem þeir segjast styðja. Í þessu samhengi verður ljóst að „friðarsamningurinn“ sem var kynntur í Sharm El-Sheikh byggir ekki á réttlæti heldur á valdi. Þar sem Bandaríkin hafna tveggja ríkja lausn og Ísrael fær frjálst spil til að halda áfram hernámi og landtökum, er það sem kallað er „friðarsamningur“ er í raun aðeins formfesting áframhaldandi kúgunar.

Og hvað gerist næst? Ekki friður í eiginlegum skilningi því hernámið heldur áfram. Planið eflir bara kerfisbundna aðskilnaðarstefnu. Það er enginn rammi fyrir sjálfstæði Palestínumanna í þessum samningum. Engin viðurkenning á rétti til lands, frelsis eða öryggis. Aðeins frekara ofbeldi í dulargervi „stöðugleika“. Gleymum því ekki að hernámið hefur verið dæmt ólöglegt af Alþjóðadómstólnum og Netanyahu er eftirlýstur af Alþjóðasakamáladómstólnum.

Vopnahlé eða yfirbreiðsla fyrir áframhaldandi þjóðernishreinsanir

Þegar „vopnahléið“ var kynnt var það selt sem stórt skref í átt að friði. Leiðtogar Vesturlanda fögnuðu og þyrptust til Sharm El-Sheikh í “photo-opp” á meðan sprengjunum hélt áfram að rigna yfir Gaza. Vopnahléið er ekkert annað en taktískur leikur til dýpka hernámið. Ísrael sá fram á að vera hent úr Eurovision og hinum ýmsu íþróttamótum og Evrópusambandið boðaði viðskiptaþvinganir. Þetta kom því á góðum tíma fyrir Ísrael: „Nú þarf ekki að kjósa um sniðgöngu því það er kominn friður!“ En, það vakti sérstaka athygli mína þegar ég horfði á Trump boða frið og vopnahlé í ísraelska þinginu að Bezalel Smotrich, harðlínumaður og fjármálaráðherra í ríkisstjórn Netanyahu sem vill hernema Gaza og neyða Palestínumenn út í eyðimörkina sat skælbrosandi undir ræðu Trumps. Það sagði mér bara eitt: þeir ætla sér auðvitað ekki að virða ákvæðin í „friðarsamningi“ Trumps.

Endalausar afsakanir: nýtt markmið í hvert sinn sem hinu er náð

Fyrst var markmiðið að bjarga gíslunum: „Leysið gíslana úr haldi og árásum lýkur!“ Svo varð markmiðið að útrýma Hamas. Fjöldi Hamasliða þrátt fyrir 2ja ára átök er líklega sá sami og í upphafi enda ljóst að margir ungir menn sem misst hafa fjölskyldur sínar og sjá enga framtíð eru tilbúnir til að taka upp vopn og fórna sér. Þrátt fyrir að allir lifandi gíslar hafi verið leystir úr haldi og Ísraelar hafi samþykkt hið svokallaða „vopnahlé“ þá heldur sprengjuregnið áfram því nú snýst málið um afhendingu látinna gísla. Ef Hamas getur ekki afhent líkin sem eru undir 50—60 milljónum tonna af rústum þá ætla Ísraelsmenn að hefja aftur árásir (sem þeir hættu reyndar aldrei).

En gefum okkur að líkin verði afhent, þá verður næsta afsökun Ísraels að ástandið á Gaza sé „ótryggt“ eða „óstöðugt“ sem krefjist íhlutun Ísraelshers. Með því að veikja Hamas án þess að leyfa neinni borgaralegri palestinskri stjórnsýslu eða friðargæslu að taka við, er búið til hættulegt tómarúm. Það er stefna Ísraels að búa til stjórnleysi en Netanyahu hefur staðfest opinberlega að Ísraelsstjórn fjármagnar vopnaða hópa inn á Gaza til að berjast gegn Hamas. Þessi kaos tryggir að Palestína verði lýst sem „óstjórnhæf“ og að Ísrael geti sagt: „Við verðum að halda áfram að hafa umsjón með svæðinu í þágu öryggis.“

Vesturlönd vilja ódýra útleið — en það kostar meira til lengdar

Ástæðan fyrir því að Evrópa og Bandaríkin halda dauðahaldi í frásögnina um „vopnahlé“ er einföld: hún gerir þeim kleift að hylma yfir eigin hlutdeild og forðast pólitíska og lagalega ábyrgð. Sannleikurinn er óþægilegur, bæði siðferðislega og lagalega: þau studdu og voru meðsek í þjóðarmorði. Þau studdu Ísrael með vopnum, fjármagni, pólitískum stuðningi eða diplómatískri þögn. „Hlutleysi“ í slíku samhengi er ekki dyggð heldur samsekt.

Ef við höfum áhyggjur af öfgastefnu þá eigum við að byrja á því að horfast í augu við hvernig hún verður til. Með kúgun, með vanvirðingu og með hræsni. Það er ekki „róttækt“ að tala um þjóðarmorð eða að gagnrýna rík lönd sem vopnavæða og fjármagna kúgarann. Það er einfaldlega nauðsynlegt. Þögn í þessum aðstæðum er meðsekt. Og að kalla raddir Palestínumanna eða samstöðu með þeim „óhjálplega“ eða „öfgafulla“ er hluti af sama menningarlega doða sem gerir fjöldamorð möguleg.

Ég hef unnið í Mið- og Vestur-Asíu í næstum tuttugu ár. Reynsla mín segir mér að við höfum séð þetta áður. Í Afganistan, þar sem áratugalangt hernám Sovíetmanna og síðar innrás Vesturlanda mynduðu kjöraðstæður fyrir ekki bara uppreisn heldur líka öfgastefnu. Í Írak, þar sem ólögmæt innrás, byggð á lygum, varð til þess að yfir milljón manns létust og ISIS varð til. Í Íran, þar sem valdarán árið 1953, stutt af Bandaríkjunum, lagði grunninn að áratugalangri harðstjórn og óánægju yfir vestrænum afskiptum. Öll þessi dæmi sýna þad sama: kúgun fæðir öfgastefnu. Vonleysi fæðir ofbeldi. Óréttlæti fæðir andspyrnu.

Það er mikilvægt að muna að ISIS til að mynda er ekki einungis trúarlegur eða öfgafullur hópur hryðjuverkamanna heldur afleiðing óréttlætis og upplifaðrar kúgunar. Þetta er akkúrat það sem við verðum að skilja þegar við horfum á Gasa og svæðið í heild:

Öfgastefna dafnar í skugga grimmdar og óréttlætis. Ef heimsbyggðin lítur annað, eða hvetur til „stöðugleika“ á grundvelli ólýðræðislegra samninga og blóðugra kúgana, þá verður framtíðin ekki friðsæl heldur öfgakenndari og hættulegri fyrir botni Miðjarðarhafs.

Sá sem tekur þátt í þjóðarmorði er einfaldlega samsekur. Frelsisbarátta Palestínumanna heldur áfram.

Birtist í Frjáls Palestína.

Félagið Ísland-Palestína boðar til samstöðufundar "Hvílum Júróvisjón" n.k. miðvikudag 10. desember 2025, kl. 14:30 hjá RÚV í Efstaleiti 1, sjá nánar.

Scroll to Top