Þetta hefði getað verið mjög mikilvægt skjal,
- ef allir aðilar hefðu raunverulega viljað komast að sanngjarnri málamiðlun.
- ef Sharon og félagar væru raunverulega reiðubúnir til að skila hernumdu svæðunum og leysa upp landtökubyggðirnar.
- ef Bandaríkjamenn væru reiðubúnir til að sauma ærlega að Ísraelum.
- ef það væri forseti í Washington á borð við Dwight Eisenhower, sem gæfi skít og kanil fyrir atkvæði og kosningasjóðsframlög Gyðinga.
- ef George Bush væri sannfærður um að Vegvísirinn þjónaði hagsmunum sínum, en væri ekki bein til að henda í breska kjölturakkann.
- ef Tony Blair héldi að Vegvísirinn þjónaði hagsmunum sínum, en væri ekki brauðmoli til að henda í keppinauta sína heima fyrir.
- ef Sameinuðu þjóðirnar hefðu einhver raunveruleg völd.
- ef Evrópa hefði alvöru völd.
- ef Rússland hefði alvöru völd.
- ef amma mín ætti kagga.
Öll þessi EF eru af ímynduðum heimi. Þess vegna er tómt tal að ræða þetta plagg. Fóstrið er þegar dautt í kviði móður sinnar, Kvartettsins.
Þrátt fyrir þetta skulum við taka á málinu af þeirri alvöru sem því ber. Er þetta gott skjal? Gæti það verið gagnlegt, ef öll EFin væru raunhæf?
Til þess að svara þessu í alvöru verðum við að skilja á milli yfirlýstu markmiðanna og vegarins sem á að leiða til þeirra.

Markmiðin eru mjög jákvæð. Þetta eru sömu markmið og ísraelska friðarhreyfingin hefur: endalok hernámsins, stofnun sjálfstæðs Palestínuríkis við hlið Ísraelsríkis, friður af hálfu Ísraels gagnvart Palestínu og Sýrlandi og aðlögun Ísraels á svæðinu.
Í þessu tilliti gengur Vegvísirinn lengra en Oslóarsamkomulagið. Í „ Yfirlýsingunni um meginreglur“ (Declaration of Principles) frá Osló var risastórt gat: Það vantaði skýringar á því hvað koma skyldi á eftir hinum löngu áfangatímabilum. Án skýrs lokatakmarks höfðu áfangatímabilin engan skýran tilgang. Þess vegna dó Oslóarferlið með Yitzhaq Rabin.
Vegvísirinn staðfestir að nú er fyrir hendi alþjóðleg sátt um þessi markmið. Sú staðreynd stendur óhögguð þó svo að ekkert komi út úr Vegvísinum. Þau okkar sem muna að aðeins eru 35 ár síðan að örfáar manneskjur í heiminum trúðu á þennan draum geta glaðst yfir þessum Vegvísi. Hann sýnir að við höfum sigrað í stríðinu um almenningsálit heimsins.
En við skulum ekki ýkja: Það er líka öskrandi gap í þessu skjali þegar kemur að skilgreiningu markmiða. Hann segir ekki hver landamæri Palestínuríkis skuli vera, hvorki beint né óbeint. Græna línan er ekki einu sinni nefnd á nafn. Það eitt nægir til að ógilda allt havaríið. Ariel Sharon talar um Palestínuríki á 40 prósentum „svæðanna“ – jafngildi minna en 9 prósenta af Palestínu þegar hún var verndarsvæði Breta. Hver heldur að þetta muni færa frið?
Þegar við förum úr ljóði í prósa, af fjallstoppi markmiðanna niður á veginn sem á að leiða okkur þangað, verða viðvörunarmerkin tíðari og tíðari. Þetta er stórhættulegur vegur með mörgum beygjum og hindrunum. Jafnvel hraustasti íþróttamaður mundi veigra sér við að ganga hann. Veginum er skipt í áfanga. Á hverjum áfanga þurfa málsaðilar að uppfylla ákveðin skilyrði. Við enda hvers áfanga verður Kvartettinn að ákveða hvort skilyrðunum hafi verið fullnægt, áður en haldið er á næsta áfanga. Að lokum munum við ná hinum langþráða friði, ef Guð lofar.
Jafnvel þótt allir aðilar væru fullir góðvilja, myndi þetta verða gríðarlega erfitt. Þegar David Lloyd-George, þáverandi forsætisráðherra Bretlands, ákvað að binda enda á hernám Breta á Írlandi, var haft eftir honum að maður kæmist ekki yfir hyldýpi í tveimur stökkum. Upphafsmenn Vegvísisins leggja í raun til að farið verði yfir Ísraels og Palestínu hyldýpið í mörgum litlum stökkum.
Fyrsta spurningin er: hver er þessi „Kvartett“ sem þarf að skera úr um hvort málsaðilar hafi uppfyllt skyldur sínar á tilteknu þrepi, svo að hefja megi nýjan áfanga?
Við fyrstu sýn er jafnvægi milli þátttakendanna fjögurra: Sameinuðu þjóðanna, Bandaríkjanna, Evrópu og Rússlands. Þetta er svolítið eins og sáttamiðlun í viðskiptum: Hvor hlið útnefnir einn samningamann, og tveir samningamenn velja í sameiningu þann þriðja. Komist er að niðurstöðu með meirihlutaákvörðun sem er bindandi fyrir báða aðila.
Þetta gæti virkað. Bandaríkin eru náin Ísrael, Evrópa og Rússland eru ásættanleg fyrir Palestínumenn. Sameinuðu þjóðirnar hafa oddaatkvæði.
En svo er ekki. Samkvæmt skjalinu á Kvartettinn að taka allar ákvarðanir einróma. Bandaríkjamenn hafa neitunarvald, sem þýðir að Sharon hefur neitunarvald. Án hans samþykkis er ekki hægt að ákveða neitt. Þarf að segja meira?
Önnur spurning: Hvenær mun þetta taka enda?

Gott og vel, það er enginn fastákvarðaður tímapunktur sem ákvarðar færsluna frá einum áfanga til þess næsta. Skjalið nefnir óljóst nokkrar óljósar dagsetningar, en það er erfitt að taka þær alvarlega. Fyrsti áfanginn gæti hafa byrjað í október 2002 og endað í maí 2003. Í raunheiminum verður Vísirinn sýndur Ísraelum og Palestínumönnum í fyrsta skipti í maí og aðeins þá getur samningaharkið byrjað. Enginn getur séð fyrir hvenær framkvæmd fyrsta áfanga hefst. Og í millitíðinni …
Við ættum að muna þetta: Fjölmargar dagsetningar í Oslóarsamkomulaginu voru niðurnegldar, en litið var framhjá nánast öllum þeirra (yfirleitt af hálfu Ísraels). Eins og hinn góði Rabín sagði: „Það eru engar heilagar dagsetningar.“
Þriðja spurningin er: Er einhvers konar jafnvægi milli skuldbindinga aðilanna tveggja? Svarið verður að vera „nei“.
Í fyrsta áfanga eiga Palestínumenn að binda enda á hina vopnuðu Intifada uppreisn, koma á fót náinni öryggissamvinnu við Ísraela og viðurkenna tilverurétt Ísraels í friði og öryggi. Þeir eiga líka að útnefna „valdaðan“ forsætisráðherra (sem þýðir í raun að hin kjörni forseti, Yasser Arafat, verði settur til hliðar) og byrja að gera uppkast að stjórnarskrá sem þarfnast samþykkis Kvartettsins. Hvað á Ísrael að gera á meðan? Það á að heimila palestínskum embættismönnum (takið eftir: þetta á ekki við um allan almenning) að komast á milli staða, bæta lífskilyrði fólks, láta af árásum á óbreytta borgara, hætta eyðileggingu húsa og greiða Palestínumönnum það fé sem þeim er skylt. Það mun einnig leysa upp „jaðarlandnámsbyggðir“ sem hafa verið reistar í trássi við áætlanir ríkisstjórnarinnar síðan Sharon komst til valda. Hver mun ákveða hvern þetta á við um? Í þessum áfanga er heldur ekkert minnst á að stöðva uppbyggingu landtökubyggða.
Trúir því einhver að Abu Mazen forsætisráðherra geti bundið enda á árásir Hamas og Jihad án nokkurra pólitískra hrossakaupa, og á meðan landtökubyggðunum fjölgar?
Að þessum áfanga loknum eiga Palestínumenn að standa fyrir umbótum á stofnunum sínum, búa til stjórnarskrá „byggða á sterku þingræðislegu lýðræði“ (þeim verður ekki leyft að hafa bandarískt forsetakerfi, af ótta við að Arafat haldi einhverjum völdum). Aðeins þá, þegar „stórtækri öryggisframmistöðu miðar áfram“ , mun Ísraelsher „draga sig skref fyrir skref til baka frá svæðum herteknum síðan 18. september 2000“ . Ekki þegar í stað, ekki í einu lagi, heldur smátt og smátt, „skref fyrir skref“ . Ekki frá svæðum B og C, heldur aðeins frá svæði A. Þeir verða þar sem þeir voru áður en þessi Intifada hófst.
(Það er til gamall gyðingabrandari um fjölskyldu sem kvartar undan því að búa saman í einu þröngu herbergi. Rabbíninn ráðleggur þeim að fá sér geit í herbergið. Seinna, þegar fjölskyldan kvartar yfir því að lífið sé orðið óbærilegt, segir rabbíninn þeim að fara með geitina út aftur. Skyndilega finnst þeim eins og þau hafi mikið pláss. Í þessu tilfelli er Ísraelsher sagt að fjarlægja geitina, en Palestínumönnum er sagt að fjarlægja pabbann og mömmuna.)
Eftir þetta allt saman getur næsti áfangi hafist: Palestínumenn munu taka upp stjórnarskránna sína og efna til frjálsra kosninga, Egyptar og Jórdanar munu flytja sendiherra sína aftur til Ísraels og Ísraelsstjórn mun, loksins, binda enda á uppbyggingu landnemabyggða.
Næsti áfangi mun snúa að „mögulegri“stofnun sjálfstæðs palestínsks ríkis með „bráðabirgða“-landamærum. Þannig að löngu eftir að allar árásir hafa verið stöðvaðar, verður „möguleiki“ á því að stofna Palestínuríki á svæði A, agnarlitlum hluta þess sem áður var Palestína. Samkvæmt Vegvísinum ætti þetta að gerast við lok árs 2003, en það er ljóst að þetta mun ekki gerast, ef það gerist þá nokkurn tíma, fyrr en miklu seinna. Það er einnig tekið fram að „frekari tök á landnámi“ verði hluti af ferlinu. Hvað þýðir það? Að ekki ein einasta landtökubyggð verður leyst upp, ekki einu sinni sú fjarlægasta og einangraðasta.
Eftir að allt þetta hefur gerst, mun Kvartettinn ákveða (aftur: einróma – aðeins með samþykki Bandaríkjamanna) að tími sé kominn fyrir samningaviðræður sem miða eigi að „sátt um endanlega niðurstöðu“, vonandi árið 2005, sem felur í sér viðræður um fyrirbæri á borð við landamæri, Jerúsalem, flóttamenn og landtökubyggðir. Ef Sharon eða eftirmaður hans vill það, þá verður sátt. Ef ekki, þá ekki.
Sannleikurinn er sá að í þessu skjali er ekki eitt orð sem Sharon getur ekki sætt sig við. Hann getur, þrátt fyrir allt, eyðilagt hvern áfanga fyrir sig með aðstoð Bush hvenær sem er.
Í stuttu máli: Ys og þys útaf engu. Sem sést best á þeirri staðreynd að hvorki Sharon né landnemarnir eru í uppnámi.
(Af vef Gush Shalom [gush-shalom.org] 5. apríl 2003)
Þýðing: Viðar Þorsteinsson
Birtist í Frjáls Palestína.