Áfallahjálparmiðstöðin

Remedial Education Center er staður þar sem reynt er að annast börn og fjölskyldur þeirra sem hafa borið andlegt tjón af ástandinu sem skapast hefur í samfélagi Palestínumanna vegna uppreisnar þeirra gegn hernámi Ísraels, eða „Intifada“ eins og hún er kölluð á arabísku.

Þessi uppreisn nr. tvö sem hófst í september árið 2000 er um margt frábrugðin þeirri fyrri sem hófst 1987. Í þeirri fyrri reyndu Ísraelar að drepa þá sem voru forustumenn uppreisnarinnar, núna eru hins vegar allir í hættu, bæði utanhúss og innan og reynt er að eyðileggja allt sem kemur Palestínumönnum að gagni, svo sem tré og annan nytjagróður, menga loft og drykkjarvatn, eyðileggja verslanir, heimili og eignir og drepa húsdýr. Enginn og ekkert er óhult.

Með þessu eykst þrýstingurinn á almenning og vekur enn meiri ótta meðal venjulegs fólks. Jafnframt kemur þessi nýja tegund ofbeldis til viðbótar því ofbeldi sem tíðkaðist áður, eins og að láta almenning bíða tímunum saman við vegatálma, sýna fólki fádæma niðurlægingu við líkamsleit, barsmíðar, hrindingar og annan þjösnaskap. Allt þetta samantekið miðar að því að láta Palestínumönnum finnast þeir standa aleinir í baráttu sinni. Þannig snertir þessi tegund ofbeldis einnig það fólk sem sjálft tekur engan virkan þátt í uppreisninni og bitnar jafnframt verst á því. Því finnst það lagt í einelti þrátt fyrir að reyna að standa utan við átökin. Með því að beita þessari tegund ofbeldis reyna Ísraelar að vernda og styrkja stöðu sína.

Forstöðumaður Áfallahjálparmiðstöðvarinnar (Remedial Education Center), dr. Husam Hamdouna, segir að starfsmennirnir reyni að beita allri sinni menntun og þekkingu til að vinna gegn áhrifum ofbeldisins. Stofnaðir hafa verið vinnuhópar ýmissa starfsstétta og þjóðfélagshópa, svo sem meðal háskólanema, meðal háskólamenntaðs fólks, verkamanna og meðal kvenna. Þessir hópar tjá sig um líðan sína. „Við reynum að hjálpa þeim og styrkja þau í þessu vegna þess að þessi tjáning er fólkinu mjög erfið. Við leggjum ríka áherslu á að fólkinu finnist það ekki standa aleitt í baráttu sinni. Jafnframt erum við með sumarbúðir fyrir börn í júní, júlí og ágúst. Þar er mikilvægt að sjálfboðaliðar frá öðrum löndum sjái sér fært að mæta. Að mati starfsmanna stofnunarinnar er þessi starfsemi afar mikilvæg, en öll starfsskilyrði eru mjög erfið vegna ástandsins í palestínsku samfélagi. Áhrif hernámsins á sálarlíf barnanna eru ákaflega alvarleg.

Börnunum gengur illa í skóla, þau eru árásargjörn, væta rúm í svefni og eiga erfitt með að taka þátt í samræðum.

Feðurnir beita konur sínar og syni ofbeldi, og eru að heiman eins mikið og hægt er.

Mæður láta reiði sína bitna á börnunum og eiginmönnunum.

Tengslin innan fjölskyldunnar verða mjög erfið við þessar aðstæður og setja mjög sterkan svip á næstu kynslóð, þá kynslóð sem á að taka við samfélagi framtíðarinnar. Milli 75 og 85% allra barna í flóttamannabúðum á Gaza svæðinu eiga við andleg vandamál að stríða.

Þegar við yfirgefum Remedial Education Center sjáum við hópa barna sem safnast saman á götuhornunum og gangstéttunum. Meðan beðið er eftir leigubíl fylgjumst við með börnunum nokkra stund. Þau eldri eru greinilega mikið fyrir að láta höggin dynja á þeim yngri, hrinda þeim og sparka í þau svo erfitt er að horfa aðgerðarlaus á. Þessi sjón leggur enn frekari áherslu á það sem við fengum að heyra inni í stofnuninni. Það er hverjum manni ljóst að það er langt í land við að byggja upp palestínskt samfélag þar sem sátt og samlyndi ríkir og virðing fyrir einstaklingnum setur svip sinn á umhverfið.

Karlar
56% hafa beitt eiginkonur sínur ofbeldi
67% hafa beitt börnin sín ofbeldi
66% hafa yfirgefið fjölskyldu sína
55% hafa rekið fjölskyldu sína á dyr
55% eiga í miklum tjáningarerfiðleikum við konu sína og börn

Konur
40% hafa látið reiði sína bitna á eiginmönnunum
69% hafa látið reiðina koma niður á börnunum
25% forðast samskipti við ættingja sína
81% reyna að einangra sig með börnunum
79% vilja vera einar og forðast samskipti við annað fólk
75% sinna ekki börnunum og láta þau mest sjá um sig sjálf

Börnin
84% sýna streitumerki og fá reiðisköst
83% fá svefntruflanir
86% sýna merki þunglyndis
74% gengur illa í námi
73% sýna afbrigðilega hegðun
74% leita til föður eða móður, vilja sofa uppí hjá þeim o.s.frv.
61% eru haldin lystarleysi
86% eru hrædd við myrkrið og nóttina
85% langar til að spengja sig í loft upp innan um Ísraela

Birtist í Frjáls Palestína.

Scroll to Top