Múrinn er hryðjuverk

Um þessar mundir eru fjögur ár liðin síðan Sharon ruddist inn á helgasta reit múslima í Jerúsalem með her manna og kallaði þar með fram mótmæli Palestínumanna sem síðan voru kæfð í blóði. Það varð upphafið að síðari Intifödu sem kennd er við Al Aqsa moskuna. Á þessum fjórum árum hafa Ísraelsher og landtökumenn myrt á fjórða þúsund Palestínumanna, þar af mörg hundruð konur og börn. Meira en sjö hundruð Ísraelar hafa fallið í valinn, hermenn og landtökufólk en þó miklu meiri fjöldi óbreyttra borgara, þar á meðal ófá börn, sem hafa verið myrt í sprengjuárásum einstaklinga og hópa sem tilheyra Hamas og öðrum vopnuðum andspyrnuhreyfingum á herteknu svæðunum. Rétt er að halda því til haga að palestínsk yfirvöld fordæma morðin sem herskáir Palestínumenn fremja og eru þau andstæð stefnu löggjafarþings og kjörinna forystumanna Palestínu, en morðin sem Ísraelar fremja á óbreyttum borgurum á herteknu svæðunum eru flest skipulögð af þarlendum stjórnvöldum, ríkisstjórn og her. Landtökufólk er yfirleitt ekki dregið til ábyrgðar fyrir skipuleg morð á Palestínumönnum.

Byggið brú til friðar, ekki múra haturs, stendur á þessu spjaldi sem börnin halda á lofti.

Það var Arna Ösp Magnúsardóttir sem tók þessar myndir í Palestínu síðasta sumar.

Linnulausar árásir Ísraela „kyrrlátt ástand“

Sjálfsmorðsárásir í Ísrael höfðu legið niðri í hálft ár er þær tóku sig upp að nýju ekki alls fyrir löngu með sprengjutilræði í Beer-Sheva þar sem fjöldi fóks, konur og börn féllu í valinn. Beer-Sheva, sem er í Suður-Ísrael og ekki langt frá Gazaströnd, var fæðingarborg Sheik Yassin, trúarleiðtoga Hamas-samtakanna, sem var myrtur er hann kom frá guðsþjónustu skammt frá heimili sínu í einu fátækrahverfi Gazaborgar. Með honum féll meðal annarra sonur hans. Skömmu síðar var annar helsti leiðtogi Hamas-samtakanna myrtur með flugskeytaárás, barnalæknirinn Rantissi. Árásin hálfu ári síðar var sögð hefnd fyrir þá og fjölda annarra sem Ísraelsher hefur myrt. Það var víða látið hljóða svo í fjölmiðlum að tiltölulega kyrrlátt ástand sem ríkt hefði í hálft ár hefði verið rofið með árásinni í Beer-Sheva. Í þessu „kyrrláta ástandi“ héldu Ísraelar áfram linnulausum árásum sínum úr lofti og af láði á íbúðahverfi Palestínumanna, bæði á Gaza og Vesturbakkanum og á þeim 6 mánuðum, meðan árásir palestínskra andspyrnuhópa voru engar, myrtu Ísraelar nærri 300 manns og örkumluðu hundruð annarra.

Aðskilnaðarmúrinn er hryðjuverk

Á meðan hefur bygging aðskilnaðarmúrsins haldið áfram, þvert ofan í úrskurð Alþjóðadómstólsins í Haag 9. júlí sl. og alþjóðalög og ályktanir Sameinuðu þjóðanna, en með stuðningi Bandaríkjastjórnar. Árásarstríð Ísraelsríkis og Bandaríkjanna í Austurlöndum nær; Palestínu, Írak og Afganistan, halda áfram af sívaxandi grimmd og svo furðum við okkur á vaxandi óöld og hryðjuverkum um heim allan. Er við öðru að búast en að pöbullinn haldi sér leyfist það líka, sem herrarnir aðhafast? Löngu er sýnt að múrinn kemur ekki í veg fyrir hryðjuverk; hann er í eðli sínu hryðjuverk og kallar fram hefndir. Múrinn felur í sér stórfellt landrán þar sem Ísraelar leggja endanlega undir sig meira en helming Vesturbakkans og eftirlætur Palestínumönnum uppblásna og einangraða landskika sem bjóða ekki upp á annað en örbirgð, vonleysi og frekari landflótta.

Friðsamleg lausn er til á pappírunum

Það þýðir ekki að tala um „friðarferli“ á meðan herrar eins og Bush, Sharon og þeirra líkar ráða ríkjum. En það má heldur ekki gleyma því að það er engin önnur lausn til frambúðar en friður og það verður enginn friður án réttlátrar og sanngjarnar lausnar á deilumálum. Nú stendur yfir enn ein hrinan í áróðursherferðinni gegn Arafat, kjörnum forseta Palestínumanna. Sharon og félagar hafa uppi morðhótanir og hafa meðal annars nefnt að Arafat eigi ekki önnur eða betri örlög skilin en Sheik Yassin. Það er auðvelt að gagnrýna stjórnarfar Arafats en því má heldur ekki gleyma, að aðstæðurnar eru engu líkar og í raun ekki hægt að tala um neina raunverulega ríkisstjórn. Ísraelsstjórn og her hafa skipulega eyðilagt stjórnarstofnanir, sprengt upp lögreglustöðvar, og gert vísi að almennu stjórnkerfi að engu. Árásir á Arafat eru árásir á eina leiðtoga Palestínumanna sem gæti fengið palestínsku þjóðina til að sætta sig við þá grundvallarmálamiðlun og eftirgjöf sem felst í að viðurkenna Ísraelsríki, ekki aðeins á þeim rúma helmingi landsins sem Sameinuðu þjóðirnar ætluðu þeim með ályktuninni 29. nóvember 1947, heldur með þeirri fjórðungsviðbót sem Ísraelar lögðu undir sig með hernámi á árunum 1948–49. Oslóarsamkomulagið 1993 var staðfesting á þessari eftirgjöf lands sem felur í sér að Ísrael nái yfir fjóra fimmtu hluta hinnar upprunalegu Palestínu (78%), en Ísraelum var ætlað að skila þeim fimmtungi landsins (22%) sem þeir hertóku í leifturstríðinu í júní 1967, Sex daga stríðinu. Út á þetta ganga ályktanir öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Þessi lausn er í samræmi við þau alþjóðalög sem Ísraelar virða að vettugi með stuðningi Bandaríkjanna.

Sharon ætlar ekki að semja um eitt né neitt

Sharon hefur ekki farið í launkofa með að sá friður sem hann hyggst koma á hefur ekkert með Oslóarsamkomulagið, ályktanir Sameinuðu þjóðanna eða alþjóðalög að gera. Hann lýsti því yfir um leið og hann komst til æðstu valda að hann hefði ekkert við Arafat að tala. Þar með var ljóst að ekki stóð til að semja um eitt eða neitt við Palestínumenn, nema þá skilyrðislausa uppgjöf. Sharon áréttaði það snemma á þessu ári, að það væri enginn viðræðuhæfur í herbúðum Palestínumanna og að hann myndi, ásamt sínum mönnum, kveða einhliða uppúr um framtíð landsins. Áætlunin um að draga landtökulið og Ísraelsher til baka frá Gaza var kynnt. Um leið og allt er óljóst um framkvæmd hennar hefur verið hert á landtökuaðgerðum á Vesturbakkanum.

Stefnubreyting Bandaríkjanna

Með stuðningi sínum við þessa áætlun braut Bush blað í stefnu Bandaríkjanna varðandi Ísrael og Palestínu. Bandaríkjastjórn hefur kastað grímu hins hlutlausa sáttasemjara, sem var orðin drusluleg, og virðir nú opinberlega alþjóðalög að vettugi, hvað snertir hernám Gaza og Vesturbakkans, að meðtalinni Austur-Jerúsalem. Bandaríkjaforseti hefur lagt blessun sína yfir hernám Vesturbakkans. Bush bætti um betur með því að gera að engu grundvallarmannréttindi palestínsks flóttafólks sem enn hírist milljónum saman í flóttamannabúðum, þrátt fyrir skýlausan rétt þess til að snúa heim aftur og rétt þess til eigna sinna og/eða bóta fyrir eignatjón eins og alþjóðalög og ályktanir Sameinuðu þjóðanna kveða á um. Forsetakosningar nálgast í Bandaríkjunum en úrslit þeirra munu litlu eða engu breyta um stefnu Bandaríkjastjórnar og skilyrðislausan stuðning Hvíta hússins og Bandaríkjaþings við glæpsamlegt framferði herforingjanna sem stjórna Ísrael.

Vinnur þolinmæði og þrautseigja á ofureflinu?

Hvað getur umheimurinn gert til að réttlæti nái fram að ganga í Palestínu? Palestínska þjóðin á við mikið ofurefli að etja, eitt öflugasta herveldi heims „útvörð hins vestræna heims“ eins og zíonistarnir kölluðu gyðingaríkið jafnvel áður en það varð til. Bakhjarl þess er ofurveldið eina, bandaríska heimsveldið, eins og það er nú feimnislaust kallað vestan hafs. Ofurveldinu er stjórnað af mönnum sem telja sig vera í beinu sambandi við Guð almáttugan og að þeim sé ætlað að drottna yfir heiminum í umboði Hans. Efnt er til árásarstríðs eftir morgunbænir í Hvíta húsinu. Þar er mætingarskylda. Það duga fá rök gagnvart mönnum sem stjórna í mikilmennskubrjálæði og hafa til þess nær ótakmörkuð fjárráð ef um hernað er að ræða, ráða yfir fullkomnustu hernaðar- og njósnatólum heims og beita þeim miskunnarlaust og óspart til að koma á og viðhalda heimsyfirráðum. Það er eðlilegt að margir glúpni gagnvart þessum veruleika, snúi sér að golfi eða fari í berjamó. En eftir þá hressingu eða aðra verður að takast á við veruleikann. Jörðin okkar verður ekki byggileg nema þessu ástandi verði kollvarpað. Það gerist ekki í einu vetfangi, heldur með þolinmæði og þrautseigju, eins og þeirri sem palestínska þjóðin hefur verið að sýna af sér. Erfitt er um vik í bandarískum stjórnmálum. Þar er þó mest og mikilvægast verk að vinna. Evrópuþjóðirnar hafa sérstakri skyldu að gegna, sögulegrar, viðskiptalegrar og ekki síst getu sinnar vegna, til að hafa áhrif. Sá veldur sem heldur. Stærstur hluti utanríkisviðskipta Ísraels er til Evrópu. Evrópuþjóðirnar hljóta að sýna þá ábyrgð að beita nauðsynlegum þrýstingi gegn ólöglegu hernámi frekar en að horfa upp á ofbeldið og grimmdina viðgangast öllu lengur, án þess að hræra legg eða lið.

Hvað ætla íslensk stjórnvvöld að gera?

Íslendingar hafa eins og aðrar þjóðir alþjóðasamfélagsins skyldum að gegna við Palestínu og Ísrael. Þær fela í sér að knýja með öllum tiltækum ráðum á um friðsamlega og réttláta lausn, afnám hernámsins og mannréttindi öllum til handa, að flóttamönnum meðtöldum. Brýnasta verkefnið þessa dagana er að fylgja eftir úrskurði Alþjóðadómstólsins í Haag og ályktun Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna um aðskilnaðarmúrinn í hertekinni Palestínu, að sjá til þess að múrinn verði rifinn. Enn er að sjá hvernig íslensk stjórnvöld leggja sitt af mörkum í þessu sambandi og hvernig nýr utanríksráðherra hyggst framfylgja málinu af Íslands hálfu.

Birtist í Frjáls Palestína.

Scroll to Top