Vesturlönd dæmdu Gaza til dauða

Vesturlönd dæmdu Gaza til dauða 7. október 2023. Nú er verið að framfylgja dómnum. Nákvæmlega ekki neitt hefur verið gert til að stöðva þá framkvæmd. En miklum sandi hefur verið þyrlað upp til að blekkja almenning um að það standi til að gera eitthvað. Þetta er staðan. Þetta er Þorgerður Katrín. Þetta er Kristrún Frostadóttir. Þetta er Bjarni Ben. Þetta er Kolbrún Reykjörð. Þetta er Katrín Jakobs. Þetta er Biden. Þetta er Trump. Þetta er Kamala. Þetta er Starmer. Þetta er Rishi Sunak. Þetta er Mette Fredriksen. Þetta er Macron. Þetta eru hvað sem þeir heita nasistarnir í Þýskalandi. Og svo framvegis.

Stöðug framleiðsla á lygum, undanslætti, afvegaleiðingu, áhyggjum, sýndaraðgerðum. Í tvö ár. Tvö ár af stanslausri slátrun á öllum manneskjum, ófæddum, nýburum, börnum, unglingum, ungu fólki, eldra fólki, óvopnuðu fólki og fólki sem reynir að mæta þungvopnuðum hermönnum, skriðdrekum, drónum, eldflaugum og sprengiflugvélum með frumstæðum vopnum, tætt í sundur og brytjuð niður í tug- eða hundruð þúsunda tali. Líf þeirra hafa vesturveldin dæmt dauð og ómerk.

Og þá er eftir að nefna gereyðingu ræktarlands, vatnsveita, orkuveitna, allra bygginga, og markvisst svelti. Ekkert af þessu hreyfir við ríkisstjórnum okkar og okkar bestu bandamanna. Það er ekki hægt að reka Ísrael úr Eurovision. Það er ekki hægt að reka Ísrael úr FIFA, UEFA, FIBA, FIDE, eða neinu öðru íþróttasambandi. Það er ekki hægt að slíta á samvinnu við ísraelskar fræðastofnanir, það er ekki hægt að banna innfluttning á vörum frá landi sem æðstu alþjóðadómstólar hafa úrskurðað að séu undir ólöglegu hernámi, það er ekki hægt að stöðva neina verslun af neinu tagi til eða frá Ísrael, það er ekki hægt að hætta að senda Ísrael vopn fyrir milljarða dollara, það er ekki hægt að hætta að njósna fyrir Ísrael, það er ekkert hægt að gera nema finnast þetta allt frekar óþægilegt, og væri ekki betra að hafa mótmælin aðeins penari og það má alls ekki trufla fyrirlestrahald.

Ég bara næ þessu ekki. Tvö ár af undanbrögðum, tvö ár af ryki, tvö ár sem æpa á okkur:

VIÐ ÆTLUM EKKI AÐ GERA NEITT!
ALDREI! ÞAÐ VERÐUR ALDREI!
HÉR ER EITTHVAÐ KJAFTÆÐI
SEM ÞIÐ GETIÐ HUGSAÐ UM
AÐ HVORT SÉ EKKI JÁKVÆTT TÁKNRÆNT
LÍTIÐ SKREF ÞANGAÐ TIL NÆST!

Birtist fyrst á Facebook.

Höfundur

Sniðgangan 2025 - BDS Ísland.
Sniðgangan verður gengin 20. september 2025, nánar.

Scroll to Top