Marga dreymir um að ferðast til Palestínu en láta ekki verða af því að ótta við ófriðvænlegt ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs. Þeir sem fara segjast þó sjaldnast finna fyrir hræðslu á ferðum sínum þó að þeir skynji ógnina sem hvílir yfir mannlífinu. Anna Sigríður Pálsdóttir, Dómkirkjuprestur, ákvað um páskana 2011 að bregða sér í tíu daga ferðalag til Ísrael og Palestínu. Hér segir hún frá ferðinni og þeim tilfinningum sem hún vakti henni. Ferðin til Landsins helga hafði að vonum áhrif á séra Önnu Sigríðir sem kristna manneskju en að auki öðlaðist hún dýpri skilning á málstað Palestínumanna við það að heimsækja þetta stríðshrjáða land.
„Mig hafði lengi langað að ferðast á þessar slóðir en lét verða af því þegar tvenn kunningjahjón mín ákváðu að fara í páska ferð á vegum Borgþórs Kjærnested, þýðanda og túlks. Borgþór hefur skipulagt margar páskaferðir fyrir almenn ing en einnig ferðir á öðrum tímum fyrir hópa eins og íslenska þingmenn. Ferðin var í alla staða mjög ánægjuleg, vel skipu lögð og við fengum að skoða margt og upplifa. Borgþór þekkir svæðið eins og lófann á sér og við gátum treyst því að hann færi ekki með okkur í neinar ógöngur þó að við vissum að hann færi heldur ekki með okkur tóma flauelsvegi því að við urðum mjög meðvituð um ástandið í landinu eftir þessa ferð,“ segir Anna Sigríður eftir að hafa komið sér fyrir í þægilegum sófa áheimili hennar á Eyrarbakka. Hún hefur sinnt starfi Dómkirkjuprests frá árinu 2007 en tók sér í haust ársfrí frá því erilsama verki og leysir nú af sóknarprestinn á Eyrarbakka. Ölfusið er henni kært því að faðir hennar, Páll Ísólfsson, organisti og tónskáld, bjó lengi í Ísólfsskála við Stokkseyri.
„Ferðin til Ísrael og Palestínu er mér ógleymanleg og þegar ég nú rifja hana upp finn ég hvaða dýpt það hefur haft í persónulegu lífi mínu að hafa fengið að ferðast á þessar slóðir“

„Það var ekki sjálfgefið að ég kæmist til Jerúsalem um páska sem eru stærsta hátíð kristninnar og annasamir tímar fyrir presta. En samstarfsmaður minn, séra Hjálmar Jónsson, veitti mér góðfúslega leyfi til að fara þessa pílagrímsför og upplifa það sem aðeins verður upplifað í Jerúsalem um páska,“ segir Anna Sigríður og bætir við að hún hafi grætt mikið á þessari ferð sem manneskja og prestur en guðfræði lærði hún seint á ævinni.
„Það var sérstaklega eftir að ég í námi mínu fór að sökkva mér ofan í sögu gyðingdóms og kristinnar trúar að mig fór að langa til að ferðast um þessar slóðir. Það er ótrúleg upplifun að vera á stað þar sem sagan er í hverju skrefi og allt umhverfið andar árþúsundagamalli sögu. Ef veggirnir gætu talað væri margt skrafað í Jerúsalem. Í veggjum húsanna eru mörg lög af sögu sem áhugavert væri að fletta af þeim.“
Páskar í Jerúsalem
Jerúsalem um páska er líklega einn fjölmenningarlegasti staður sem hægt er að hugsa sér og þar má sjá sýnishorn af menningu alls heimsins. Anna Sigríður kveðst einu sinni áður hafa orðið fyrir viðlíka upplifun: „Það var árið 2000 þegar ég fór með hóp íslenskra stúlkna á vegum Þjóðkirkjunnar á alþjóðlegt kirkjumót í Rómaborg. Helgina sem mótið stóð yfir voru götur Rómar eins og árfarvegir iðandi af fólki alls staðar að úr heiminum. Þetta var allt að því óhugnanlegt og eitt sinn reif flaumurinn næstum með sér eina af stúlkunum okkar. Þarna kynntist ég því sem ég síðar sá í Jerúsalem að þjóðirnar bera flögg til að aðgreina sig og hjálpa þeim að finna samferðafólk sitt.
Páskar eru dýrmætur tími í Jerúsalem. Við komum þangað daginn fyrir pálmasunnudag og dvöldum á söguslóðum Ísrael og Palestínu alla dymbilvikuna og fram yfir páska. Þessa páska bar upp á sama tími í kristni og gyðingdómi, sem ekki er alltaf, þannig að páskahátíðin var sérstaklega stór þetta vor.

Fyrsta dag ferðarinnar fórum við til Betlehem sem er eins og menn vita í Palestínu. Það er auðvelt að sjá aðstöðumun þeirra tveggja þjóða sem þetta land byggja, arabanna og gyðinganna. Það er svo hrópandi munur á lifnaðarháttum og öllu umhverfi. Á meðan annarri þjóðinni er til dæmis gert nær ókleift að ástunda hreinlæti og vökva ræktarlönd sín hefur hin jafnvel sundlaugar í görðum sínum og vökvunarbúnað á grasblettum við hús sín.
Daginn eftir, á pálmasunnudag, fórum við upp á Ólífufjallið til að taka þátt í göngu til minningar um innreið Jesú Krists í Jerúsalem. Þótt enn væri vor var brak andi sólskin og við biðum lengi í hitanum eftir að göngunni væri stillt upp. Allir voru með greinar af pálmum og ólífutrjám þegar gengið var í áttina að hliðum göml u borgarinnar. Ég verð að viðurkenna að við gáfumst upp neðst í hlíðum fjallsins enda höfðum við ekki verið forsjál. Sólin skein beint í hvirfil okkar en eins og Íslendinga er siður bárum við ekki höfuðföt og þurftum að skýla okkur með því sem við höfðum handbært. En það var áhrifaríkt að sjá straum syngjandi og fagnandi fólks renna niður hlíðina.
Þessir tveir dagar voru heillandi upphaf ferðarinnar sem auðvitað var farin á kristnum forsendum með yndislegum fararstjóra, kristnum Palestínumanni að nafni Johnny Asmar, sem er bæði guðfræðingur og sagnfræðingur. Hann leiddi okkur í gegnum ferðina og var vel að sér í öllu, ekki síst hinum kristna arfi og allri þeirri sögu sem við skynjuðum við hvert fótmál. Við urðum þess áskynja í þessari ferð hvað Palestínumenn eru vel menntaðir. Það kom til dæmis fram í samtali okkar við lúterska biskupinn í Jerúsalem, sem einnig er biskup í Jórdaníu og framkvæmdastjóri Lúterska heimssambandsins. Við fengum tækifæri til að tala við þennan merka mann eftir páskamessu sem við sóttum hjá honum og við spurðum hvernig best væri að aðstoða Palestínumenn. Hann sagði að besta hjálpin væri aðstoð við að mennta fólkið. Menntun væri það eina sem ekki væri hægt að taka frá þeim.
Við gistum allar nætur í Jerúsalem nema tvær sem við eyddum í Nazaret. Í Jerúsalem dvöldum við í gömlu kaþólsku klaustri sem heitir Notre Dame de Jerusalem og er rétt við eitt hliðið að gömlu borginni. Fyrir ofan hótelið er nútímaleg og flott stórborg Ísraelsmanna en hana höfðum við minni áhuga á að skoða. Við vildum heldur sjá söguna, minjarnar og litskrúðugt mannlífið í gömlu borgunum. Fólk gerir sér yfirleitt ekki grein fyrr því hvað Ísrael er lítið land og vegalengdir stuttar. Þess vegna er hægt að skoða stóran hluta Ísraels og Palestínu en eiga samt oftast náttstað í Jerúsalem. Við fengum að sjálfsögðu ekki að fara til Gaza-strandarinnar og borgin Herbron var okkur líka lokuð af því að ísraelsku hermennirnir sem umkringja allar byggð ir Palestínumanna höfðu frídag þann dag sem hentaði okkur. Palestínumenn ráða engu um aðgengi að sínum eig in svæðum – né heldur um brottför af svæðunum. Þegar maður gerir sér grein fyrir vegalengdum í þessu landi áttar maður sig betur á sögunum um ferðir Jesú og lærisveinanna og heimsóknir þeirra til þorpa sem á leið þeirra urðu. Þetta voru ekki margra daga ferðalög eins og á milli afskekktra býlanna hjá okkur á Íslandi.“
Augljóst misræmi á valdi
En ferðin var ekki einungis farin til að skoða hátíðir frá frumkristni heldur var margt annað gert og farið. „Í raun fetuðum við í fótspor Jesú Krists á staði sem getið er um í Nýja testamentinu en við leyfðum okkur þó líka að slæpast og baða okkur í Dauða hafinu,“ segir Anna Sigríður. Ein dagsferðin er henni þó minnisstæðari en aðrar. „Í borginni Nablus á Vesturbakkanum er að finna í kirkju nokkurri minjar um brunn Jakobs sem getið er um í Biblíunni. Auðvitað er mér minnisstætt að hafa séð þennan brunn en það sem gerðist í mannlífinu þennan dag situr meira eftir í huga mér. Okkur var boðið að skoða drengjaskóla sem Sameinuðu þjóðirnar reka í Balata-flóttamannabúðunum sem eru aðeins steinsnar frá brunninum. Í þessum flóttamannabúðum hafa þrjár kynslóðir Palestínuaraba búið mann fram af manni frá árinu 1948. Skólinn var fátæklega búinn og ummerki um eyðileggingu Ísraelsmanna voru sýnileg en hann var nokkuð heillegur þó. Það sem hafði áhrif á okkur var einlæg hjartans gleði barnanna sem fögnuðu okkur innilega og dönsuðu og sungu fyrir okkur. Við fórum öll út í rútuna aftur grátandi yfir örlögum þessara barna og skorti þeirra á tækifærum. Allir komu úr þessari ferð með þungt hjarta. Við fréttum einnig að maður hefði verið skotinn við brunninn nokkru eftir að við höfðum verið þar. Nokkrir venjulegir borgarar sem voru rétttrúnaðargyðingar höfðu farið að brunninum og verið með ófriðsamlega tilburði. Þegar þeir svöruðu ekki viðvörunum skutu palestínskir varðmenn á þá með þeim afleiðingum að einn lést og fleiri særðust. Það er óþægileg tilfinning að frétta af svona atburðum á stað sem maður hefur rétt yfirgefið. Þetta mál mun hafa endað á þann veg að Ísraelsmenn samþykktu að gyðingarnir hefðu verið þarna í leyfisleysi á afgirtu svæði. Þetta var í eina skiptið sem við urðum vör við bein átök en auðvitað þurfum við eins og allir aðrir að stoppa við alla varðturna og gangast undir skoðun ísraelska varðmanna. Eitt sinn sá ég líka á bílastæði við Dauðahafið ísraelska hermenn vera að rótast eitthvað í ungum Palestínumönnum. Hvort þeir voru þarna í leyfisleysi kann ég ekki að meta en mér fannst óþægilegt að verða vitni að varnarleysi þeirra og niðurlægingu vegna þess augljósa misræmis sem þarna var á valdi.“
Trúarupplifun í Getsemene
Anna Sigríður segist hafa orðið fyrir tilfinningalegri upplifun í drengjaskólanum en í Getsemene-garðinum varð hún fyrir trúarupplifun: „Ég fann fyrir mikilli sorg í Palestínu en um leið samhygð eins og ég geri oft þegar ég umgengst fólk sem er að fara í gegnum miklar þrengingar. Það sem snerti mig þó sterkast í Getsemene voru hin ævafornu ólífutré sem aldrei deyja heldur vaxa inn á við og gamli börkurinn færist til. Þarna fékk ég sömu tilfinningu og meðal húsanna í Jerúsalem og reyndi að ímynda mér hvaða sögu trén myndu segja ef þau hefðu raddir. Ég upplifði það afar sterkt að vera á stað þar sem Jesús beið þess sem varð, einmana og hræddur, meðan lærisveinarnir sváfu í kringum um hann. Það var sterkt að fara svona inn í föstudaginn langa. Ég held að Getsemene-garðurinn hafi haft jafn sterk áhrif á okkur öll þó að ekki væru allir þarna jafn sannfærðir í trúnni og ég. Saga staðanna sem við heimsóttum hafði sterk áhrif á okkur öll hver sem trúarsannfæring okkar var.

Það er merkilegt að hugsa til þess að á þessum slóðum þar sem eru svo miklar róstur á milli trúarbragða skuli fern trúarbrögð mætast og eiga sér heilaga staði. Þetta eru algyðistrúarbrögðin þrenn; kristni, gyðingdómur og íslam en Múhameðstrúarmenn eiga í Jerúsalem mikla mósaíkmosku með gylltri hvelfingu, Klettakirkjuna, en samkvæmt gyðingatrú og islam er kletturinn staðurinn, þar sem Abraham ætlaði að fórna syni sínum, Ísak, og þar sem Múhameð var hrifinn til himna á undrahestinum Burak. Þegar að heimsenda kemur, verður hásæti guðs sett á þennan klett. Einnig er að finna í Haifa mikið og stórt Baháía-musteri en það er helgasti staður þeirra trúarbragða.“
Tilbúnar aðstæður
Anna Sigriður segir að ótti og kvíði hafi verið meiri innra með henni áður en hún hélt í ferðina en eftir að hún var komin á áfangastað. „Átökin eru ekki beint áþreifanleg á þeim stöðum sem við heimsóttum, það er meira eins og maður skynji spennu í samskiptum fólks. En ég velti mikið fyrir mér þeirri vandasömu stöðu sem Ísraelsmenn og arabar eru í. Ég hef aldrei getað skilið þá ákvörðun að færa gyðingum þetta land á sínum tíma. Mér finnst það hafa verið dæmt til að mistakast á sama hátt og þegar kirkjudeildirnar voru að skipast upp í austur- og vesturkirkjuna sem leiddi til að búseta fólks varð að færast til sem var ein orsökin fyrir stöðugum óróleika í löndum fyrrum Júgóslavíu. Þarna var fólk sett í tilbúnar aðstæður, eins og gerðist í Ísrael, og tortryggnin var mikil á báða bóga og fór stöðugt vaxandi.


Mér finnst bókin Morgnar í Jenín, eftir palestínska rithöfundinn Susan Abulhawa sem ég las einmitt í þessari ferð, vera afar góð og áhugaverð bók um skýrir stöðuna í landinu. Þar kemur vel fram hvernig þessi ákvörðun var dæmd til að mistakast og það var svo átakanlegt að hitta þessa litlu drengi sem eru af þriðju kynslóð fjölskyldna sem ekki hafa búið annars staðar en í flóttamannabúðum í algjörri óvissu um framtíðina.“
Kærleikurinn sigrar að lokum
„Einn daginn hittum við ræðismann Íslands í Ísrael. Þetta var velefnaður karl og ekta gyðingur, ákveðinn og stoltur af landinu sínu. Hann talaði mikið um hvað Ísrael hafi komið vel út úr efnahagskreppunni og hvað fjárhagurinn væri sterkur. Svo vildi hann endilega sýna okkur glæsilegar verslunarmiðstöðvar í ísraelska hluta Jerúsalem. Í hópnum okkar var maður sem unnið hefur sem verkfræðingur við uppbyggingu skóla og spítala á Gaza-svæðinu. Þegar spurningar voru leyfðar spurði þessi maður út í samskipti Ísraelsmanna við araba. Þá horfðum við á manninn umhverfast fyrir augum okkar og heyrðum hann segja: „Það er alveg ljóst að Palestínumenn hafa ekki félagslegan þroska til að sjá um sig sjálfir.“ Svo einfalt var það og þurfti ekki að útskýra frekar. Ég man að á þessari stundu hugsaði ég að ég væri fegin að hafa ekki beðið með að heimsækja landið helga þar til friður kæmist á því að þess væri langt að bíða. Þetta er púðurtunna sem á kannski eftir að springa. Þetta er eins og að halda utan um sápustykki, í hvert sinn sem þér finnst þú sért búin að ná tökum á því þá smýgur það út úr höndunum á þér. Samúð mín með Palestínumönnum raungerðist í þessari heimsókn vegna þess að þeir eiga undir högg að sækja.
Ég get ekki sagt að ég lesi Biblíuna með öðru hugarfari en áður en ég sé allt sem þar gerist mun betur fyrir mér. Heimsóknin breytti ekki trúarsannfæringu minni en ég skil betur hvað það var sem Jesús var alltaf að mótmæla á sínum tíma, öllum elítustéttunum, ójöfnuðinum og óréttlætinu sem þarna ríkti og ríkir enn, bara í annarri mynd. Á hinum himinháa múr sem umlykur byggðir Palestínumanna sáum við áhugavert veggjakrot þar sem stóð að á þessum stað hafi fyrir tvö þúsund árum fæðst friðarhöfðingi. Þegar ég sá þessa áletrun styrktist ég enn frekar í þeirri trú að ekkert nema kærleikurinn getur komið í veg fyrir að allt splundrist. En hvernig verður sá kærleikur til? Jú, við sáum hann hjá öllu því kærleiksríka fólki sem vinnur fyrir málstaðinn, til dæmis hjá amerískum hjónum sem reyna að finna leiðir til að hjálpa nýrnaveiku fólki á Gaza og hjá gríska tannlækninum Nick Ninos sem vinnur að sameiginlegri fótboltaiðkun barna af ólíkum uppruna. Kærleikurinn verður líka til hjá öllu því fólki á Íslandi sem lætur sig málið varða. Á þessum slóðum sjáum við sögu mannkyns í brennidepli. Við erum ekki friðsöm dýrategund, mennirnir, og við erum því miður mjög vantrúuð á að kærleikurinn geti sigrað.
En ferðin til Ísrael og Palestínu er mér ógleymanleg og þegar ég nú rifja hana upp finn ég hvaða dýpt það hefur haft í persónulegu lífi mínu að hafa fengið að ferðast á þessar slóðir“, segir séra Anna Sigríður Pálsdóttir að lokum.
Viðtal: Björg Árnadóttir
Birtist í Frjáls Palestína.