Hið „nýja gyðingahatur“

Ásakanir um gyðingahatur dynja stöðugt á þeim sem styðja málstað fólksins í Palestínu. Nýlega áttum við Einar Steinn Valgarðsson í ritdeilum við Stefán Einar Stefánsson blaðamann Morgunblaðsins og fengum þá auðvitað á okkur ásakanir um gyðingahatur. Eini glæpur okkar var sá að benda á að með skrifum sínum var Stefán Einar að styðja mannréttindabrot og mæla með brotum gegn samþykktum Sameinuðu þjóðanna. En það dugði til þess að gyðingahatursstimpillinn var hafinn á loft. Það er í sjálfu sér skiljanlegt að þeir sem vilja verja glæpi Ísraelsstjórna gegn Palestínumönnum verði uppiskroppa með nothæf rök og því einfaldast að gera hróp að fólki og væna það um hatur. Meira að segja gyðingar sem gagnrýna síonismann og framferði Ísraelsstjórnar eru úthrópaðir sem sjálfhatandi gyðingar.

Grein Stefáns Einars Stefánssonar í Morgunblaðinu.

En þessi aðferð, að lýsa gagnrýni á Ísrael og síonismann sem hatur á gyðingum, er víða notuð og færist í aukana. Nýlega var haldin í Malmö í Svíþjóð ráðstefna á vegum samtaka sem nefnast Alþjóðsamtök til minningar um Helförina (International Holocaust Rememberance Alliance – IHRA). Þrjátíu og fjögur þjóðríki hafa tekið upp skilgreiningar þessara samtaka á því hvað telst vera gyðingaandúð (anti-semitism). Meðal þessara ríkja eru öll Norðurlöndin nema Ísland. Má því búast við að það komi fram hugmyndir um að Ísland gerist aðili að þessu bandalagi. Það er því nauðsynlegt að skoða þessi samtök og skilgreiningar þeirra þar sem reynslan hefur sýnt að starfsemi IHRA og málstaður hefur verið notað til að berja niður gagnrýni á síonismann og framferði Ísraelssríkis gagnvart Palestínumönnum.

Talsmenn IHRA halda því fram að gyðingaandúð fari vaxandi í heiminum. Það er viðbúið að þegar fleiri og fleiri atriði eru skilgreind sem gyðingaandúð þá fjölgar „dæmum“ um gyðingaandúð – og þá er farin af stað hringekja – sífellt fleiri „merki“ um gyðingaandúð næra upphrópanir um að gyðingaandúð fari stigvaxandi!

IHRA hefur birt nokkur atriði til að útskýra hvernig menn geta greint gyðingaandúð. Meðal þeirra eru atriði sem snúa að gagnrýni á Ísraelsríki og geta í raun virkað sem ritskoðun á eðlilegri gagnrýni á framferði Ísraelsríkis gagnvart Palestínumönnum. M.a. segir í plöggum IHRA að það sé gyðingaandúð „að beita tvöföldu siðgæði með því að gera aðrar kröfur til hegðunar [Ísraelsríkis] en ætlast er til eða krafist gagnvart öðrum lýðræðisþjóðum“. Þessi birting gyðingaandúðar hljómar einkennilega þar sem helsta krafa and-síonista er sú að Ísrael hagi sér eins og önnur lýðræðisríki, m.a. með því að ástunda ekki hernám, morð, landrán og árásir á friðsama mótmælendur. Þessar kröfur eru að sjálfsögðu kröfur sem lýðræðissinnar beina til allra ríkja, jafnt lýðræðisríkja sem ríkja sem búa við annað stjórnarfar.

Emmanuel Macron Frakklandsforseti sagði 2017 að andstaða gegn síonisma sé ný tegund gyðingaandúðar. Síonismi er pólitísk stefna og hugmyndafræðilegur grundvöllur Ísraelsríkis, það er því eðlilegt að sú stefna sé gagnrýnd líkt og menn gagnrýna stefnu Kína, Bandaríkjanna og fleiri ríkja í mörgum málum. Afstaða Macrons er dæmigerð tilraun til þess að hnýta saman pólitíska gagnrýni og gyðingaandúð. Jafnframt er þessi afstaða Macrons liður í því að segja að gyðingaandúð fari vaxandi og nota síðan slíka orðræðu til að hindra stuðningsstarf við Palestínumenn. Þannig er reynt að vinna gegn BDS sniðgönguhreyfingunni sem styður frið­samlega andstöðu gegn kúgun og mann­ réttindabrotum Ísraelsstjórnar. Sama er uppi á teningnum í Þýskalandi og Bandaríkjunum.

Í Bandaríkjunum starfa mörg sterk samtök til stuðnings síonismanum og Ísraelsríki. Þar eru fremst samtökin ADL (Anti-Defamation League). Tals­menn ADL fullyrða, líkt og talsmenn IHRA, að gyðingaandúð fari vaxandi í Bandaríkjunum.

Í fréttatilkynningu ADL þ. 20. maí sl. er sagt frá nýlegum dæmum um aukna andúð gegn gyðingum „sem teng­ist ofbeldi í Mið-Austurlöndum að undanförnu.“ Þessi aukna „gyðinga­ andúð“ tengist auðvitað árásum Ísraelshers á íbúa Gaza. Gagnrýni á hernaðarofbeldið flokkast sem gyð­ingaandúð!

Í maí sl. átti Joe Biden Bandaríkjaforseti fund með leiðtogum fimm helstu gyðingasamtaka Bandaríkjanna til að ræða áhyggjur af „mikilli aukningu gyðingaandúðar“, vegna mótmæla gegn sprengjuherferð Ísraels gegn Gazabúum. Öldungadeildarþingmenn Rep­úblikana, Tom Cotton og Mitch Mc­Connell, tilkynntu að þeir ætluðu að leggja fram frumvarp til að berjast gegn gyðingaandúð. Hér er sama sagan, auknar árásir á Palestínumenn valda ólgu og andstöðu meðal almennings – og það skal heita gyðingaandúð.

Þessar tilraunir til að skilgreina reiði og vandlætingu almennings sem gyðingaandúð hentar síonistum vel. En vopnin geta snúist í höndum stuðningsmanna síonismans. Með því að segja gagnrýni á framferði Ísraelsríkis vera gyðingaandúð þá bendla menn þar með alla gyðinga við ógnarverkin og gerast þannig brotlegir við reglur IHRA um það að segja „alla gyðinga bera ábyrgð á aðgerðum Ísraelsríkis“. Það telst vera gyðingaandúð skv. þeirra eigin skilgreiningu.

Ef andstaðan gegn síonismanum er skilgreind sem gyðingaandúð þá erum við komin að vatnaskilum: Barátta Palestínumanna, helstu fórnarlamba síonismanns, er þá gyðingaandúð – en ekki barátta fyrir mannréttindum!

Birtist fyrst í Frjáls Palestína.

Scroll to Top