Íslenskt mennta- og menningarfólk, pistlahöfundar og álitsgjafar er að meirihluta „til vinstri“ í þeim skilningi að það telur jöfnuð, mannréttindi og velferð vera æskileg fyrirbæri. Þetta fólk kaus líklega oftast annaðhvort VG, Samfylkingu eða Pírata (og sum róttækari hafa kosið Sósíalista og önnur minni framboð, og sum eru farin yfir til Viðreisnar sem rennur svolítið saman við hægri kant Samfylkingar). Sem hópur, hikar hann við að gagnrýna ríkjandi stjórnvöld, Kristrúnu og Þorgerði Katrínu. Hann heldur enn í vonina um að eitthvað sé að baki fullyrðingum þeirra um áhyggjur af fólkinu á Gaza. En ríkisstjórnin hefur setið við völd í marga mánuði og alveg ljóst að hún mun ekki gera neitt sem gæti sett þrýsting á Ísrael. Réttar yfirlýsingar fyrir kosningar, um þjóðarmorð, hafa verið dregnar til baka.
Allt er flókið og ómögulegt og áhyggjur af aumingja börnunum á Gaza fléttast inn í orðræðu þar sem Palestínumönnum sjálfum er kennt um „ástandið“ í öðru hverju orði. „Ég styð ekki hryllinginn en Hamas verður að skila gíslunum“, „Ísrael hefur gengið of langt en þetta byrjaði allt með skelfilegri árás 7. október“. Og alltaf talað eins og „þegar þessu verður lokið“ muni ekkert taka við nema sama ástand og fyrirheit um „tveggja ríkja lausn“ sem er eingöngu svívirðilegt yfirvarp og áróðurstæki til að viðhalda hernáminu og stækka það.

Ég held að almenningur átti sig alls ekki á því hve djúpt samstarf Ísraels er við vesturlönd. Núna í gær kom frétt á prenti í Bretlandi um væntanleg kaup á hernaðartækni milli Bretlands og Ísrael, upp á 2 milljarða punda (sirka 320 milljarða ISK). Ekki um sölu á vopnum til Ísraels heldur kaup Bretlands á hernaðartækni frá Ísrael.
Vesturlönd hafa ekki beitt neinum refsiaðgerðum af neinu tagi gegn Ísrael þó að það hafi framið þjóðarmorð og sé ennþá að fremja þjóðarmorð af fullum þunga. Í gær voru að minnsta kosti 300 drepin.
Engar aðgerðir, ekki neitt. Hins vegar hafa Bandaríkin sett á viðskiptaþvinganir og refisaðgerðir gegn dómurum og saksóknurum Alþjóðlega sakamáladómstólsins (ICC) fyrir að ætla að sækja æðstu yfirmenn þjóðarmorðsins til saka.

Birtist fyrst á Facebook.