Yfirlýsing frá Félaginu Ísland-Palestína 15.4.1991:
Vegna tilrauna Ísraelsríkis og bandarískra yfirvalda til að grafa undan tilverurétti palestínsku þjóðarinnar og sniðganga forystu hennar, teljum okkur skylt að taka eftirfarandi fram:
- Frelsissamtök Palestínumanna, PLO, eru viðurkennd af öllum Palestínumönnum hvar sem þeir búa og af yfirgnæfandi meirihluta ríkja heims sem málsvari palestínsku þjóðarinnar.
- Öll aðildarríki Sameinuðu þjóðanna að tveim undanskildum (Bandaríkjunum og Ísrael) viðurkenna rétt palestínsku þjóðarinnar til sjálfsákvörðunar og nauðsyn þess að haldin verði alþjóðleg friðarráðstefna á vegum Sameinuðu þjóðanna með þátttöku allra deiluaðila á jafnréttisgrundvelli, þ.m.t. PLO.
- Frelsissamtök Palestínumanna hafa lýst sig reiðubúin til að viðurkenna Ísraelsríki og virða samþykktir Sameinuðu þjóðanna.
- Friður í Austurlöndum nær er hins vegar óhugsandi meðan Bandaríkin Norður-Ameríku neita palestínsku þjóðinni rétt til sjálfsákvörðunar, sniðganga viðurkennda fulltrúa hennar og koma í veg fyrir að Sameinuðu þjóðirnar geti framfylgt ályktunum sínum um Palestínumálið.
Birtist í Frjáls Palestína.
