Oslóarsamkomulagið sem var undirritað á grasblettinum við Hvíta húsið 13. september 1993 hefur ekki fært Palestínumönnum frið né frelsi. Vonirnar um að bundinn yrði endir á hernám Ísraelshers og að Palestínumönnum yrði skilað aftur sínu landi, að pólitískum föngum yrði sleppt og að flóttamenn fengju að snúa heim á ný til ættingja sinna og eigna, allar þessar vonir hafa dofnað eftir því sem tíminn líður.

Það er enginn skortur á undirrituðum samningum um ýmsa þætti í sambúð palestínumanna og ísraelsmanna undir verkstjórn Bandaríkjaforseta. En tími Clintons er að renna út og ekki fyrirsjáanlegt að honum takist að enda forsetatíð sína sem sá sem skapaði varanlegan frið fyrir botni Miðjarðarhafs.
Fátt bendir til þess að ráðamenn í Ísrael hafi nokkuð kært sig um réttlátan frið og án réttlætis verður enginn friður. Síðasti forsætisráðherra Ísraels, Benjamin Netanyahu, hafði það umfram fyrirrennara sína að draga lítt dul á stefnu sína, yfirgangurinn virtist honum svo eðlislægur. Framkoma hans var slík að menn þóttust stundum geta efast um að hann væri með réttu ráði. Netanyahu byggði völd sín á stjórnmálaafli öfgafullra trúarhópa sem hann hann er sjálfur ekki fjarskyldur. Þessir hópar eiga sér hugmyndafræði eins og nasistar um að þeir séu útvalinn lýður og að þeim beri réttur til að drottna yfir öðrum. Þeir leggja áherslu á að gyðingar blandist ekki öðrum og raunar er það atriði ekkert bundið við þessa hópa heldur er það hluti af þeirri aðskilnaðarstefnu sem Ísraelsríki er grundvallað á.
Barak, núverandi forsætisráðherra Ísraels, hefur á sér meiri raunveruleikablæ. Hann virðist horfast í augu við, að Ísrael á allt undir Bandaríkjunum og er greinilega þóknanlegri forseta þeirra. En alls er óvíst hvort hann er þess megnugur eða fús, að leiða Ísraelsríki inn á braut hins löglega í samskiptum við nágrannaríkin. Og eins er ljóst, að aðskilnaðarstefnan er ekki síður arfur hans flokks, Verkamannaflokks Ísraels, en til dæmis Líkud-bandalagsins.
Ísrael hefur ekki verið reiðubúið að skilgreina sín landamæri. Allt frá því Sameinuðu þjóðirnar samþykktu tillögu um skiptingu Palestínu í tvö ríki, araba og gyðinga, hefur Ísrael verið í stöðugri útþenslu og ekkert lát er á því.
Ríki sem byggir á látlausu útþenslustríði, yfirgangi gagnvart nágrönnum og aðskilnaðarstefnu (rasisma) gagnvart íbúum landsins á ekki rétt á sér. Það hlýtur fyrr eða síðar að líða undir lok. Þá skiptir ekki máli hvort og hversu oft Palestínumenn lýsa því yfir að það sé ekki stefna þeirra að útrýma Ísraelsríki. Fólkið sjálft sem byggir þetta ríki hlýtur einhverntíma að lærast, að það er ekki nema ein leið til lífs, ef hugsað er til frambúðar, leið frelsis, friðar og réttlætis. Líf sem byggir á hernámi og á því að kúga og lítillækka sína nágranna, stenst ekki til lengdar. Þess vegna mun Ísraelsríki líða undir lok, þetta yfirgangsríki sem heimsbyggðin hefur þurft að horfa uppá síðustu hálfa öld. Nýtt Ísrael og ný Palestína verða til, þar sem þessar náskyldu þjóðir lifa, eins og þær hafa gert og verða að kunna, í sátt og samlyndi.
Birtist í Frjáls Palestína.