Vonarbrú barna á Gaza

Þegar þungi og sorg yfir þjóðarmorðinu og aðgerðarleysi heimsins dregur úr mér kraftinn horfi ég á myndir og myndbönd af börnum fólksins okkar á Gasa.

Ég horfi á þau brosa, veifa mér yfir heiminn, leika sér og læra. Teikna myndir, föndra og skrifa kveðjur. Ég hlusta á hláturinn þeirra, hjalið og líka kjökrið þegar þau eru veik eða leið. Ég hlusta á þau senda mér kveðjur, senda okkur öllum kveðjur og þakkir sem hjálpum þeim og fjölskyldunum þeirra.

Þau fylla mig von, styrk og þakklæti fyrir að geta látið gott af mér leiða.

Á myndinni hér fyrir neðan eru nokkur af börnum þeirra fjölskyldna á Gasa sem Vonarbrú styður og styrkir.

Við styrkjum yfir sjötíu barnafjölskyldur. Í fjölskyldunum okkar eru að minnsta kosti vel á annað hundrað börn. Stelpur og strákar á öllum aldri. Stálpuð börn, ungabörn, lítil börn, nýfædd börn.

Börnin okkar eiga það sameiginlegt að hafa fæðst á Gasa. Að lifa hörmungar grimmra árása. Að verða skelfingu lostin á hverjum degi. Að vakna við sprengjur. Sofna við sprengjur. Að hafa verið á flótta. Að hafa vaknað og sofnað svöng.

Við í Vonarbrú höfum verið í daglegum samskiptum við fólkið okkar vel á annað ár. Við þekkjum hverja einustu manneskju, hvert einasta barn í hverri fjölskyldu. Við sendum þeim peninga fyrir mat, vatni, lyfjum og læknisaðstoð, tjöldum og húsnæði. Öllu því sem mögulegt er og fólkið þarf til þess að komast af.

Við gerum allt sem í okkar valdi stendur til þess að styðja við fólkið okkar. Með samtölum og peningastyrkjum.

Öll okkar vinna er unnin í sjálfboðastarfi og hver einasta króna – félagsgjöld og framlög – fer beint til fólksins okkar. Það er engin yfirbygging.

Með því að gerast félagar í Vonarbrú og styrkja félagið hjálpið þið til við að bjarga mannslífum.

Á heimasíðu félagsins https://vonarbru.is/ finnið þið upplýsingar um hvernig hægt er að ganga í félagið eða styrkja það með stakri upphæð. Frjáls framlög: Kt. 420625-1700, 0565-26-006379

Birtist fyrst á Facebook.

Höfundur

Scroll to Top