Vilja Ísraelar frið?

29. nóvember var liðin hálf öld síðan Sameinuðu þjóðirnar gripu inn í atburðarásina fyrir botni Miðjarðarhafs með samþykkt sinni um að skipta Palestínu upp í tvö nokkurn veginn jafnstór landsvæði. Lagt var til að þar yrðu til tvö ríki, annars vegar gyðinga, að mestu aðfluttra, og hins vegar Palestínumanna (araba) sem þar bjuggu fyrir.

Nágrannaríki Palestínu og ríkisstjórnir fleiri landa litu á þessar aðgerðir sem brot á stofnskrá Sameinuðu þjóðanna, sem hefðu engin stjórnarfarsleg yfirráð á þessu svæði. Sjálfsákvörðunarrétt Palestínumanna, bæði araba og gyðinga sem þarna bjuggu, bæri að virða. Farið var fram á að málinu yrði skotið til Alþjóðadómstólsins í Haag, en sá meirihluti Sameinuðu þjóðanna, sem ákvað skiptinguna, lagðist gegn því.

Sáttasemjari Sameinuðu þjóðanna sem sendur var til Palestínu á árinu 1948, Svíinn Folke Bernadotte komst að þeirri niðurstöðu að skipting Palestínu ætti ekki rétt á sér. Stefna bæri að sambandsríki gyðinga og araba, sem næði ekki einungis til Palestínu heldur líka Trans-Jórdaníu. Þá ætti að gera flóttamönnum kleift að snúa aftur til heimkynna sinna og eigna. Daginn eftir að Bernadotte skilaði heildarskýrslu sinni til Sameinuðu þjóðanna var hann myrtur á götu í Jerúsalem. Böndin bárust sterklega að Yitshak Shamir, síðar forsætisráðherra Ísraels, sem þá stjórnaði hryðjuverkasveitum gyðinga.

Í upphafi mótmæltu Palestínumenn eindregið tilurð Ísraelsríkis og litu svo á að verið væri að ræna þá landi sínu og eignum, þótt sumir hafi séð þann kost vænstan í Ijósi ógnana og hryðjuverka sem stöðugt dundu á, að hverfa á brott og selja eigur sínar ef það var hægt.

Ekki minnkaði andstaðan við Ísraelsríki þegar Ijóst varð að löggjöf ríkisins byggði á aðskilnaðarstefnu þar sem ákveðin trúarbrögð, gyðingdómur, voru sett ofar öðrum. Gyðingar hvar í heimi sem væri og hverrar þjóðar sem þeir voru, fengu fullan og óskoraðan rétt sem borgarar hins nýja ríkis. En íbúarnir sem þar voru fyrir, að stærstum hluta arabar, bæði kristnir og múslimar, voru annað hvort hraktir á brott, eða gerðir að þriðja flokks þegnum.

Tíminn hefur á vissan hátt unnið með Ísrael og það er eins og landvinningar þeirra og grimmilegt framferði á herteknu svæðunum hafi styrkt stöðu þeirra. Óhemju fjármagn, hergögn og annar stuðningur hefur stöðugt streymt frá Bandaríkjunum.

Smám saman hefur samsetning íbúanna breyst úr því að gyðingar voru minnihlutahópur, um það bil 10% íbúa, í það að arabarnir eru orðnir að minnihluta í Ísraelsríki og sennilega líka heldur færri ef litið er á allt svæðið, það er Ísrael auk herteknu svæðanna á Gaza og Vesturbakkanum. Þá eru ekki taldar þær milljónir Palestínumanna sem enn hafast við í flóttamannabúðum, en palestínska þjóðin telur nú alls rúmar sjö milljónir.

Þann 15. nóvember 1988 samþykkti þjóðarþing Palestínumanna að lýsa yfir sjálfstæði Palestínu. Í því fólst líka viðurkenning á tilvist Ísraels. Uppskipting landsins var orðin að veruleika sem Palestínumenn urðu að sætta sig við. Oslóarsamkomulagið 1993 var enn frekari staðfesting þess, að tveggja ríkja lausnin yrði ekki umflúin, og þá virtist komið að því að Ísrael viðurkenndi tilvist palestínsku þjóðarinnar og rétt hennar til sjálfsákvörðunar.

Reynslan hefur þó orðið önnur. Ísraelar kusu yfir sig ríkisstjórn sem augljóslega rær ekki að friði. Landvinningum er haldið áfram með hernaði, hryðjuverkum, hóprefsingum, ólöglegum landakaupum, stækkun svokallaðra landnemabyggða og þar fram eftir götunum. Nú eru orðnar ærið miklar breytingar á landakortinu sem dregið var upp af Sameinuðu þjóðunum. Landvinningastefna Ísraela hefur gegnsýrt þá svo, að harðar deilur standa þar í landi um hvort skila eigi Palestínumönnum aftur 6-8% eða einungis 2% af landi þeirra á Vesturbakkanum!

Ísraelsstjórn virðir Sameinuðu þjóðirnar að vettugi. Ályktanir Allsherjarþingsins um réttláta lausn Palestínumálsins, sem samþykktar eru með nær öllum atkvæðum ár eftir ár, gegn atkvæðum Ísraels og Bandaríkjanna, virðast ekkert hafa að segja. Bandaríkjastjórn beitir neitunarvaldinu óspart í Öryggisráðinu þegar kemur að því að binda enda á hernámið og viðurkenna í reynd sjálfsákvörðunarrétt Palestínumanna.

Erfitt er að sjá hvort Ísraelar kæri sig nokkuð um frið. Það er eins og þar vanti enn þann grundvallarskilning að öryggi fæst ekki nema með réttlátum friði.

Birtist í Frjáls Palestína.

  • Höfundur er læknir, formaður Félagsins Ísland Palestína (1991-2016) og heiðursborgari í Palestínu (frá 2015).

Scroll to Top