Vernd barna á herteknu svæðunum

ARNA MER KHAMIS er ísraelsk kona sem hefur í mörg ár barist fyrir réttlæti og friði í heimalandi sínu. Hún giftist arabískum manni og hefur öðlast persónulega reynslu af ranglætinu sem Arabar í Ísrael sæta.

Fp vernd barna a herteknu svaedunum mai 1992 1
Arna Mer Khamis; ísraelskur baráttumaður friðar og réttlætis til handa Palestínumönnum.

Arna er handavinnukennari að mennt og hefur lengi unnið við sérkennslu og við listþerapíu. Frá því að uppreisn Palestínumanna gegn hernáminu hófst í desember 1987, hefur Arna tekið þátt í starfi ísraelskra friðarsamtaka til stuðnings réttlátum kröfum Palestínumanna. Hún hefur orðið vitni að margvíslegum mannréttindabrotum og var sjálf handtekin fyrir friðsamleg mótmæli sín gegn hernáminu.

Frá því uppreisnin hófst, hafa ísraelskir hermenn og landnemar drepið fleiri en 150 börn og sært tugi þúsunda barna á skólaaldri með barsmíðum og skotvopnum. Í refsiskyni gegn uppreisninni hafa hernámsyfirvöld látið loka skólum á öllum stigum svo mánuðum skiptir.

Háskólar hafa verið lokaðir samkvæmt skipun yfirvalda í um 3 ár. Heilir árgangar ungra barna hafa misst af kennslu í undirstöðugreinum svo sem í lestri, skrift og reikningi. Hætta er á að þessir árgangar nái sér aldrei á strik. Það er ekki úr vegi að minnast þess að slík atlaga gegn rétti barna til menntunar er alvarlegt brot á alþjóðalögum, á fjórða Genfarsamningnum frá 1949 og á Alþjóðasáttmála um réttindi barna.

Fljótlega eftir að uppreisnin hófst, stofnaði Arna nefnd í heimaborg sinni, Haifa, til verndar börnum undir hernámi. Eitt af markmiðum nefndarinnar var að miðla upplýsingum til ísraelskra og erlendra fjölmiðla um mannréttindabrot á börnum. Annað markmið nefndarinnar var að hjálpa við skipulagningu heimanáms í Jenin flóttamannabúðunum og nágrenni. Þótt ísraelskum yfirvöldum hafi tekist að lama skólakerfi Palestínumanna, tókst þeim ekki að hindra að öllu leyti heimanám. Arna og vinir hennar notfærðu sér þetta svigrúm og þá staðreynd að ísraelskir borgarar eiga greiðan aðgang að herteknu svæðunum og hafa þar meira athafnafrelsi en íbúarnir sjálfir. Nefndin útbjó námsefni og hjálpaði foreldrum palestínskra barna við að skipuleggja heimanámið. Þannig tókst að bæta upp að einhverju leyti fyrir lokun skólanna. Í heimsóknum sínum til flóttamannabúðanna safnar hún iðulega upplýsingum um framferði hersins gagnvart börnum og sér til þess að þessar upplýsingar komist út til almennings í Ísrael og erlendis. Slíkur vitnisburður er afar mikilvægur af því að herinn torveldar með skipulegum hætti ferðir blaðamanna um svæðin.

Fp vernd barna a herteknu svaedunum mai 1992 2
Börnin bregða á leik fyrir formann Félagsins Ísland-Palestína, Svein Rúnar.

Með starfi sínu í þágu palestínskra barna hefur Arna afiað sér trausts og virðingar meðal íbúa flóttamannabúðanna Jenin. Hún nýtur einnig virðingar meðal gyðinga í ýmsum löndum. Nýlega fékk hún styrk frá fiðlusniilingnum Yehudi Menuhin, sem sjálfur er fæddur í Jerúsalem.

Arna heldur áfram að kynna aðstæður palestínskra barna og huga að velferð þeirra, meðal annars með fyrirlestrum á erlendri grund. Í samvinnu við nefndina í Haifa, tókst að opna í ágústmánuði sl. menningarmiðstöð fyrir börn í Jenin flóttamannabúðunum. Þar er að finna m.a. fyrsta almenna bókasafnið á svæðinu. Nú stendur til að opna tvær miðstöðvar til viðbótar í úthverfum sömu borgar.

Arna lítur á starf sitt sem framlag í þágu barna og mannréttinda og sem framlag í þágu friðar í heimalandi sínu. Með starfi sínu hjálpar hún börnum Palestínu að endurheimta sjálfsvirðingu sína og standast niðurlægingu hernámsins.

Það eru ekki ýkja margir Ísraelsmenn sem sýna Palestínumönnum samstöðu í baráttunni gegn hernáminu og fyrir mannsæmandi lífi. Arna er undantekning í Ísrael. Og hún geldur þess dagsdaglega í samskiptum sínum við ísraelska samfélagið. En með starfi sínu sannar hún að Ísraelar og Palestínumenn geta unnið saman að uppbyggingu friðsamlegs samfélags ef þeir virða hvorn annan. Arna verðskuldar stuðning allra þeirra sem vilja stuðla að einlægum og varanlegum friði milli Ísraels- og Palestínumanna.

Arna kom til Íslands á liðnu hausti (1991) í boði Kennarasambands Íslands, Fósturfélags Íslands og samtakanna Barnaheilla. Hún átti fundi með forráðamönnum þessara samtaka, hélt fyrirlestra í Reykjavík og Borgarnesi og átti viðtöl í fjölmiðlum. Markmið með heimsókninni var m.a. að kynna aðstæður barna sem búa við hernám en einnig að hvetja til stuðnings við þessi börn. Sú tillaga kom fram að stofnuð yrði „íslensk barnamiðstöð“ í flóttamannabúðunum Jenin, þ.e. miðstöð sem nyti stuðnings Íslendinga og væri kennd við Ísland. Það er verið að vinna að því að koma á fót samstarfsnefnd með fulltrúum ofangreindra samtaka og Félagsins Ísland-Palestína, til að skipuleggja stuðningsstarfið.

Birtist í Frjáls Palestína.

Scroll to Top