Fyrir nokkrum árum fóru að berast tíðindi af friðarumleitunum í Palestínumálinu og nokkur bjartsýni ríkti um að hægt yrði að finna lausn á þessu hörmulega máli.
Sá draumur hvarf endanlega með kjöri hins skelfilega Ariels Sharons til forsætisráðherra í Ísrael. Sharon er harðlínumaður og herskár gyðingur sem kemur úr sömu röðum hryðjuverkamanna og ráðið hafa lögum og lofum í Likud-bandalaginu alla seinustu öld. Hvað svo sem segja má um Ehud Barak fyrrverandi forsætisráðherra þá virtist hann í það minnsta hafa einlægan friðarvilja. Sharon virðist hins vegar hafa einlægan bardagavilja.
Heimsbyggðin er smám saman að átta sig á að ríflega hálfri öld eftir lok seinni heimstyrjaldar eru Ísraelar langt komnir með að sölsa undir sig allt land Palestíunumanna í grimmilegri herför sem rekin er í skjóli sögulegs samviskubits bandamanna frá því í heimstyrjöldinni.
Skýringarnar á aðgerðaleysi umheimsins er einnig að finna í innanríkispólitík Bandaríkjanna, eina risaveldis heims. Það er þekkt að stjórnmálamenn í Bandaríkjunum sem hafa hið þaulskipulagða og fjársterka Ísraelslobbý á móti sér ná ekki frama þar í landi. Því þora fáir að berjast gegn ríkishryðjuverkum Ísraelsstjórnar. Það var til að mynda hlálegt að fylgjast með Hillary Clinton og ummælum sem hún lét falla í Jerúsalem um daginn. Þessi annars ágæti öldungadeildarþingmaður – sem sannarlega heillaði heimsbyggðina sem forsetafrú Bandaríkjanna – féll í þann grautfúla pytt sem bandarískir stjórnmálamenn gera gjarnan, að gerast undirlægja Ísraelslobbýsins. Þarna stóð hún við grátmúrinn og vældi um hvað Arafat væri vondur – að þessi roskni leiðtogi Palestínumanna bæri ábyrgð á hörmungunum í Mið-Austurlöndum.
Sádi-Arabar hafa nýlega lagt fram nokkuð skynsamlegar friðartillögur sem fela í sér að Ísraelar dragi allt herlið sitt frá svæðunum sem þeir hernámu 1967. Á móti viðurkenni arabaríkin tilvist Ísraels og taki upp vinsamlegri samskipti við landið. Leiðtogar heimsins hafa ásamt arabaheiminum fagnað þessu útspili og hershöfðinginn Sharon sagði við Javier Solana fulltrúa Evrópusambandsins að hann væri reiðubúinn að skoða málið. Í ljósi fyrri aðgerða ætla ég að leyfa mér að efast um friðarvilja Sharons en vona svo sannarlega að hann taki á endanum einhverjum sönsum áður en hann leiðir allsherjartortímingu yfir Landið helga.

Allsherjarstyrjöld
Þrátt fyrir ofangreindar friðarumleitanir virðist ekkert lát á skálmöldinni og fréttir berast af sífellt harðnandi átökum og sífellt skelfilegri voðaverkum beggja deiluaðila. Landið helga logar allt í átökum sem ekki er hægt að lýsa á annan hátt en sem allsherjarstyrjöld. En þetta er æði ójafn leikur, ef hægt er að nota svo léttúðlegt orð um hörmungarnar. Ísraelar hafa á að skipa harðsnúnum og vel skipulögðum atvinnuher, fullbúnum nýjustu og bestu morðtólum frá Bandaríkjunum. Í röðum palestínskra vígamanna er hinsvegar öllu fátæklegra um að litast. Tötraralega klæddir unglingar hljóta þjálfun í sjálfsmorðsbúðum mis vanmáttugra samtaka, smáhópa og klofningsbrota og læra þar að handleika mólotov-kokkteila og heimatilbúnar sprengjur. Þar er þeim líka kennt að það sé göfugt að fórna lífinu fyrir málstaðinn, enda virðast sjálfsmorðsárásir bíta einna best þessi misserin.
Hringavitleysan er eitthvað á þessa leið: Ísraelar sölsa undir sig sífellt meira af landsvæði Palestínumanna. Það magnar upp gremju hjá Palestínumönnum sem endar með því að einhver vitleysingurinn í sundurleitum samtökum þeirra kastar mólotov kokkteil að ísraelskum hermönnum eða sprengir sig jafnvel í loft upp á fjölmennum stöðum, í þeirri von að taka sem flesta gyðinga með sér á vit örlaganna – sem vel að merkja eru nánast þau sömu, því trúarbrögð Palestínumanna og gyðinga eru greinar af sama meiði og boðskapur þeirra sá sami. Þessi hryðjuverk Palestínumanna eru að sjálfsögðu forkastanleg og það ber vitaskuld að leiða þá seku fyrir dómsóla. Ísraelsríki hefur hinsvegar kosið að standa öðruvísi að málum.
Lýðræðislega kjörin ríkisstjórn Ísraels bregst nefnilega við eins og hópur ótíndra glæpamanna sem vílar ekkert fyrir sér í baráttunni gegn óvininum og lætur afar vafasaman tilgang helga sín göróttu meðul. Glæpir hryðjuverkamannanna eru ekki rannsakaðir og hinir seku eru ekki leiddir fyrir rétt – heldur sendir ríkisstjórnin morðsveitir sínar út af örkinni og sprengir saklausa jafnt sem seka Palestínumenn í loft upp í grimmilegum hefndaraðgerðum.
Einhverra hluta vegna hefur heimsbyggðin þó ákveðið að kalla það ekki hryðjuverk þótt hefndarverk Ísraela séu engu skárri en hryðjuverk Palestínumanna – og jafnvel enn verri ef mið er tekið af því hve ójafn leikurinn er. Á milli hefndaraðgerðanna, sem geta bitnað á hverjum sem er, heldur ríkisstjórn Ísraels svo úti aftökusveitum sem drepa grunaða Palestínumenn án dóms og laga. Og allt fer þetta fram í skjóli Bandaríkjastjórnar sem telur Ísrael til sinna helstu bandamanna.
Nú virðist sem lokaorustan sé ekki langt undan. Ef ekkert verður að gert munu Ísraelsmenn knýja fram fullnaðarsigur í krafti ofureflis og sölsa endanlega undir sig afganginn af landsvæði Palestínumanna. Síðan munu þeir væntanlega kúga hina palestínsku frumbyggja á einhverjum ömurlegum verndasvæðum, líkt og Evrópumenn gerðu þegar þeir námu land Indjána í Ameríku og frumbyggja í Ástralíu.
Samviskubit Vesturlanda
Það flækir málið að samviskubit vesturlanda í garð gyðinga vegna helfarar nasista hefur gert það að verkum að Vesturlönd hafa horft upp á aðfarirnar án þess að aðhafast nokkuð. Það er einnig sorglegt til þess að hugsa að þetta hefði alls ekki þurft að gerast. gyðingar voru upp til hópa ekkert ólmir í að komast til Palestínu í lok seinni heimstyrjaldar. Þeir vildu miklu frekar fara til Bandaríkjanna og þangað fóru margfalt fleiri en til Palestínu. Eins og málum er háttað nú er heldur ekki raunhæft að Palestínumenn geti hrakið Ísraela til baka af öllu því landsvæði sem þeir hafa sölsað undir sig. Þar býr nú fólk sem varla er hægt – né æskilegt – að flytja nauðungarflutningum frá heimilum sínum.
Eins og fram hefur komið er vandamálið afar flókið og ágreiningurinn djúpstæður. En á meðan deiluaðilar bítast um þetta litla og þéttbýla landsvæði halda blóðsúthellingarnar áfram.

Fjölþjóðlegt sambandsríki
Ef við setjum alla tilfinningasemi til hliðar og leggjum ískalt mat á málið, þá tel ég einu raunverulegu lausnina á deilunni að koma á fjölþjóðlegu sambandsríki á svæðinu, sem rúmar bæði gyðinga og araba, og raunar alla þá sem vilja búa í Landinu helga.
Sennilega eru margir tilbúnir til að blása slíkri hugmynd út af borðinu eins og hverri annarri fjarstæðu. Einhverjir munu halda því fram að átökin á svæðinu lýsi því einfaldlega, að það sé útilokað fyrir þetta fólk að búa saman í einu ríki. En bíðum aðeins við. Hugsum málið betur. Það vill svo til að slíkt hefur gerst áður víðs vegar um jarðarkringluna.
Til að mynda má að hluta til rekja tilurð Bandaríkjanna til borgarastyrjaldar þar í landi, þótt aðstæður hafi svo sem verið aðrar, og í Bosníu er nú verið að gera tilraunir með svipaða hugmyndafræði. Evrópusambandið, sem vissulega er ekki sambandsríki heldur ríkjabandalag, varð ennfremur til við nokkuð svipaðar aðstæður.
Um miðbik liðinnar aldar var Evrópa orðin rjúkandi rúst eftir tvö gjöreyðingarstríð sem háð voru vegna skefjalausrar þjóðernishyggju ýmissa smákónga álfunnar sem skýldu sér bak við einangrun landa sinna og tortryggni í garð annarra þjóða. Á rústum þeirra hörmunga varð til sú hugmynd að aukin samvinna og samruni ríkja álfunnar væri eina leiðin til að tryggja frið og framfarir í hinni stríðshrjáðu Evrópu. Hugmyndin var að gera ríkin svo innbyrðis háð að árás eins ríkis á annað væri í raun árás gegn eigin hagsmunum. Tilraunin tókst og nú 50 árum síðar búa íbúar Evrópusambandsins á einum friðsælasta og farsælasta bletti jarðarkringlunnar.
Hugmyndafræði Evrópusamvinnunar var í raun afar einföld. Yfirþjóðleg samvinna manna á milli, yfir landamæri þjóða, trúabragða, tungumála og menningar er mun skynsamlegra þjóðfélagsskipulag heldur en hólfaskipting sem ýtir undir átök. Í stað þess að skilja þjóðirnar fyrir botni Miðjarðarhafs að í mis vænlegum hólfum, eins og nú er gert, þarf að koma á fjölþjóðlegu þjóðskipulagi með sameinuðu athafnasvæði og jöfnum réttindum. Jafnframt þarf að tryggja að allir hóparnir á svæðinu eigi jafnan þátt í stjórn sambandsríkisins eða þess ríkjabandalagsins sem þar yrði myndað.
Birtist fyrst í Frjáls Palestína.