Venjuleg vika á herteknu svæðunum

Í vikunni sem leið sá ég grjótvörpu í Gaza. Henni var komið fyrir á sterklegri grind. Hún var með skammtara og valslöngu og kastar grjóti í börn.

Landssamband (breskra) blaðamanna hafði sent mig til að halda námskeið í Gaza og Jerúsalem fyrir félaga í Arabíska blaðamannasambandinu á vegum Alþjóðasambands blaðamanna. Grjótvarpan var eitt af mörgum vopnum, þar á meðal skoppandi táragassprengjur og plasthúðaðar byssukúlur, sem herstjórnin beitir gegn óvopnuðum almúganum.

Ég reyni að vera hlutlægur og óvilhallur í starfi uppfræðanda ungra blaðamanna en ég get ekki að því gert að ég brýt um það heilann hverskonar fólk gat upphugsað, hvað þá heldur smíðað slíkt verkfæri.

Lesendabréf í Daily Telegraph , 16.6.1990

4. mars 1991: Fimm palestínskar konur frá Gazaborg og úr flóttamannabúðunum Khan Younis og Nusseirat missa fóstur eftir að þær höfðu andað að sér táragasi sem ísraelskir hermenn höfðu varpað á þær. Fjörutíu og níu Palestínumenn hafa orðið að leita lækninga vegna skotsára, barsmíða og táragass í átökum við ísraelska hermenn. A.m.k. 33 Palestínumenn handteknir á ýmsum stöðum á Vesturbakkanum og Gaza.

5. mars 1991: Leila Radwan, 21 árs, frá þorpinu Beit Lahya á Gazasvæðinu, missir fóstur eftir að hermenn höfðu varpað táragas að henni. Tveggja ára barn, Wissam Massoud, verður fyrir ísraelskum herbíl á Gazasvæðinu og er alvarlega sært. Staðfest að fimmtíu og sex Palestínumenn hafi orðið að leita lækninga vegna skotsára, barsmíða og táragass á herteknu svæðunum. Ísraelskir hermenn innsigla hús palestínska fangans Khaled Hamad í flóttamannabúðunum Rafah. Sjö manns verða heimilislausir. Fjölskylda annars fanga, Ahmad al-Soufi, fær tilkynningu um að hús hennar, einnig í Rafah, verði jafnað við jörðu. Ísraelskar jarðýtur uppræta tugi olívutrjáa í þorpinu Turmus Ayya á Vesturbakkanum á þeim forsendum að einhverjir hafi kastað grjóti á bíl landnema frá þessu svæði. Hermenn rífa niður vöruhús í þorpinu Housan á Vesturbakkanum á þeim forsendum að leyfi hafi vantað til að byggja það.

6. mars 1991: Adli al-Barghouti, 18 ára gamall, deyr eftir að ísraelskir hermenn skjóta hann í höfuð og brjóstkassa á mótmælafundi í þorpinu Beit Rima á Vesturbakkanum. 27 aðrir Palestínumenn eru sagðir særðir á herteknu svæðunum þennan dag. Þrjár konur frá Gaza og Rafah missa fóstur eftir að ísraelskir hermenn varpa táragasi að þeim. Ísraelski herinn skipar lokun framhaldsskólans í þorpinu Yaabud á þeim forsendum að nemendur hafi grýtt hermenn. Jarðýtur ísraelska hersins jafna við jörðu fjögur hús í þorpinu Qatnah á þeim forsendum að leyfi hafi vantað.

7. mars 1991: Fjórar palestínskar konur á Gazasvæðinu missa fóstur eftir að ísraelskir hermenn varpa að þeim táragasi. Tugir Palestínumanna á herteknu svæðunum þurfa að leita lækninga vegna skotsára, barsmíða og táragass þennan dag. Palestínumaður stingur ísraelskan hermann með hnífi í Nablús, stærstu palestínsku borg á Vesturbakkanum. Herinn skipar öllum íbúum borgarinnar (100.000 manns) að halda sér innandyra. Lýst er yfir útgöngubanni. Því næst hefst leit hús úr húsi.

8. mars 1991: Palestínskar konur halda mótmælafundi og setuverkföll í tilefni af hinum alþjóðlega degi kvenna. Ísraelskir hermenn ráðast á konurnar með skotfærum og táragasi og særa tugi kvenna.

9. mars 1991: Allsherjarverkfall er virt á herteknu svæðunum í tilefni þess að liðnir eru 40 mánuðir frá upphafi uppreisnarinnar, Intifada. Í götuátökum sem standa í margar klukkustundir í flóttamannabúðunum Rafah eigast við unglingar vopnaðir grjóti og ísraelskir hermenn. Átökin brjótast út eftir að a.m.k. 200 ísraelskir hermenn ráðast á bænahús múslíma, berja fólkið, skjóta á það og varpa á það táragasi. Hermennirnir fremja helgispjöll með því að rífa kóraninn í tætlur. Samkv. upplýsingum frá heilsugæslustöð UNRWA (flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna) á Gazasvæðinu, eru a.m.k. 283 íbúar flóttamannabúðanna særðir, þar af 103 af skotsárum; 145 þurfa meðferð vegna táragaseitrunar og 35 vegna áverka, eftir barsmíðar og af völdum grjótvörpu (sjá rammagrein að ofan). Um 130 íbúar eru handteknir, þar á meðal börn undir 12 ára aldri.

10. mars 1991: Fjórar ísraelskar konur eru stungnar til bana við strætisvagnabiðstöð á vesturhluta Jerúsalem. Lögreglan handtekur Mohammed Abu Jala, 26 ára hjúkrunarfræðing frá flóttamannabúðunum Jabalia á Gazasvæðinu. Að sögn lögreglunnar segist Mohammed hafa viljað með morðunum „senda boð“ til James Baker sem var væntanlegur til Ísraels.

Ísraelskur skríll safnast á morðstaðnum og tekur að kyrja „Drepum arabana“. Ráðist er á fjölda Palestínumanna og bíla þeirra. Palestínumönnum frá herteknu svæðunum er bannað að fara til Jerúsalemborgar um óákveðinn tíma (aðeins þeim sem játa gyðingatrú er leyft að fara til Jerúsalem).

Einn af þekktustu talsmönnum Palestínumanna á herteknu svæðunum, Faisal Husseini, lýsir andstyggð sinni á morðunum og einnig helgispjöllum sem ísraelskir hermenn hafa framið daginn áður í Rafah (sjá hér að framan). Hann leggur áherslu á nauðsyn þess að rjúfa vítahring ofbeldis og haturs sem er bein afleiðing hernámsins.

Ísraelsher gerir upptæka hundruði hektara ræktaðs lands sem tilheyra þorpunum al-Zawyeh, Rafat og Deir Ballout nálægt Nablús. Heryfirvöld tilkynna yfirmanni þorpsins al-Sammoua að herinn muni gera upptæka 100 hektara af landi þorpsins.

Sex palestínskar konur missa fóstur og 56 Palestínumenn hljóta sár og áverka vegna framferðis ísraelska hersins þennan dag.

Birtist í Frjáls Palestína.

Scroll to Top