Varla telst það sérstaklega fréttnæmt að Gyðingar hafi oft og einatt ítrekað þá skoðun sína að þeir eigi landið sem þeir gera tilkall til í Palestínu. Rökin eru oft þau að Guð hafi gefið þeim það fyrir mörgþúsund árum. Sömu rökum er ennfremur oft haldið á lofti af sumum kristnum trúarhópum. En hins vegar voru upphafsmenn zíonismans og forystumenn í baráttunni fyrir stofnun hins nýja Ísraelsríkis margir hverjir guðleysingjar og vísuðu ógjarnan til texta Gamla testamentisins málstað sínum til framdráttar. En nú á dögum er þessu stundum haldið á lofti í deilunni um land í Palestínu.
Handleiðsla Guðs
Hún er ekki ný af nálinni sú hugsun að Guð geti leitt einstaklinga um lífsins veg og jafnvel heila þjóð eða þjóðir. Margir lifa í þeirri vitund og vissu að tiltekin atvik eða atburðir séu óræk sönnum um handleiðslu Guðs. Þegar einstaklingur lítur yfir liðna tíð geta vissir atburðir verið fyrir hugskotssjónum hans sem vörður á vegi sem ekki eru tilviljanir heldur lýsandi dæmi um tilgang og djúpa merkingu eigin tilvistar. Eftir á að hyggja líta þessir leiðarsteinar út í augum einstaklingsins sem merki um handleiðslu æðri máttar – Guðs. Margt fólk á í brjósti sér sannfæringu af þessu tagi enda þótt erfitt sé að sanna hana fyrir öðrum. Og þannig er það ætíð með trúna. Hún snýr að persónunni sjálfri og varðar sjálfskilning og tengsl hennar við Guð.
Guðs útvalda þjóð
Sjálfskilningur Gyðinga er m.a. fólginn í því að þeir séu Guðs útvalda þjóð. Þeir færa rök fyrir því með því að vísa til eigin sögu sem að mestu er skráð í Gamla testamentinu. Saga Gyðinga er merkileg og hún er hluti af trúararfi kristinna manna og múslima líka. Sagan af brottför Ísraelsmanna úr Egyptalandi undir forystu Móse og Arons, vegferð þeirra í eyðimörkinni og til fyrirheitna landsins, er okkur flestum kunn.
Skilningur kristinnar kirkju er að samfélag kristinna manna sé í raun hinn nýi Ísrael. Fyrirheitið um landið eigi með öðrum orðum við um andlegan veruleika. Á dögum Jesú Krists bjuggu fornhebrear í Palestínu, í „fyrirheitna landinu“. En Jesús spáði eyðingu Jerúsalem árið 70 og þar með sundrun þjóðarinnar. Við þekkjum það af sögunni að ríki Gyðinga leið undir lok og varð ekki til aftur fyrr en árið 1948.

Myndirnar með greininni tók Arna Ösp Magnúsardóttir
Og þá vaknar spurningin: Var stofnun Ísraelsríkis uppfylling fyrirheita Guðs? Eða var þetta aðeins afleiðing af ákvörðun breskra stjórnvalda og annarra ríkja til þess að stuðla að landnámi Gyðinga í Palestínu?
Rök að handan
Hvað varðar eignarhald á landinu þá dreg ég alvarlega í efa og hafna reyndar alfarið þeirri skoðun að hægt sé að gera kröfur um einhvern hlutbundinn veruleika gagnvart öðrum aðila í þessu lífi á grundvelli þess að Guð hafi sagt eitt eða annað. Kristin kirkja getur og á að boða að í orði Guðs birtist hvatning til fólks um að lifa í sátt og samlyndi en sá boðskapur verður aldrei neyddur upp á neinn.
Geta Gyðingar krafist lands á grundvelli þess að Guð hafi gefið þeim það? Get ég sagt við nágranna minn að Guð hafi gefið mér fyrirheit um að ég megi slá eign minni á húsið hans? Er hægt að vísa til slíkra handanverandi (transcendental) raka, raka úr öðrum heimi? Er Gamla testamentið veðbókarvottorð handa Gyðingum? Um leið og vísað er með þessum hætti til hins handanverandi án þess að taka tillit til mennsku og kærleika, alþjóðalaga og réttlætis, er verið að slökkva í senn á vitsmunum og góðu hjartalagi.
Sama hugsun, sömu rök, birtast oft í afstöðu fólks hér á landi til andatrúar og miðla. Haustið 2003 var landskunnur miðill í viðtali í þættinum, Ísland í dag, á Stöð 2, ásamt forstöðumanni kristins trúfélags, sem á sér rætur í hreyfingu hvítasunnumanna hér heima og í Bandaríkjunum. Ung kona, annar tveggja stjórnenda þáttarins, bað miðilinn áköf og nánast á innsoginu, að segja sér og áhorfendum hvað hann sæi „í kringum forstöðumanninn.“ Sem betur fer féll miðillinn ekki í þá gryfju. Hins vegar lá í spurningu ungu konunnar beiðni um eitthvað yfirskilvitlegt, eitthvað handanverandi, eitthvað sem enginn getur véfengt eða dregið í efa, hvað þá rökrætt.
Hver getur rökrætt eitthvað sem annar aðili rökræðunnar hefur aðgang að en hinn ekki? Hér er að mínu viti á ferðinni samskonar röksemdafærsla og Gyðingar og sumir kristnir menn beita þegar þeir segja Gyðinga eiga landið á grundvelli þess sem ég kalla, veðbókarvottorð að handan.
Umræddur miðill hefur gerst skemmtikraftur í sjónvarpi (sem segir að mínu mati heilmikið um trúverðugleika andatrúar yfirhöfuð) og það er í raun dálítið skondið að til að andmæla gjörðum hans var fenginn forstöðumaður trúfélags sem á rætur í þeirri tegund af bandarískum kristindómi sem er þekktur fyrir að róa á sömu mið neysluhyggju og skemmtanagildis og hefur álíka afstöðu til kennivalds handanverunnar. Í grunninn virðist hugmyndafræði miðilsins, forstöðumannsins og sumra kristinna hópa hér á landi vera af sama meiði.
Rökleysa
Er hægt að hegða sér með umræddum hætti? Því miður beita menn oft slíkum órökum, slíkri vitleysu, bæði hér og úti í hinum stóra heimi. Ráðamenn Ísraelsríkis tala með þessum hætti, forseti Bandaríkjanna gerir það, fólk sem tekur mark á miðlum gerir það. Enginn maður sem vill láta taka mark á sér getur talað með slíkum hætti.

Guð kristni og gyðingdóms getur aldrei gefið mér rétt til þess að beita aðra órétti. Guð gefur Gyðingum engan rétt til þess að berja á Palestínumönnum né þeim síðarnefndu á hinum fyrri. Lögmálið auga fyrir auga og tönn fyrir tönn er úr gildi fallið. Í stað þess kemur boðskapur kærleika og fyrirgefningar, friðar og virðingar fyrir mennsku og mannlegri reisn. Notum það vit sem Guð hefur gefið okkur mönnum og skýlum okkur ekki á bak við hindurvitni eða ímyndaðan stuðning Guðs við fólskuverk. Guð er ekki leikfang í hendi fávísra manna.
Ósannanleg sönnun
Sjálfur trúi ég því að Guð leiði mig í lífi og starfi. Ég tel mig verða þess áþreifanlega varan. En ég get ekki fært fyrir því rök sem duga öðrum. Ég get aðeins borið því vitni með orðum. Slík upplifun og trú er og verður engum sönnun nema sjálfum mér. Við getum ekki fært rök fyrir handleiðslu Guðs. Um hana gilda einungis rök trúarinnar innra með þeim sem vona og vita í hjarta sér að eitthvað hefur tilvistarlega merkingu. Þess háttar upplifun er algeng. Guð er að verki í lífi einstaklinga og þjóða. En að nota slíkt með þeim hætti sem áður var um rætt gengur ekki upp.
Til komi heilbrigð skynsemi
Það sem ég kalla veðbókarvottorð Ísraelsmanna er ekki pappírsins virði fremur en meintar sannanir andatrúarmanna og miðla. Notum skynsemina sem Guð hefur gefið okkur. Eina veðbókarvottorðið sem við höfum í höndum hvað varðar Biblíuna er líf og starf Jesú Krists og upplifun kynslóðanna af nærveru hans og handleiðslu. Þessu trúi ég og þess vegna held ég áfram að biðja fyrir heiminum og segi: Faðir vor, tilkomi heilbrigð skynsemi, heilbrigð trú og hindurvitnalaus, í málefnum Mið-Austurlanda og í almennri umræðu hér á landi.

Í stað landsins sem Guð „gaf“ kemur gjöf hins nýja, andlega ríkis þar sem réttlæti og friður haldast í hendur og kyssast. Í stað kröfunnar um land á að koma krafan um miskunn og skilning á þörfum náungans. Gjöf himinsins, gjöf hins himneska „lands“, er köllun til allra góðra manna um að vinna í anda stjórnarskrár Guðsríkis. Í því ríki eru réttindi og skyldur færð í veðbækur, veðbækur hjartna okkar. Þar eru skráð réttindi og skyldur þeirra sem vilja starfa í anda kærleikans. Í stað þess að sækjast eftir landi, mold og steinum, ber okkur að sækjast eftir landvinningum í ríki kærleikans. Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna er nærtækt verkfæri kærleikans. Þar er kveðið á um réttindi fólks sem þjóðir heimsins hafa samþykkt að allir skuli njóta. Hvernig væri nú að leggjast á eitt um að þessi merka yfirlýsing öðlist gildi í raun?
Lausn í ljósi kærleikans
Við höfum réttinn til að elska og réttinn til að njóta ávaxta kærleikans, réttinn til að gefa og þiggja. Enginn hefur sett fram lögmál kærleikans á skýrari hátt en Jesús Kristur. Lesum veðbókarvottorðið sem innsiglað var með krossi og upprisu hans sem var kærleikurinn og miskunnin í mannsmynd. Lesum sögu hans sem var í senn sannur Guð og sannur maður. Engin persóna hefur haft eins bætandi áhrif á heiminn og hann.
Í ljósi alls þessa er mér fyrirmunað að skilja hvernig nokkur kristinn maður getur á grundvelli Biblíunnar stutt ofríki Ísraelsmanna gagnvart Palestínumönnum. Stuðningur við málstað Ísraelsmanna með ofurtrú á „fyrirheitin“ um landið eru að mínu áliti sama eðlis og afstaða farísea og lögmálsmanna á dögum Krists þegar hann barðist við mistúlkun þeirra og rangan skilning á orði Guðs og lögmálinu. Lögmálshyggja kristinna manna í sumum fríkirkjum landsins og í Bandaríkjunum veldur því að kærleikshjal hinna sömu verður að engu, því ofuráhersla á lögmálið leiðir óhjákvæmilega til kúgunar og misbeitingar.
Hollt er jafnan að muna orð Páls postula, sem eru sígild og leiðbeinandi hvað varðar skilning á Biblíunni allri og málefnum heimsins: „En nú varir trú, von og kærleikur, þetta þrennt, en þeirra er kærleikurinn mestur.“ (1 Kor. 13.13)
Birtist í Frjáls Palestína.