Í aprílhefti bandaríska tímaritsins Vanity Fair er grein þar sem ljóstrað er upp um valdaránstilburði á síðasta ári gegn lýðræðislega kjörnum stjórnvöldum á Gaza. Tímaritið hefur undir höndum trúnaðarskjöl sem sýna fram á leynilega áætlun, sem Bush forseti, Condoleezza Rice utanríkisráðherra og Elliot Abrams aðstoðarþjóðaröryggisráðgjafi höfðu lagt blessun sína yfir, og fól í sér að koma af stað borgarastríði meðal Palestínumanna. Markmiðið var að koma stjórn völdum undir forystu Hamas-samtakanna frá, og lykilpersónan í þessari áætlun var Muhammad Dahlan, sem verið hefur þjóðaröryggisráðgjafi Abbas forseta Palestínu og jafnframt í nánu sambandi við bæði FBI, bandarísku alríkislögregluna og CIA, bandarísku leyniþjónustuna. Dahlan hefur verið í sérstöku áliti hjá Bush frá fyrstu kynnum þeirra og var einnig í tengslum við Clinton forseta.
Gera stjórnvöld valdarán gegn sjálfum sér?
Undirrituðum fannst það ævinlega einkennileg frétt, sem klifað var á í júní í fyrra, að Hamas samtökin væru að ræna völdum á Gazaströnd. Hvernig mátti það vera að samtökin væru að ræna völdum frá stjórnvöldum sem voru þau sjálf? Gera löglega og lýðræðislega kjörin stjórnvöld valdaránstilraunir gegn sjálfum sér? Um það leyti sendi Jonathan Cook, breskur blaðamaður og rithöfundur sem búsettur hefur verið í Nazaret um árabil, frá sér grein um að stjórnvöld Hamas-samtakanna á Gaza hefðu kæft í fæðingu valdaránstilraun öryggissveita Fatah.
Eitthvað fór þetta úr böndunum hjá bandarísku leyniþjónustunni og Muhammad Dahlan, því að samkvæmt Vanity Fair var hann víðs fjarri þegar uppgjörið milli Fatah og Hamas fór fram snemma í júní síðasta ári. Hann mun þá hafa verið erlendis til að gangast undir aðgerðir á báðum hnjám, og var síðan í átta vikur að ná sér eftir þessar aðgerðir. Atburðarásin hafði komist á skrið þann 1. febrúar 2007, þegar Fatah-sveitir undir forystu Dahlan réðust inn í Íslamska háskólann á Gaza og kveiktu í fjölmörgum byggingum. Hefndarárásir Hamas komu daginn, eftir með árásum á lögreglustöðvar sem voru undir stjórn öryggissveita Fatah. Þegar upp var staðið þann 16. júní, höfðu áætlanir Bandaríkjastjórnar farið algerlega út um þúfur og í stað þess að Fatah-sveitum tækist að koma stjórnvöldunum á Gaza frá í það skiptið, voru þær afvopnaðar af mikilli hörku og grimmd sem var beitt af beggja hálfu.
Bush hafði þrýst mjög á að kosningar færu fram á herteknu svæðunum, en að mati Dahlan og fleiri leiðtoga Fatah voru þeir ekki reiðubúnir í janúar 2006. Þegar svo úrslit kosninganna lágu fyrir, voru lýðræði og frelsi ekki lengur á dagskrá. Allt skyldi gert til að afmá úrslit lýðræðislegra kosninga. Ákveðið var að einangra palestínsku stjórnvöldin og brjóta þau á bak aftur. Og þegar Abbas forseti ákvað að ganga til samstarfs við Hamas um þjóðstjórn, var hann beittur gríðarlegum þrýstingi af Bush-stjórninni til að eyðileggja það stjórnarsamstarf, sem var palestínsku þjóðinni lífsnauðsyn. Valdaránstilraunin á Gaza var hluti þessara aðgerða, og að sjálfsögðu gerð í samráði og samstarfi við Ísraelsstjórn, enda vopnum og fjármagni ekki komið til manna Dahlans án þeirra.
Í saumaklúbbi með Mossad og CIA
Þótt í grein Vanity Fair sé talað um trúnaðarskjöl og leynilegar áætlanir eða samsæri, sem tímaritið ljóstraði upp um, þá var vart um mikla leynd að ræða, því að undirbúningur valdaránsins fór fram fyrir opnum tjöldum. Fréttir bárust af því síðastliðinn vetur og vor, að Bandaríkjastjórn væri með tilstuðningi Ísraelsstjórnar að veita Fatah-sveitunum, leyniþjónustu- og lögreglusveitum undir stjórn Abbas forseta, stuðning í formi fjármagns, vopna og herþjálfunar. Svokölluð öryggissamvinna milli Ísraels og Palestínu hafði átt sér stað um árabil fyrir opnum tjöldum, eða allt frá dögum Arafats, og farið fram á fundum fulltrúa leyniþjónusta beggja aðila und ir fundarstjórn CIA, leyniþjónustu Bandaríkjanna.
Það hryggilega við þetta samstarf er að það getur ekki talist vera annað en hluti af þeirri undirokun sem Palestínumenn búa við. Styrkleikahlutföllin eru gjörsamlega út úr öllu korti. Palestínsk leyniþjónusta er vart nema lítill saumaklúbbur við hliðina á tveimur langöflugustu leyniþjónustum heims. Krafa Ísraelsstjórnar og þar með Bandaríkjanna til samstarfsaðilans hefur verið sú að palestínsk stjórnvöld nái tökum á andspyrnuhópunum. Þeir eru fjölmargir og tengjast ýmsum stjórnmálasamtökum, þar á meðal Fatah. Nokkrir eru þverpólitískir og aðrir trúarlegir. Vopnuð barátta gegn hernámi Palestínu er þeim sameiginleg.
Krafan er sú að binda endi á þá starfsemi þessara hópa, sem skilgreind er sem hryðjuverk. Hryðjuverkárásir Ísraelshers á herteknu svæðunum, gegn íbúum sem Ísraelsstjórn ber að ábyrgjast samkvæmt Genfarsáttmálanum, eru hins vegar skilgreindar sem varnaraðgerðir af ríkisstjórnum Ísraels og Bandaríkjanna.
Þegar Ísraelsher hafði myrt nærri 130 íbúa Gazastrandar á 5 dögum, í kjölfar þess að einn Ísraeli var myrtur með heimatilbúinni Qassam-flaug í bænum Sderot (sem var fyrsta slíkt mannfall í níu mánuði), var þess freistað að fá Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna til að samþykkja fordæmingu. Eins og oft áður náði slík tillaga ekki fram að ganga vegna neitunarvalds Bandaríkjanna. Þar á bæ er minnt á rétt Ísraelsríkis til að verja hendur sínar. Sama gildir ekki um Palestínu.
Rangt að selja alla undir sömu sök
Sendiherra Ísraels gagnvart Íslandi, með aðsetur í Noregi, ritaði nýverið grein í Morgunblaðið þar sem hún tókst á hendur það aumkvunarverða hlutverk að reyna að réttlæta nýleg fjöldamorð Ísraelshers á Gazaströnd. Í einu rataðist henni satt orð á munn þótt meining hennar væri önnur en við á. Hún sagði það vera „rangt og villandi“ að lýsa ástandinu sem „vítahring“ og selja alla undir sömu sök. Sendiherrann var svo kokhraustur að minnast á grundvallarreglur alþjóðlaga, sem brotnar væru þegar eldflaugum væri skotið á Sderot, en minntist að sjálfsögðu ekki á sprengjumagn eldflaugaárása, skriðdreka- og flotaárása eins öflugasta herveldis heims, sem beint hefur verið gegn flóttamannabúðum og heimilum í íbúabyggðum á Gazaströnd, eins þéttbýlasta svæðis heims.
En ég er sammála þeim orðum að það er ekki um „vítahring“ að ræða sem ekki sé hægt að stöðva. Það liggur ljóst fyrir að hvort sem menn vilja kalla skæruhernað palestínsku andspyrnuhópanna hryðjuverk eða lögmæta baráttu gegn hernámi, sem sérhver þjóð hefur rétt til, þá eru slíkar aðgerðir ekkert annað en viðbrögð við kúgun og niðurlægingu vegna lengsta hernáms samtímasögunnar. Um leið og séð væri fyrir endann á grimmilegu hernámi og Ísrael tæki sér sæti við hlið annarra ríkja sem lúta vilja alþjóðalögum en telja sig ekki yfir þau hafin, og ef ísraelska þjóðin tæki í hönd þeirrar palestínsku sem lengi hefur verið útrétt og sýndi það og sannaði að hún vildi lifa í friði við nágranna sína, þá hyrfi samstundis grundvöllur skæruhernaðar og hryðjuverka.
Ég er líka þeirrar skoðunar að rangt sé að selja alla undir sömu sök. Það er rangt að setja jafnaðarmerki á milli kúgara og þeirra sem búa við kúgun. Oft er sagt að sjaldan valdi einn þá tveir deila. Ég held að engum okkar þætti viðeigandi að taka svo til orða um útrýmingarstefnu nazista gegn gyðingum. Það er heldur ekki viðeigandi að taka svo til orða þegar heimurinn hefur í áratugi horft upp á þjóðernishreinsun gegn Palestínumönnum og er að horfa upp á það sem líkist þjóðarmorði gegn varnarlausum og innilokuðum íbúum á Gazaströnd.
Birtist í Frjáls Palestína.