Tvennir tónleikar voru haldnir í vetur og vor til að safna peningum fyrir stríðshrjáða Palestínumenn og vekja fólk til umhugsunar um ástandið í Palestínu og Ísrael. Báðir tókust þeir með eindæmum vel og hafa vafalaust átt einhvern þátt í að opna augu ungs fólks fyrir því hróplega óréttlæti sem viðgengst fyrir botni Miðjarðarhafs, en stærstur hluti nýrra félagsmanna sem gengu í Félagið Ísland-Palestína er einmitt ungt fólk. Allar þær hljómsveitir og tónlistarmenn sem tróðu upp á tónleiknum gáfu vinnu sína!
Vakning í Hinu húsinu
Fyrri tónleikarnir, sem fóru fram 9. desember á Kakóbar Hins hússins, voru í raun meira en bara tónleikar. Um var að ræða samblöndu af málþingi og tónleikum undir heitinu Vakning, sem stóðu í rúmlega sjö klukkustundir og voru herlegheitin skipulögð af eldhugunum Bóasi Hallgrímssyni og Melkorku Óskarsdóttur sem eiga sannarlega hrós skilið fyrir framkvæmdina. „Við erum þeirrar skoðunar að afskiptaleysi eigi ekki að einkenna þjóð okkar, allra síst æsku landsins. Skeytingarleysi teljum við að eigi rætur sínar að rekja í þekkingarleysi á málsatvikum. Sláandi fyrirsagnir og óhugnanlegar myndir slá ryki í augu okkar og fáir gefa því gaum um hvað deilan snýst raunverulega. Þess vegna langar okkur að reyna að koma af stað umræðu og fara dýpra í málin.
Fam komu hljómsveitirnar 200.000 naglbítar, Stjörnukisi, Mínus, Vígspá, Snafu, Andlát og tónlistarmennirnir MC Sezar A, Blaz Roca og Vivid Brain. Fulltrúar FÍP og Ungra sósíalista tóku til máls, sýnt var myndbrot frá ferð Sveins Rúnars Haukssonar til Palestínu og bækur og annað upplýsingaefni var á boðstólum. Á veggjum Kakóbarsins var komið fyrir blaðaúrklippum, greinum og öðrum upplýsingum um málefni Palestínu og Ísraels. Aðgangur á tónleikana og málþingið var ókeypis, en á staðnum fór fram neyðarsöfnun félagsins til stuðnings hjálparstarfi í Palestínu og söfnuðust rúmar 20.000 krónur. 20 nýjir félagsmenn gengu í FÍP á samkomunni.
Rokk í Hátíðarsal MH
Seinni tónleikarnir fóru fram í þann 12. maí í Hátíðarsal MH og að þeim stóð Félagið Ísland-Palestína í samstarfi við Listafélag MH. Tónleikarnir voru vel sóttir, u.þ.b. 250 manns mættu og fimm flytjendur; múm, XXX Rottweiler hundar, Vígspá, Andlát og Skurken. Palestínski fáninn hékk fyrir ofan sviðið, ásamt veifu með áletruninni „Frjáls Palestína“. Komið var upp bási við innganginn þar sem hægt var að skoða gömul tölublöð af Frjálsri Palestínu og ganga í félagið. Nokkur fjárupphæð safnaðist, en talsverður kostnaður var við hljóð- og ljósakerfi o.fl. Félagið naut dyggs stuðnings félaga Listafélags MH við skipulagningu tónleikanna, og fá þeir bestu þakkir fyrir. Fjölmiðlar sýndu samkomunni talsverðan áhuga, og birtust viðtöl í Morgunblaðinu, á Skjá einum, Rás 2 og Radíó X, og frétt á áberandi stað í Fréttablaðinu. Því má segja að tónleikarnir hafi vakið athygli á félaginu okkar og því málefni sem við berjumst fyrir, frjálsri Palestínu. Við þökkum öllum þeim sem sýndu okkur stuðning og áhuga.




Viðar Þorsteinsson og Eldar Ástþórsson
Birtist fyrst í Frjáls Palestína.