Greinin er byggð á útvarpsdagskrá, sem samin var af séra Rögnvaldi heitnum Finnbogasyni, fyrsta formanni Félagsins Ísland-Palestína og flutt 29. nóvember 1987, stofndag félagsins.
Torfundinn mun sá staður sem á sér jafnforna menningararfleifð og langa sögu sem Palestína, það land í Miðjarðarhafsbotnum sem í minni æsku var oft kallað í skólabókum Gyðingaland, en er á okkar tíð í hugum flestra orðið hið sama og ríkið Ísrael.
Þótt vart líði sá dagur að ekki séu fleiri eða færri Íslendingar á leið um þessar slóðir og af sem áður var að það sætti tíðindum að Íslendingar sæktu heim svo fjarlægt land, þá virðist enn ríkja ótrúleg fáfræði um það sem er að gerast á þessum fornu slóðum og hefur verið að gerast síðustu áratugi.
Fyrir okkur íslendingum sem öðrum kristnum mönnum er þetta land vafið sérstökum ljóma; hér var Jesús Kristur í heiminn borinn, hér starfaði hann og hér var hann festur upp á kross. Því er það að fjölmargir sem eru kirkjunni tengdir eiga þann draum að komast til hinna fornu helgu staða, ekki síst á hátíðum. Þar hafa eytt jólahátíðinni íslenskir prestar og kirkjukórar. Þeir hafa komið til Betlehem og án efa átt þar helga stund. – En hversu margir vita að svo sem steinsnar utan við Betlehem eru fangabúðir þar sem Palestínumönnum er haldið fyrir það eitt að vilja land sitt frjálst, vilja búa við full mannréttindi í sínu eigin landi?

Fréttaflutningur af atburðum virðist ekki til þess fallinn að upplýsa menn um raunverulega stöðu mála í þessum heimshluta heldur þvert á móti skapa hleypidóma og misskilning í því ríkara mæli sem fleira er sagt um þetta forna land, Palestínu, eða Filastin eins og það heitir á arabisku.
Mörgum öldum áður en Flebrear hinir fornu réðust inn í landið og lögðu Jeríkóborg í rúst og drápu þar allt sem lífsanda dró, stóð í Palestínu vagga frjórrar menningar. Á þeirri tíð var í Palestínu að finna elstu þorp sem kunn eru í sögunni og menn höfðu í fasta búsetu. Og þar er einnig að finna elstu borg veraldar sem á sér 9000 ára samfellda sögu. Jeríkó er sú borg sem státað getur af elstri samfelldri byggð og er nú talin vera 4000 árum eldri en nokkur önnur borg á jarðarkringlunni. Það virðist því furðuleg kaldhæðni sögunnar að á miðri 20. öld – hinni gullnu öld mannréttinda og sjálfsákvörðunarréttar þjóða – skuli Palestínu, hinu eldforna menningarríki, svipt af landabréfinu og fólki talin trú um að þar hafi aldrei búið sérstök þjóð, þar hafi aldrei þróast eða verið til palestínsk menning í nútíma skilningi þess orðs, heldur hafi þar um reikað frumstæðir Bedúínar með hjarðir sínar, sem hvorki hafi skeytt um gróður lands né annað er til framfara horfði. Þessum hugmyndum er þó haldið á loft á okkar dögum af þeim er þurfa að réttlæta landrán og ofbeldisverk gegn hinni fornu palestínsku þjóð, réttbornum erfingjum þessa lands.
Frá liðnum öldum eru þó fjölmargar lýsingar til á landkostum í Palestínu og menningu palestínsku þjóðarinnar allt til loka 19. aldar, og segja þær frásagnir allt aðra sögu.
Eftir 1882 tóku gyðingar frá Evrópu að flytjast til Palestínu, oft að undirlagi zíonista, en þrátt fyrir þá fólksflutninga var langmestur hluti þjóðarinnar palestínskir arabar allt fram til þess að Ísraelsríki var stofnað á vordögum 1948. Glæpir nasista gegn gyðingum í Evrópu á stríðsárunum eru einn svartasti bletturinn í sögu Þýskalands og raunar Evrópu allrar. Ef til vill var útrýmingarherferð nasista sá dropi er fyllti mælinn. Í glundroða styrjaldarinnar og fyrstu áranna eftir stríð virtist mörgum gyðingum þetta vera hin eina leið og lausn, að flytjast til Palestínu og hins nýja ríkis, Ísraels. Heimurinn hafði ekki áttað sig á því að þessi sýndarlausn á vanda landflótta gyðinga var upphaf nýs vandamáls sem átti eftir að hafa hörmulegar afleiðingar fyrir aðra þjóð, Palestínuþjóðina. Það er auðvelt að leysa vanda manna sé honum velt yfir á aðra eins og gert var í þessu tilviki. – En hinir langhrjáðu gyðingar áttu samúð heimsins 1945, einhvers staðar varð að finna þeim samastað og zíonistar höfðu fyrir löngu bent á þann stað, Palestínu.

Árið 1931 voru gyðingar í Palestínu aðeins 174 þús. af þeirri rúmu milljón er landið byggðu. Árið 1946 voru þeir orðnir 608 þús., en heildarfólksfjöldi þá 1.900 þús., og ekki lék neinn vafi á hverjir voru innfæddir og hverjir komumenn. Nú, árið 1987, eru Palestínumenn hálf 4. milljón, en einungis þriðjungur þeirra þýr í eigin landi, hinir hafa hrakist burt, flestir til nágrannalandanna. En hverjir voru og eru þessir „innfæddu“ íbúar Palestínu?
Langflestir þeirra voru súnní-múslímar, þ.e. fylgjendur spámannsins í trúarlegum efnum, þótt meðal þeirra væri einnig að finna minnihlutahópa kristinna manna, drúsa, shíta múslíma o.fl. Allir töluðu þeir arabisku og litu á sig sem araba. Um það bil 65% þeirra voru bændur er fengust við akuryrkju og bjuggu í um 500 þorpum og ræktuðu jöfnum höndum korn og ávexti. Helstu borgir Palestínumanna: Nablus, Jerúsalem, Nasaret, Akra, Jaffa, Jeríkó, Ramlah, Hebron og Haifa voru að langmestu leyti byggðar Palestínuaröbum sem héldu áfram búsetu sinni þar jafnvel eftir að herskáir innflytjendur zíonista fóru að þrengja kost þeirra. Einnig var á þessum tíma í landinu fjöldi menntamanna, og má raunar segja að fá eða engin ríki araba hafi á síðari tímum átt glæsilegri fulltrúum á sviði menningarmála á að skipa en Palestínuarabar. Rithöfundar þeirra og Ijóðskáld hafa getið sér frægð langt út fyrir hinn arabiska menningarheim. Ungir verkfræðingar og tæknimenn unnu einnig að því að koma á laggirnar nútímaiðnaði, og meðal alls þessa fólks ríkti sterk þjóðernisvitund. Raunar þurftu Palestínumenn á þessum árum að berjast á þrennum vígstöðvum til að vernda þjóðerni sitt: í fyrsta lagi gegn áhrifum hinna tyrknesku Ottómana sem farið höfðu með völd í landinu um langt skeið, en jafnframt gegn yfirgangi og landránsstefnu zíonista og gegn hinum bresku nýlenduherrum sem fóru með stjórn landsins á fyrri hluta aldarinnar og allt fram til 1948. Segja má að palestínskir arabar hafi látið hrífast með af þeirri miklu þjóðernisvakningu sem varð í lok 19. aldar í löndum araba, og það er þessi þjóðernisvakning sem verið hefur hornsteinn allrar baráttu þeirra í upplausn og glundroða síðustu áratuga.
Fjölmargir palestínskir rithöfundar og menntamenn hafa átt þátt í þessari vakningu, menn eins og Hakam Darwazeh, Khalil Sakakinei, Khalil Beidas og Najib Nassar; svo og stjórnmálasamtök á borð við Futtuwa og Najada, Æðstunefnd araba og Þjóðfrelsisfylkinguna (sem hélt því fram að Palestínuvandamálið yrði ekki leyst nema með gagnkvæmu samkomulagi gyðinga og araba). Allir þessir aðilar beindu kröftum þjóðarinnar að því að verjast yfirgangi jafnt Breta og innfluttra gyðinga er höfðu það að markmiði að flæma þessa fornu þjóð úr heimkynnum sínum og ná algjörum yfirráðum yfir landi hennar.
Unnið var að því með markvissum hætti að rífa niður hið palestínska þjóðfélag og tvístra því samfélagi er átti sér forna og sérstæða menningarhefð og sitt sérstaka mál eða mállýsku, palestínuarabísku. Samtímanum gleymist oft með hve skjótum hætti og hve skammt er um liðið síðan palestínska þjóðin var hrakin úr landi sínu og þjóðfélag hennar lagt í rúst.
Prófessor Janet Abu-Lughod hefur lýst þessum einstæða harmleik samtímans, niðurrifi hins palestínska samfélags, með þessum orðum: „Þegar frá er talin útrými Tasmaníumanna þekkjum við engin dæmi þess að heilli þjóð hafi verið rutt úr landi sínu og önnur tekið sér þar bólfestu á aðeins tveimur mannsöldrum. Engu að síður er þetta reynt í Palestínu.“
Eyðing hins palestínska þjóðfélags var ekki aðeins afleiðing einhverra ófyrirsjáanlegra atburða. Hún var og er enn helsti liður zíonista i því ætlunarverki sínu að breyta Palestínu í „Eretz Yisrael“, landið Ísrael. Ungur ísraelskur hermaður sem þátt tók í innrásinni i Líbanon sumarið 1982 komst svo að orði: „Helst vildi ég sjá alla Palestínumenn dauða því mér flökrar við þeim hvar sem þeir fara.“ Og vissulega var hann á sinn kaldranalega hátt að túlka langmiðaða stefnu zíonistahreyfingarinnar.
Birtist í Frjáls Palestína.