Um mannréttindamál

Lítt hefur þokast í réttindabaráttu Palestínumanna á því röska ári sem liðið er síðan eftirfarandi pistill var fluttur. Friðarferlið svokallaða tók stefnu inn í óvissuna þegar Líkúdbandalagið hófst til valda vorið 1996 í Ísrael og verður bilið milli Palestínumanna og Ísraelsmanna æ breiðara. Vonir um að ísraelskt réttarfar mildaðist samfara aukinni sjálfsstjórn Palestínumanna eru að engu orðnar. Samtímis bendir fátt til þess að oddvitar palestínsku heimastjórnarinnar verði við áskorunum mannréttindasamtaka um að virða grundvallarreglur og sjónarmið varðandi meðferð á pólitískum andstæðingum sínum. Því er frásögnin sem fer hér á eftir gott dæmi um ástandið sem ríkir enn þó svo að hún vísi til atburða sem áttu sér stað fyrir rúmu ári.

Í þessu erindi mínu ætla ég að einblína á tvo mjög afmarkaða þætti mannréttindaumræðunnar á palestínsku sjálfstjórnarsvæðunum og Ísrael. Annars vegar meðferð á palestínskum föngum í ísraelskum fangelsum og hins vegar palestínska öryggisdómstólinn, en málsmeðferð hans hefur sætt gagnrýni víða um heim. Ég fjalla um þessi máli út frá sjónarhóli þess sem er virkur félagi í mannréttindasamtökunum Amnesty International og hefur aðgang að upplýsingum samtakanna, en sem hefur jafnframt fengið tækifæri til þess að heimsækja svæðin sem um ræðir og ræða við íbúa þar.

Palestínumenn kusu sér sjálfsstjórnarráð og forseta (eða rais) þann 20. janúar 1995. Þar með voru öll höfuðatriði sjálfsstjórnarsamnings Ísraels og Palestínumanna komin til framkvæmda. Fáeinum dögum áður en Palestínumenn gengu til kosninga slepptu Ísraelar 812 palestínskum föngum og framseldu svo 230 til viðbótar til sjálfsstjórnarinnar á Gaza og Vesturbakkanum.

Öryggi Ísraelsríkis og stuðningur við PLO virðast hafa ráðið því að þeir fengu að fara, ef marka má ummæli dómsmálaráðherra Ísraels. Aðrir en þeir sem voru stuðningsmenn PLO eða þóttu ekki ógna öryggi Ísraelsríkis fengu ekki frelsi. Eðli brots vóg þungt í þessu samhengi svo og lengd fangavistar. Þeir sem höfðu afplánað meira en helming dóms voru frekar valdir og enginn í hópnum sem fékk frelsi hafði myrt Ísraela eða átt þátt í stórfelldum hryðjuverkum. Meðal hinna framseldu voru nokkrir sem höfðu myrt aðra Palestínumenn, en allir voru þeir félagar í PLO.

Ísraelar nota fanga sem tromp

Ísraelar skuldbundu sig í sjálfsstjórnarsamningunum til að framselja eða láta lausa fanga í þremur áföngum, strax við undirritun hans, stuttu fyrir kosningar og loks eftir því sem um yrði samið. Þá var sett á fót nefnd um frekara framsal og lausn á palestínskum föngum. Þeir sem eftir sitja eru því samkvæmt túlkun ísraelskra og palestínskra ráðamanna stórglæpamenn, eða félagar í Hamas eða Heilögu stríði íslams sem afplána dóm fyrir morð eða aðild að hryðjuverkum.

Enn er ekki Ijóst hvenær þessir menn verða framseldir en ekki er ólíklegt að Ísraelar vilji halda þeim sem einhvers konar trompi á hendi í viðræðum sínum um sjálfsstjórn Palestínumanna. Ekki kæmi t.d. á óvart þótt þessir menn yrðu tengdir á einhvern hátt við skilyrði sjálfstjórnarsamningsins um að nýkjörið ráð Palestínumanna afnemi allar greinar PLO sáttmálans er fjalla um tortímingu Ísraelsríkis.

En um það ætla ég ekki að fjalla heldur hvers konar aðferðir Ísraelar hafa verið sakaðir um að beita palestínska fanga og þá ekki síst þá sem grunaðir eru um aðild að hryðjuverkum. Meðferð Ísraela hefur verið harðlega gagnrýnd af mannréttindasamtökum, þar á meðal Amnesty International, og þá fyrst og fremst vegna þess að Ísraelsar eru með framferði sínu að virða eigin skuldbindingar að vettugi.

Fangar pyntaðir með leyfi hæstaréttar!

Ísraelar gerðust aðilar að sáttmálanum um pólitísk og borgaraleg réttindi og sáttmálanum gegn pyntingum árið 1991. Í sjöundu grein fyrrnefnda sáttmálans segir að enginn maður skuli sæta pyntingum, eða grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi refsingu. Eigi að síður hafa félagar í öryggisþjónustu Ísraels fyrirskipanir um að beita slíkum aðferðum. Öryggisþjónustan ber ábyrgð á yfirheyrslum yfir flestum þeirra er dæmdir eru af herdómstólum og hún heyrir beint undir forsætisráðherra Ísraels.

Fyrir níu árum veitti svokölluð Landau-nefnd, undir forystu Alex Landaus, forseta Hæstaréttar, öryggisþjónustunni leyfi til þess að beita „hæfilegum“ líkamlegum þrýstingi við yfirheyrslur á föngum. Þessi þrýstingur varð þó að vera innan þeirra marka að geta talist grimmileg né vanvirðandi. Leiðbeiningar Landau-nefndarinnar eru leyndarmál. Amnesty International og önnur mannréttindasamtök hafa þó gögn undir höndum sem benda til að fangar séu pyntaðir og sæti illri meðferð. Vitað er að höfuð fanga eru oft sveipuð köldum og skítugum klút sem gerir þeim erfitt um andardrátt og vekur innilokunarkennd. Þá eru dæmi um að menn séu hristir til með offorsi, barðir og látnir sitja eða standa í stellingum sem valda miklum sársauka.

Ný pyntingaraðferð – hristur til dauða

Fyrir tæpu ári komst mál Abd al-Samad Harizat á forsíður dagblaðanna í Ísrael. Íraelskir hermenn handtóku Harizat á heimili hans í aprílmánuði. Hann var grunaður um að vera félagi í Hamas og að hafa átt aðild að sprengjutilræðinu í Beit Lid í janúar. Fáeinum klukkustundum síðar var hann fluttur á spítala í dauðadái og þremur dögum síðar heyrði fjölskylda hans að hann væri látinn. Fregnin barst þeim í gegnum ísraelska útvarpið. Óháðir aðilar sem fylgdust með krufningu Harizats og lögregluskýrslur staðfesta að hann var við góða heilsu þegar hann var handtekinn. Eigi að síður lést hann af völdum heilablæðingar. Læknir sem var fenginn af hálfu fjölskyldu Harizats til að skoða líkið er fullviss um að hann hafi verið hristur mjög illilega í gæsluvarðhaldinu. Opinber rannsókn sem gerð var á dauða hans hefur verið birt að hluta og í fyrstu fékk lögfræðingur fjölskyldunnar einungis að sjá niðurstöðurnar.

Síðastliðið haust höfðuðu mannréttindasamtök í Ísrael mál fyrir hæstarétti landsins og fóru fram á að sett yrði lögbann á hristingar í fangelsum og að þeir sem urðu valdir að dauða Harizats, þar á meðal yfirmenn öryggisþjónustunnar, ráðherranefndin sem hefur umsjón með henni og ríkissaksóknari yrðu sótt til saka. Málið vakti vitaskuld mikla athygli í Ísrael og reyndust margir reiðubúnir til að mæla með slíkum hristingum, jafnvel þingmenn og ráðherrar, þó svo að þær gangi þvert á skuldbindingar Ísraelsríkis samkvæmt alþjóða mannréttindasáttmálum.

Barsmíðar, hristingar, svefnsvipting og einangrun

Landau nefndin réttlæti álit sitt með því að vísa til öryggis ríkisins. Einungis stórhættulega fanga átti að beita hæfilegum þrýstingi. Hins vegar hefur hvergi komið fram hvað felist í orðinu „stórhættulegur“. Nefnd Sameinuðu þjóðanna gegn pyntingum hefur harðlega gagnrýnt Ísraela en haft lítið upp úr krafsinu. Það er á hendi ráðherra að endurskoða leiðbeiningar Landaus, en í nefndinni sitja, auk forsætisráðherra, utanríkis- og dómsmálaráðherrar auk umhverfismálaráðherra. Sagt er að þessi nefnd hafi skipað að auka þrýstinginn á föngum eftir sprengjutilræðin í Tel Avív og Beit Lid.

Amnesty International hefur ítrekað farið þess á leit við yfirvöld í Ísrael að fá að vita hvers kyns þessi þrýstingur sé, sem Landau nefndin telur hæfilegan og réttlætanlegan gegn föngum. Í mars á síðastliðnu ári barst samtökunum yfirlýsing frá Tamar Gaulan, skrifstofustjóra í ísraelska dómsmálaráðuneytinu þar sem segir: Leiðbeiningarnar banna að menn séu sveltir eða þeim meinað um vatn, jafnframt fái þeir að fara á salerni og eru hvorki kældir né látnir ofhitna. Það er athyglisvert að barsmíðar, hristingar, svefnsvipting og einangrun eru ekki nefnd á nafn á bannlista ísraelskra yfirvalda.

Palestínskur dómstóll undir smásjá

Amnesty International og önnur mannréttindasamtök hafa ekki síður áhyggjur af þróun mála á sjálfstjórnarsvæðum Palestínumanna. Sérstaklega á þetta við um öryggisdómstólinn á Gaza og meðferð mála fyrir honum.

Öryggisdómstóllinn var settur á fót 7. febrúar 1995. Dómarar og annað starfsfólk er allt félagar í PLO. Starfsaðferðir dómstólsins hafa aldrei verið kynntar opinberlega. Fyrsta málið var rekið fyrir dómstólnum 10. apríl. Þá var Samir Alial, stuðningsmaður Heilags stríðs, dæmdur til fimmtán ára fangelsis fyrir að þjálfa hryðjuverkamenn. Omarh Shallah, einn af leiðtogum Heiiags stríðs, var dæmdur í 25 ára fangelsi fyrir að hvetja til sjálfsmorðsárása. Réttarhöldin fóru fram að næturlagi og lauk eftir fáeinar klukkustundir og verjendur voru skipaðir af dómstólnum.

Alger leynd yfir réttarhöldum

Mannréttindasamtök reyndu frá upphafi að fá upplýsingar um starfsaðferðir dómstólsins. Í febrúar 1995 bað Khalil al-Qidra yfirsaksóknari á Gaza um slíka lýsingu en fékk ekki svör. En eins og lýsingin á réttarhöldunum yfir Shallah og Alial-Jedi gefur til kynna voru þau kolólögleg samkvæmt öllum alþjóðlegum stöðlum. Vorið 1995 voru þrjátíu fangar dregnir fyrir rétt og dæmdir. Flestir fengu 2-3 mánaða fangelsisvist. Þeir sem rætt hafa við þessa menn eftir afplánun þeirra eru á einu máli um að aðferðir Öryggisdómstólsins uppfylli ekki skilyrði um málsmeðferð. Í fyrsta lagi eru réttarhöld hvorki hlutlaus né réttlát, sakborningum eru ekki gefnar fullnægjandi upplýsingar um málsmeðferðina, og þeir hafa ekki fengið að velja sér sjálfir lögfræðinga jafnvel þótt sumir þeirra hafi haft lögfræðinga fyrir handtöku.

Öll réttarhöld Öryggisdómstólsins voru haldin fyrir luktum dyrum og flest að nóttu til. Réttarhöldum hefur ávallt lokið sömu nótt og þau hófust og stundum standa þau aðeins í fáeinar mínútur. Svör fulltrúa palestínsku sjálfsstjórnarinnar við þessari spurningu eru að mannskapur sé ekki fyrir hendi sem geti tekið að sér að sinna verkefninu að degi til. Alger leynd hvílir yfir þessum réttarhöldum. Hvorki almenningur né fjölskyldur sakborninganna hafa fengið að fylgjast með þeim. Flestum föngum var komið algerlega að óvörum.

Sem dæmi má nefna Aziz al-Shami, 25 ára gamlan verkamann, sem var sakaður um að hafa hvatt unglinga til þess að fremja sjálfsmorðsárásir. Fjórtánda apríl kom fjölskylda hans í heimsókn í fangelsið og hélt þá að veita ætti Aziz frelsi innan fáeinna daga. Reyndin var önnur því fáeinum klukkustundum síðar var hann dæmdur í fimmtán ára fangelsi.

Fá ekki að velja sér lögfræðinga

Sakborningar sem koma fyrir öryggisdómstólinn fá ekki að velja sér lögfræðinga heldur velur palestínska sjálfsstjórnin þá. Sumir fanganna hafa ráðið lögfræðing af einhverjum ástæðum, en þessir menn fá ekkert um réttarhaldið að vita eða taka þátt í undirbúningi þess.

Nokkrir fyrrverandi sakborningar fullyrða að verjandi þeirra hafi ekkert gert til þess að fræðast um málsatvik og að þeir hafi í raun aldrei vitað fyrir hvað þeir voru kærðir. Einnig eru til skráðir vitnisburðir sakborninga um að lögfræðingar hafi setið hljóðir meðan á réttarhöldunum stóð. Vitað er að hópur lögfræðinga tilheyrir öryggissveitum Arafats og eru ekki í lögmannasamtökum Gaza. Málum sem koma fyrir Öryggisdómstólinn er ekki hægt að áfrýja. Áfrýjun er hins vegar fyrir hendi í glæpamálum. Tveir fyrrverandi sakborningar sem komið hafa fyrir Öryggisdómstólinn segjast hafa verið barðir og pyntaðir í gæsluvarðhaldi.

Öryggisdómstóllinn heyrir undir Arafat

Frá því að sjálfsstjórn komst á hafa öryggissveitir Arafats farið óblíðum höndum um andstæðinga hans. Strax á árinu 1994 hófust handtökur á félögum í Hamas og Heilögu stríði en þeim fjölgaði jafnt og þétt fram á mitt síðasta ár. Hápunktarnir voru eftir sprengjutilræðin í Tel Aviv og ránið á ísraelska hermanninum Naxon Waxman og eftir sprenginguna í Beit Lid. Nýr hápunktur var í ágúst eftir sprengjutilræði í Jerúsalem og skömmu fyrir undirritun sjálfsstjórnarsamningsins.

Lagalegt umboð fyrir öryggisdómstólnum er sótt til stjórnarskrá Gaza frá 1962 þar sem stofnun herdómstóls er heimiluð til verndar öryggis ríkisins og skal herdómstóllinn heyra beint undir hæstráðanda á Gaza sem nú er Jasser Arafat. Eftir að dómstóllinn tók til starfa hefur orðið greinileg breyting á fangelsunum. Áður voru menn settir í fangelsi og sluppu oft eftir yfirheyrslu en nú er vistin lengri án dóms og laga og lengist auðvitað enn séu menn fundir sekir.

Ráðstefna um mannréttindi bönnuð

Palestínsk mannréttindasamtök hafa gagnrýnt málsmeðferð öryggisdómstólsins harðlega og látið í Ijós ótta um að réttarfar á sjálfsstjórnarsvæðunum kunni að litast af honum. Fateh Azzam framkvæmdastjóri al-Haq samtakanna á Vesturbakkanum lét í Ijós áhyggjur af þessu í viðtali sem ég átti við hann í fyrra. Al-Haq samtökin eru aðilar að alþjóðlegu lögmannasamtökunum og rannsaka ástand mannréttindamála á Vesturbakkanum og á Gaza. Oftast beina þau spjótunum að framferði Ísraels en því miður, sagði Azzam, verður það æ algengara, að við fáum upp á borð hjá okkur mál er tengjast Palestínumönnum. Hann kallar Öryggisdómstólinn hneisu og skoraði á Sjálfsstjórnina að breyta vinnubrögðum sínum.

Al-Haq samtökin eru staðsett í Ramallah en þau eiga systursamtök á Gaza. Raji Sourani var framkvæmdastjóri þessara samtaka þegar Öryggisdómstóllinn var settur á fót. Hann lét í Ijós samskonar áhyggjur og Azzam en var handtekinn og yfirheyrður af öryggissveitum. Honum var sleppt, en ráðstefna sem hann stóð fyrir um mannréttindi og átti að halda í mars var bönnuð. Hanan Ashrawi, forstöðumaður óháðu palestínsku mannréttindanefndarinnar, fordæmdi handtöku Azzams í viðtali sem ég átti við hana og tók undir sjónarmið hans um Öryggisdómstólinn. Að hennar mati var það fyrst og fremst fáránlegt að palestínska sjálfsstjórnin varpaði lágmarksstöðlum um mannréttindi fyrir róða í því skyni að vernda öryggi Ísraelsríkis.

Ísraelar fagna aðferðum dómstólsins

Ísraelar hafa hvatt Palestínumenn til að skera upp herör gegn hryðjuverkamönnum. Og það er ekkert sem réttlætir að menn sprengi strætisvagna í loft upp eða svipti óbreytta borgara lífi með öðrum hætti, hver svo sem málstaðurinn er. Hins vegar er það áhyggjuefni þegar fulltrúar þjóðríkja sem vilja láta telja sig í hópi þróaðra lýðræðisríkja fagna aðferðunum sem Öryggisdómstóllinn beitir. Ekki bætir úr skák þegar varaforseti þess ríkis sem hvað mest áhrif hefur á friðarviðræður Palestínumanna og Ísraela tekur í sama streng. Í heimsókn sinni til Jeríkó síðastliðið vor hvatti Al Gore, varaforseti Bandaríkjanna, til þess að berjast gegn hryðjuverkastarfsemi og nefndi sérstaklega dómstóla sem gætu sérhæft sig á þessu sviði.

Birtist í Frjáls Palestína.

Scroll to Top