Árið 2012 sendi rabbíinn Abraham Cooper, aðstoðarforstjóri hjá Simon Wiesenthal-stofnuninni, bréf til Páls Magnússonar, þáverandi útvarpsstjóra Ríkisútvarpsins. Cooper krafðist þess að RÚV hætti tafarlaust að flytja Passíusálma séra Hallgríms Péturssonar þar sem í verkinu væru yfir 50 neikvæðar tilvísanir í gyðinga sem væru í raun opinberun á stækri gyðingaandúð. Cooper skrifaði ennfremur „að sú staðreynd að slíkar and-gyðinglegar tilvísanir séu lesnar upp af m.a. virtustu þegnum á öldum ljósvakans leiðir aðeins til að styrkja haturshugmyndir um gyðinga og eitra huga nýrra kynslóða.“ Meðal virtustu þegna landsins sem breiddu út gyðingaandúð að sögn Abrahams Cooper var Vigdís Finnbogadóttir. Í sálmum séra Hallgríms, sem hann orti á árunum 1656–1659, er krossfesting Jesú eignuð gyðingum (júðum) eins og fram kemur í 33. sálmi:
Nakinn Jesúm á jörðu/Júðar krossfestu þar/með heiftar sinni hörðu./ Hendur og fæturnar/ teygt allt og togað var;/gekk svo járngaddur nístur/gegnum lófa og ristur, /skinn og bein sundur skar.
Texti séra Hallgríms inniheldur fleiri setningar um illsku júða/gyðinga: „Guðs syni Júðar guldu í laun grimmd, hatur og fangelsi-Gyðingar vildu veita rýrð-Gyðingar höfðu af hatri fyrst – harðráðir Júðar-illgjarnir Júðar-vondir Gyðingar-rangfærðu Júðar“.
Hallgrímur notar orðin gyðingur og júði jöfnum höndum og ræður rímið eða hrynjandinn því oft hvort heitið hann notar.
Einar Sigurbjörnsson guðfræðiprófessor við Háskóla Íslands skrifaði grein í Ritröð Guðfræðistofnunar nr. 34 2012 í tilefni af kröfu Abrahams Cooper um bann á flutningi Passíusálmanna: „Vissulega er víða talað neikvætt um Gyðinga í Passíusálmunum og margt í þeirri neikvæðni endurómar tal úr samtíð Hallgríms og fjarlægri fortíð. Á tímum gyðingahaturs var vissulega hægt að taka slík ummæli og beina þeim gegn Gyðingum eða nota þau sem fóður í hatursherferð gegn þeim. En er Hallgrímur Pétursson sekur um gyðingahatur?“

Einar svarar spurningunni neitandi því að „í Passíusálmunum notar Hallgrímur hugtakið Gyðingar sem samheiti á andstæðingum Jesú og þeim sem framseldu hann til krossfestingar. Þessi afstaða er trúarlegs eðlis.“ Í Skírni 2019 svarar Mörður Árnason íslenskufræðingur, sömu spurningu játandi: „Já. Er hægt að svara öðruvísi?“ og telur „nokkuð torsótt að halda því fram að þar gæti ekki gyðingaandúðar.“
Einar Sigurbjörnsson útskýrir að í nýjustu þýðingum Bíblíunnar þýði menn orðið gyðingur með ólíkum hætti og þar sem gyðingum er kennt um krossfestingu Jesú er nú skrifað „andstæðingar Jesú“. Hér kemur fram vilji kirkjunnar manna til að bæta fyrir fyrri syndir vitandi að Abraham Cooper og hans menn vaka yfir hverju skrefi þeirra. Ríkisútvarpið ansaði ekki kröfum Coopers og er frumútgáfa Passíusálmanna enn lesin árlega í útvarpi og kirkjum á föstunni, af „virtustu þegnum landsins“.
En herra Cooper getur þó glaðst yfir einum litlum sigri. Árið 2019 voru Passíusálmarnir þýddir á ensku – og orðið gyðingur (Jew) er ekki að finna í nýju þýðingunni í texta sem tengist illum verknaði. Í staðinn er vísað til gyðinga sem „þeir“ og stundum taka rómverskir hermenn við hlutverki illvirkjanna sem gyðingar léku í frumtextanum. Í 6. sálmi er það Júdas sjálfur sem er sakfelldur í stað júðanna í sálmum séra Hallgríms. Í 6. sálmi, 11. versi er frumtextinn: „Júðar þig, Jesú, strengdu“. En í nýju þýðingunni er það: “The soldiers, Jesus, bound you,” Eina beina tilvísunin til gyðinga í þýðingunni 2019 er í sálmi 39. Þar „hrópa“ (Shout) gyðingar einungis.
Það er auðvitað rangt, samkvæmt ritningunum, eins og Hallgrímur skrifar í sálmi 33 að gyðingar hafi krossfest Krist. Einar Sigurbjörnsson bendir á að: „Guðspjöllin segja hvergi að Gyðingar hafi krossfest Jesú. Sá sem kvað upp dóminn var Pílatus og það voru rómverskir hermenn sem framkvæmdu hann.“
Breytt hlutverk gyðinga og rómverskra hermanna í þýðingunni 2019 er leiðrétting á sálmi Hallgríms – og liður í yfirbótinni.
Eins og fyrr segir þá notar RÚV frumútgáfu Passíusálmanna en þýðendur Biblíunnar á íslensku og þýðandi Passíusálmanna á ensku leitast við að draga úr „gyðingaandúðinni“.
Þá erum við komin að áhugaverðum þætti í þessu máli.
Hallgrímur var lútherskur prestur, fæddur árið 1614. Martin Lúther boðaði gyðingaandúð af miklum móð, hann barðist gegn þeim á grundvelli trúar og áleit gyðingdóminn vera hættulega villutrú. Lúther leit á gyðinga sem trúflokk en ekki kynþátt líkt og síonistar og nasistar skilgreindu gyðinga. Hlutur gyðinga í sálmum Hallgríms er í samræmi við afstöðu kirkjunnar á þeim tíma, þeir voru villutrúarmenn og á tíma Lúthers guldu slíkir gjarnan „syndir“ sínar með lífi sínu.
Lúther lét ekki nægja að fordæma gyðinga, hann lagði fram sjö tillögur um það hvernig ætti að ráðast gegn þeim. Lúther lagði til að brenna skyldi samkunduhús og skóla gyðinga, jafna heimili þeirra við jörðu, banna þeim að ferðast á þjóðvegum og ræna þá öllum eignum og verðmætum, peningum, silfri og gulli. Síðasta tillaga Lúthers um meðferð á gyðingum var að setja unga og hrausta gyðinga, jafnt karlar sem konur, í nauðungarvinnu. Í stuttu máli; gera þá réttlausa og reka þá síðan úr landi.
Í bók sinni Mein Kampf dáist Hitler að Lúther og taldi hann meðal þýskra mikilmenna. Meðhöndlun nasista á gyðingum í Þýskalandi og hernumdu löndunum var mjög í sama anda og Lúther hafði lýst.
Gagnrýni síonistans Abraham Cooper á Passíusálmum séra Hallgríms er réttmæt þótt hún sé fremur seint á ferðinni. Passíusálmarnir lýsa afstöðu frum lútherskunnar til gyðinga og breytingar í seinni tíma útgáfum sýna að kirkjunnarmenn gangast við þessari gyðingaandúð fyrri tíma og leitast við að rétta kúrsinn.
En Abraham Cooper ætti að líta sér nær. Herferð síonista gegn Palestínumönnum fylgir í stórum dráttum forskrift frá miðöldum. Palestínumenn eru rændir eigum sínum, hús þeirra og moskur eru jöfnuð við jörðu; Þeir eru réttlausir og flæmdir úr landi.
Birtist fyrst í Frjáls Palestína.