Tveggja ríkja blekking Þorgerðar Katrínar

Á meðan Ísrael og Bandaríkin svelta íbúa Gaza til dauða og salla þá niður í vandlega útbúnum matargildrum, fyrir allra augum, tala dyggustu stuðningsaðilar Ísraels nú um að viðurkenna loksins sjálfstæði Palestínu.

Craig Mokhiber, mannréttindalögmaður og fyrrum sérfræðingur hjá Sameinuðu þjóðunum, gagnrýnir yfirlýsingarnar og segir þær fyrst og fremst snúast um það að forða síonismanum frá falli. Breski þingmaðurinn Zarah Sultana kallar yfirlýsingu þarlendra stjórnvalda „PR-stunt“ sem geri Ísraelum kleift að halda þjóðarmorðinu áfram, og að utanríkisráðherrann ætti að svara til saka fyrir Alþjóða glæpadómstólnum í Haag.

Utanríkisráðherrann sá, David Lammy, tilkynnti þetta á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í New York í vikunni, ráðstefnu sem fjallaði um hina svokölluðu tveggja ríkja lausn. Þar var líka utanríkisráðherrann okkar, sem flutti fyrirsjáanlega ræðu þar sem hún gagnrýndi hernað Ísraels á Gaza, fordæmdi Hamas, talaði fyrir sjálfsákvörðunarrétti bæði palestínsku þjóðarinnar og þeirrar ísraelsku og að tveggja ríkja lausnin væri eina sjálfbæra leiðin að friði til framtíðar.

En hvað eiga Þorgerður og félagar við þegar þau tala um tveggja ríkja lausn?

Þessi hugmynd er eitthvað sem leiðtogar Vesturveldanna draga fram þegar þeir vilja láta líta út fyrir að nú eigi loksins að taka í taumana; að nú ætli þeir að setjast niður og „koma á friði fyrir botni Miðjarðarhafs“ og svo framvegis. Setja í gang friðarviðræður og friðarferli — sem hafa í gegnum tíðina fyrst og fremst þjónað því hlutverki að veita Ísraelum skjól til að leggja undir sig sífellt stærri hluta af landsvæði palestínsku þjóðarinnar. Hin raunverulega tveggja ríkja lausn, sem byggir á alþjóðlega viðurkenndum landamærum Ísraels og Palestínu frá 1967, rann út í sandinn fyrir langa löngu.

Þegar Þorgerður Katrín talar fyrir tveggja ríkja lausn er hún í raun og veru að ganga erinda Ísraelsríkis.

Í síðasta þætti Electronic Intifada fór Ali Abunimah yfir sameiginlega ályktun nokkurra þjóða (þar á meðal Íslands) um þeirra nálgun á tveggja ríkja lausnina, og gagnrýndi hana harðlega. Hann sagði ályktunina and-palestínska og að hún snerist fyrst og fremst um að tryggja framtíð Ísraelsríkis og festa það í sessi. Textinn ýjar að einhverskonar afvopnuðu sjálfstjórnarsvæði Vesturbakkans og Gaza, undir stjórn PA, og klykkir út með ákalli um að þjóðir sem hafi ekki gert það nú þegar komi á stjórnmálasambandi við Ísrael og taki þátt í viðræðum um normalíseringu Ísraelsríkis í heimshlutanum. Sem er augljóslega aðalmarkmið þessarar ráðstefnu, og markmið sem utanríkisráðherrann skrifar undir fyrir okkar hönd.

Í fréttatilkynningu Utanríkisráðuneytisins er haft eftir henni að ástandið á Gaza og Vesturbakkanum hafi aldrei verið verra, og að það sé á ábyrgð ríkja heimsins að standa saman og leggja sitt af mörkum til að enda hörmungarnar. „Þar munum við halda áfram að beita okkur af fullum þunga.“

En sannleikurinn er sá að sem utanríkisráðherra hefur hún aðallega beitt sér fyrir hagsmunum Bandaríkjanna og Ísraels.

Birtist fyrst á Facebook.

Höfundur

Scroll to Top