Fréttatilkynning frá Félaginu Ísland-Palestína.
Samkvæmt nýrri könnun Maskínu hefur mikill meirihluti landsmanna meiri samúð með málstað Palestínu en Ísraels og meirihluti styður bæði viðskiptaþvinganir og slit á stjómmálasambandi við Ísrael.
Um 73% Íslendinga hafa meiri samúð með málstað Palestínu en Ísraels samkvæmt nýrri könnun Maskínu en aðeins 10% hafa meiri samúð með Ísrael. Þá segjast 18% hafa jafn mikla samúð með báðum.
Alls 61% svarenda eru afdráttarlaust mjög eða frekar hlynnt því að Ísland beiti Ísrael viðskiptaþvingunum vegna nýlegs álits Alþjóðadómstóls Sameinuðu þjóðanna um að hernámið í Palestínu sé ólögmætt, 16% hlynnt með fyrirvara og 23% eru fremur eða mjög andvíg því að þeim verði beitt.
Alls 54% landsmanna eru afdráttarlaust mjög eða frekar hlynnt því að Íslandi slíti stjórnmálasambandi við Ísrael, 16% hlynnt með fyrirvara og 30% eru mjög eða fremur andvíg slitum á stjórnmálasambandi.
„Þessi könnun staðfestir þær sem áður hafa verið gerðar um að mikill meirihluti Íslendinga standi með málstað Palestínumanna. Afstaðan er skýr. Meirihluti Íslendinga vill viðskiptaþvinganir og að stjórnmálasambandi við Ísrael verði slitið.
Það er auðvitað fagnaðarefni að sjá að við höfum fólkið í landinu með okkur í liði. Viðbrögð íslenskra stjórnvalda hafa því miður ekki verið í samræmi við þennan vija almennings né viðurkenningu Íslands á Palestínu sem sjálfstæðu ríki.
Nú þegar Ísraelsríki hefur verið ákært fyrir þjóðarmorð og Alþjóðadómstólinn hefur gefið út álit þess efnis að hernámið sé ólöglegt og skuli aflétt tafarlaust, þá vonum við að stjórnvöld horfi öðruvísi á málið og taki skýra afstöðu gegn hernáminu og því þjóðarmorði sem á sér nú stað í Palestínu,”
segir Hjálmtýr Heiðdal formaður Félagsins Ísland-Palestína.
Könnunin sem var gerð fyrir Félagið Ísland-Palestína dagana 10.-16. september 2024 er tölfræðilega marktæk. Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu sem er hópur fólks sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Svarendur eru alls staðar að af landinu og eru 18 ára og eldri.
Helstu niðurstöður eru eftirfarandi:
Meirihluti allra aldurshópa, kynja og íbúa í öllum landshlutum og kjósenda allra stjórnmálaflokka hafa meiri samúð með málstað Palestínu en Ísraels.
Hefur þú meiri samúð með málstað Palestínu eða Ísraels eða jafn mikla með báðum?
Þátttakendur voru spurðir hvort þeir hefðu meiri samúð með málstað Palestínu eða Ísraels eða jafn mikla með báðum. 54,4% svarenda sögðust hafa mun meiri samúð með Palestínu en 18,1% nokkru meiri, samtals 72.5%. Þá höfðu 6,1% svarenda mun meiri samúð með Ísrael og 3,4% nokkru meiri, samtals 9.5%. Þá höfðu 17,9% svarenda jafn mikla samúð með báðum. Stuðningurinn við málstað Palestínu er meiri meðal fólks undir fimmtugu og meðal kvenna.
Ertu hlynnt(ur) eða andvíg(ur/t) því að Ísland beiti Ísrael viðskiptaþvingunum sem afleiðing af áliti Alþjóðadómstóls Sameinuðu Þjóðanna um ólögmæti hernámsins í Palestínu?
Einnig var spurt um afstöðu svarenda til þess að Ísland beiti Ísrael viðskiptaþvingunum. 41,3% eru mjög hlynnt því og 19,8% fremur hlynnt, samtals 61.1%. Þá eru 12,9% mjög andvíg viðskiptaþvingunum og 9,6% fremur andvíg, samtals 22.5%. Meirihluti bæði kvenna og karla eru hlynnt því að Ísland beiti Ísrael viðskiptaþvingunum.
Ertu hlynnt(ur) eða andvíg(ur/t) því að Ísland slíti stjórnmálasambandi við Ísrael?
Þá var spurt um afstöðu fólks til þess að Ísland slíti stjórnmálasambandi við Ísrael. 33,9% svarenda voru mjög hlynnt því og 19,7% fremur hlynnt, samtals 53,6% svarenda. 19,3% voru mjög andvíg og 11,1% fremur andvíg, samtals 30,4% svarenda. Meirihluti kvenna styður slit á stjórnmálasambandi (67,3%) en nánast jafn mikill fjöldi karla er fylgjandi (42,2%) og andvígur (42,7%).
Þá eru 16.4% svarenda sem taka ekki afdráttarlausa afstöðu með eða á móti viðskiptaþvingunum og 16% svarenda sem taka ekki afdráttarlausa afstöðu með eða á móti slitum á stjórnmálasambandi sem má túlka sem stuðning með fyrirvara eða að uppfylltum ákveðnum skilyrðum skv. könnunarfyrirtækinu.
Félagið Ísland-Palestína.
