„Stöndum með gleðinni og stöndum með friði því öll börn í heiminum eiga að geta sungið Ég á líf.“


Þegar Nicole sat ein með gítarinn sinn árið 1982 og söng friðarlagið sitt Ein bisschen frieden fékk Evrópa Júróvisjóngæsahúðina góðu sem er nákvæmlega það sem keppnin á að snúast um. Við vorum öll saman í liði, við vorum að sprella, hlæja, tárast og halda með hvert öðru. Við vorum öll stoltir foreldrar þegar Gleðibankinn tók þátt og við urðum ástfangin þegar Johnny Logan söng Hold me now.

War 6261976
Barn á Gaza í húsarústum © Hosny Salah – Pixabay
Gaza 5998110
Hungursneyð hjá börnum á Gaza © Hosny Salah – Pixabay

Júróvisjón var keppni en hún var líka ást, vinátta og gengdarlaus gæsahúð. Stundum reyndar aulahrollur og tuð yfir frændhygli þjóða en þó alltaf í gleði og skilningi af því að við vorum öll saman í þessum krúttlega litríka glimmerbáti.

Það sem er í gangi í dag er ekki Júróvisjónkeppnin okkar. Snargeggjaðir stríðsherrar eru búnir að eitra partýið með öllum sínum lúmsku ráðum og það er alveg sama hvernig þeir breyta stigagjöf, símakosningu eða reglunum, þeir eru búnir að stela gleðinni.

Í dag verðum við að taka afstöðu með mennskunni. VIð verðum að sýna að okkur er ekki sama og við verðum að sýna að við leyfum ekki barnamorðingjum að brjóta alþjóðalög og klæða sig svo bara upp í glimmergalla, brosa fallega og hafa okkur öll að fíflum.

Við verðum að standa saman og við verðum að vera í liðinu sem segir stopp. Sýnum heiminum að við erum ekki undirgefnar lúffur sem láta eins og allt sé í lagi. Sýnum heiminum að við erum ekki hræsnarar sem láta banna sér að veifa fánum hinna kúguðu á meðan morðingjarnir brosa framan í okkur og senda okkur fingurkossa.

Höldum okkar eigið partý með snakki og ídýfu þar sem við getum með góðri samvisku horft í augu barnanna okkar og hrópað húrra þegar Ísland stígur á svið. Höldum okkar eigið partý þar sem við getum sprellað, hlegið, tárast og misst okkur í gæsahúðinni góðu sem er búið að stela af okkur.

Höldum okkar eigið partý án stríðshauka, hræsnara og svindlara.

Höldum okkar eigið partý þar sem við getum sungið um ást og frið og staðið með því sem við segjum.

Stöndum með lífinu

Stöndum með gleðinni og stöndum með friði því öll börn í heiminum eiga að geta sungið Ég á líf.


Birtist á Facebook síðu Félagsins Ísland-Palestína.

Scroll to Top