Hópur stjórnarmanna í Eflingu skrifar 5. september 2025.
Stjórn Eflingar stéttarfélags lýsir yfir eindregnum stuðningi við palestínsku þjóðina í þeim skelfilegu hörmungum sem að á henni dynja, og leggur sérstaka áherslu á samstöðu okkar við verkafólk í Palestínu sem þola þarf viðbjóðslega glæpi ólöglegs hernáms á hverjum degi. Við fordæmum harðlega þjóðarmorð Ísraela á Gaza og krefjumst tafarlausra aðgerða af hálfu íslenskra stjórnvalda og alþjóðasamfélagsins.
Árásir ísraelska hersins á almenna borgara, börn, konur og menn, sem og sprengingar á spítölum, skólum og flóttamannabúðum, eru glæpir gegn mannkyni. Stjórn Eflingar lýsir yfir viðurstyggð á kerfisbundnum morðum Ísraela á heilbrigðisstarfsfólki og fréttamönnum á Gaza. Aftökurnar vekja hrylling allra sem fylgjast með fréttum af svæðinu og sýna með skýrum hætti einbeittan vilja morðingjanna til að vinna óafturkræfan skaða á palestínsku samfélagi. Þessi grimmdarverk eru brot á alþjóðalögum og samþykktum Sameinuðu þjóðanna. Alþjóðadómstóllinn hefur lagt framgöngu Ísraela að jöfnu við þjóðarmorð og úrskurðað hersetu á palestínsku landi ólöglega.
Efling krefst þess að íslensk stjórnvöld þrýsti af fullu afli á að glæpir Ísraela í Palestínu verði stöðvaðir án tafar. Binda verður enda á hernám Ísraela og tryggja rétt flóttafólks til að snúa aftur til heimkynna sinna.
Við hvetjum félagsfólk Eflingar og allan almenning til að mæta á samstöðufundinn Þjóð gegn þjóðarmorði sem haldinn verður laugardaginn 6. september klukkan 14:00. Fundurinn er haldinn í Reykjavík, í Stykkishólmi, á Ísafirði, Akureyri, Húsavík og Egilsstöðum og er skipulagður af samráðshópnum Samstaða með Palestínu, sem Efling tekur virkan þátt í.
Saman getum við sent skýr skilaboð til Alþingis, ríkisstjórnar Íslands og heimsins alls: Þjóðarmorð verður ekki liðið. Réttlæti og friður verða að ráða för.
- Alexa Tracia Patrizi
- Guðbjörg María Jóepsdóttur
- Guðmunda Valdís Helgadóttir
- Hjörtur Birgir Jóhönnuson
- Ian Phillip McDonald
- Innocentia Fiati
- Karla Esperanza Barralaga Ocon
- Michael Bragi Whalley
- Olga Leonsdóttir
- Rögnvaldur Ómar Reynisson
- Sigurjón Ármann Björnsson
- Sólveig Anna Jónsdóttir
- Sæþór Benjamín Randalsson
- Þórir Jóhannesson
Höfundar eru stjórnarmenn í Eflingu stéttarfélagi.
Birtist fyrst í Vísi.