Sovéskir gyðingar: Fórnarlömb samsæris

Utanríkisráðherra Ísraels, David Levy bað Helmut Kohl kanslara Þýskalands, á fundi þeirra 14. mars sl., um að Þýskaland hætti að veita sovéskum gyðingum hæli. David Levy sagðist hafa frétt að sendiráð Þýskalands í Moskvu veitti á meðaltali 110 sovéskum gyðingum á dag leyfi til að fara til Þýskalands.

Að sögn ísraelska blaðsins Yediot Aharonot 15. mars, hafði kanslarinn lofað að beita sér fyrir afnámi þessara leyfa, með það fyrir augum að sovéskir gyðingar sem vilja flytja frá Sovétríkjunum hafi engan annan valkost en Ísrael.

Um 1000 læknar sem hafa flutt til Ísraels frá Sovétríkjunum hafa mótmælt atvinnuleysi á fundi sem þeir héldu í Tel Aviv 21. mars s.l. Fréttir hafa birst í ísraelskum blöðum um að gyðingakonur sem koma frá Sovétríkjunum til Ísraels neyðist til að stunda vændi til að afla sér tekna. Vændiskonum í Ísrael hefur fjölgað um 500 vegna innflutnings sovéskra gyðinga. Lágtekjufólk í Ísrael hefur orðið að rýma íbúðir sínar vegna hækkandi leiguverðs og býr nú sumt í tjöldum. Stórfelldur innflutningur sovéskra gyðinga hefur hækkað leiguverð íbúðarhúsnæðis úr öllu valdi. Þótt tiltölulega fáir sovéskir gyðingar hafi sest að á herteknu svæðunum, hafa þeir valdið því að aðrir Ísraelsmenn setjast þar að, enda bjóða yfirvöld þeim sem vilja setjast að á herteknu svæðunum sérstök fríðindi. Í undirbúningi er stórfelld uppbygging gyðingabyggða á herteknu svæðunum – sem er skýlaust brot á alþjóða lögum og samþykktum Sameinuðu þjóðanna. Markmið Ísraelsstjórnar er að undirbúa með þessum hætti síðari innlimun svæðanna. Palestínskir íbúar í Ísrael missa nú vinnu vegna innflutnings sovéskra gyðinga. Bæði opinber og einkafyrirtæki telja rétt að taka sovéska gyðinga fram yfir innlenda íbúa sem ekki játa gyðingatrú. Samtök Palestínumanna í Ísrael sem berjast fyrir lýðræði, Abna al-Balad („börn landsins“), hafa safnað um 4000 undirskriftum í Ísrael gegn innflutningi sovéskra gyðinga. Heilbrigðismálaráðherra Ísraels hefur varað þá við er skrifa undir með því að hann hyggist kanna hvort ríkið geti svipt þá borgararétti.

Í fréttablaði ísraelskra samtaka sem berjast fyrir innflutningi sovéskra gyðinga er sagt að flestir sovéskir gyðingar viti lítið sem ekkert um gyðingdóminn og hafi ekki heldur mikinn áhuga á honum. Þeir vita ekkert um Ísrael. Þess vegna telur blaðið mikilvægt að koma á beinu flugsambandi milli Sovétríkjanna og Ísrael: Þá er minni hætta á að sovéskir gyðingar freistist til þess að flytja til Vesturlanda. Allt á að gera til að koma í veg fyrir að þetta fólk blandist öðrum þjóðum.

Í ísraelskum blöðum hefur komið fram að talsverður fjöldi innflytjenda frá Sovétríkjunum séu ekki gyðingar, heldur annaðhvort makar gyðinga eða fólk sem hefur aflað sér skilríkja sem gyðingar til að komast frá Sovétríkjunum. Rabbínn Y. Peretz, sem fer með mál innflytjenda, sagði að þetta fólk ættu Ísraelar að senda til baka til að koma í veg fyrir mengun kynstofnsins. Í millitíðinni hefur komið fram að Ísrael hefur hert eftirlit á skrifstofum sínum í Sovétríkjunum til að koma í veg fyrir að „falskir“ gyðingar komist í gegn. Umboðsmenn Ísraels kanna nú með ýmsum hætti fortíð hvers manns sem segist vera gyðingur. Starf þeirra í Sovétríkjunum fer fram með samþykki stjórnvalda, sem virðast líta með velþóknun á að hundruð þúsunda þegna þeirra yfirgefi landið.

Í frétt sem birtist í Morgunblaðinu 1. febr. 1990 er þetta mál rætt. Þar segir m.a.:

„Frelsissamtök Palestínu, PLO, hafa lagt til að Sovétmenn sjái til þess að ekki sé flogið með gyðinga beint frá Sovétríkjunum til Ísraels. Komið verði á fót bráðabirgðabúðum fyrir þá í Evrópu vestan Sovétríkjanna til þess að þeir eigi auðveldar með að setjast að annars staðar en í Ísrael…“

Palestínumenn hafa nú miklar áhyggjur af straumi gyðinga frá Sovétríkjunum til Ísraels. Búist er við 50.000-100.000 á þessu ári (1990) og allt að 750.000 á næstu fimm til sex árum. Þau ummæli Yitzhaks Shamirs, forsætisráðherra Ísraels, að Ísrael þurfi á hernumdu svæðunum að halda til að taka á móti öllu þessu fólki hafa valdið Palestínumönnum ugg …“

Í annarri frétt um efnið í Morgunblaðinu 31. jan. 1990 segir m.a.:

„Hingað til hafa verið fyrirsjáanlegar tvær leiðir að varanlegum friði sem Palestínumenn gætu fallist á. Í fyrsta lagi að þeir nytu fulls jafnréttis í Ísrael á við gyðinga. Sú leið hefur ekki fallið þeim Ísraelum í geð sem líta á ríki sitt sem gyðingaríki fyrst og fremst. Hin leiðin væri sú að íbúar hernumdu svæðanna fengju sjálfstæði í einhverri mynd og yfirráðarétt yfir landinu sem þeir byggja. Landnám sovéskra gyðinga á hernumdu svæðunum gengi í berhögg við slíkar hugmyndir um lausn á deilu Ísraela og Palestínumanna.“

Samantekt E.D.

Birtist í Frjáls Palestína.

Félagið Ísland-Palestína boðar til samstöðufundar "Hvílum Júróvisjón" n.k. miðvikudag 10. desember 2025, kl. 14:30 hjá RÚV í Efstaleiti 1, sjá nánar.

Scroll to Top