Þann 15. nóvember árið 1988 lýsti þjóðþing Palestínu yfir stofnun sjálfstæðs ríkis. Í kjölfar þess viðurkenndi meirihluti aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna sjálfstæði Palestínu. Stofnun sjálfstæðs ríkis var mikilvægt atriði í diplómatískri sókn fyrir sjálfsákvörðunarrétti palestínsku þjóðarinnar. Enda þótt ekki væri um venjulegt ríki að ræða, heldur hernumið land, stór hluti þjóðarinnar landflótta, þúsundir manna í fangelsum og fangabúðum hernámsliðsins og stjórnmálaleg forysta þjóðarinnar með aðsetur í öðru landi, þá hafði þessi yfirlýsing mikla þýðingu. í henni fólst einnig formleg viðurkenning á tilvist ísraelsríkis í samræmi við ályktun Sameinuðu þjóðanna frá árinu 1947 um skiptingu Palestínu í tvo ríki, gyðinga og araba.

Það var ekki þrautalaust fyrir Palestínumenn að kyngja því að landránið, sem átt hafði sér stað aðeins 40 árum áður með ógn hryðjuverka, hervalds og auðs, væri nú staðreynd sem sætta yrði sig við. Og ekki nóg með það, heldur var í raun viðurkennt allt viðbótarhernám ísraela í stríðinu 1948, er þeir tóku stór landsvæði umfram það sem Sameinuðu þjóðirnar höfðu ætlað þeim.
Kýs Ísrael frið?
Sjálfstæðisyfirlýsingin kom þegar Intifada, uppreisnin gegn hernáminu, stóð sem hæst. Hún leiddi af sér friðarviðræður í Madrid, þar sem Sameinuðu þjóðirnar máttu, að kröfu ísraela, hvergi koma nærri. Einnig hinar leynilegu Oslóar-viðræður og yfirlýsinguna sem undirrituð var við Hvíta húsið í Washington 13. september 1993. Arafat og Rabin tókust í hendur og nú þóttust menn eygja að einnig ísraelar væru reiðubúnir að viðurkenna tilverurétt palestínsku þjóðarinnar. En Rabin var myrtur af eigin mönnum og ísralear kusu yfir sig forsætisráðherra sem augljóslega hafði engan áhuga á friði, hvað þá réttlátum friði. Netanyahu reyndi lítt að leyna hroka sínum og yfirgangur ísraela undir hans stjórn var þvílíkur að meira að segja Bandaríkjastjórn fékk sig á köflum fullsadda. Ekki þó nóg til að takmarka stuðninginn við ísraela og binda enda á framferði þeirra.
Enn einn hershöfðinginn er kominn til valda í ísrael, Ehud Barak. Tal hans er allt mun friðsamlegra, en ekki verður sagt að gerðirnar séu það, þegar litið er til grimmilegra loftárása á Líbanon. Undir nýju stjórninni er einnig haldið áfram að festa hernámið í sessi með landnemavirkjum og lagningu hraðbrauta án nokkurs tillits til palestínsku byggðanna. Alþjóðaréttur og samþykktir Sameinuðu þjóðanna eru brotnar daglega eins og áður og ekki staðið við gerða samninga.
Tíminn er runninn út
Nú er þess einungis krafist að ísraelar skili aftur landinu sem þeir hertóku í stríðinu 1967. Palestínumenn hafa ekki verið að fá nema brot af Vesturbakkanum og Gaza með bráðabirgðasamningum sem Bandaríkastjórn hefur komið að. Enn er ósamið um helstu ágreiningsmálin; Jerúsalemborg, landnemasvæðin og síðast en ekki síst rétt palestínskra flóttamanna til heimkomu.
Tíminn er runninn út sem Oslóarsamkomulagið gerði ráð fyrir að þetta bráðabirgðaástand stæði. Á þessu ári ætla Palestínumenn að stofnsetja ríki sitt á þeim landsvæðum sem náðst hafa undan hernáminu. Sameinuðu þjóðirnar munu fylgja eftir ályktunum sínum um sjálfsákvörðunarrétt palestínsku þjóðarinnar með því að fagna nýju og fullgildu aðildarríki á komandi hausti eða vetri.

Framganga Íslands á vettvangi Sameinuðu þjóðanna hefur verið í takt við þann yfirgnæfandi meirihluta aðildarríkja sem viðurkennir þjóðarréttindi Palestínumanna. Á Allsherjarþinginu eru yfirleitt ekki nema tvö mótatkvæði, Ísraels og Bandaríkjanna, þegar atkvæði eru greidd um málefni Palestínu.
Í íslenska utanríkisráðuneytinu hefur gætt nokkurrar tregðu við að framkvæma þá stefnu sem Alþingi mótaði með samhljóða ályktun sinni 18. maí 1989. Þar sagði: „Alþingi leggur áherslu á að viðurkenna beri sjálfsákvörðunarrétt palestínsku þjóðarinnar og tilverurétt ísraelsríkis. Einnig ber að viðurkenna rétt palestínskra flóttamanna til að snúa aftur til fyrri heimkynna sinna í samræmi við margítrekaðar ályktanir Sameinuðu þjóðanna. Alþingi telur að ísland eigi að hafa vinsamleg samskipti við Frelsissamtök Palestínu, PLO.“
Stjórnmálatengsl komin á
Ekki hafði verið komið á formlegu sambandi er Félagið Ísland-Palestína vakti athygli á því við Arafat, forseta Palestínu í ágúst 1998, að Ísland eitt Norðurlanda væri án palestínskrar sendinefndar. í kjölfar þess var Omar Sabri Kittmitto útnefndur sendiherra á Íslandi með aðsetur í Osló. Þetta var staðfest í bréfi frá palestínskum stjórnvöldum, dagsettu 28. janúar 1999. Í heilt ár var skipunarbréfinu ekki svarað, þrátt fyrir eftirrekstur af hálfu félagsins. Það var ekki fyrr en eftir að sjónvarpsstöðin Skjár 1 tók málið á dagskrá að hreyfing komst á. Fyrst þurftu þó áhorfendur að horfa upp á yfirlýsingar prótókollmeistara ráðuneytisins um að því bæri ekki nein skylda til að svara bréfi Palestínumanna, sem hafði þá legið ósvarað í nærfellt ár, enda væri Palestína ekki sjálfstætt ríki. Sem betur fer hefur þessi snuðra á þræði ráðuneytisins verið lagfærð og hefur Omar Kittmitto nú verið viðurkenndur af íslenskum stjórnvöldum sem yfirmaður Aðalsendinefndar Palestínu á Íslandi með aðsetur í Noregi.
Félagið Ísland-Palestína fagnar því að loks skuli hafa verið komið á formlegum tengslum milli landanna og væntir þess að því verði fylgt eftir með auknum samskiptum á sviði menningar og viðskipta.
Utanríkisráðherra er dugmikill stjórnmálamaður sem sýnt hefur burði til að taka á ólíkum málum. Gamlir fordómar, vanþekking eða einfaldlega of mikið vinnuálag hjá hans ágæta samstarfsfólki má ekki verða til þess, að Ísland sé staðið að því að draga fæturna og vera úr takt við þróunina í jafn mikilvægu alþjóðamáli og Palestínumálið er.
Palestínumenn munu þurfa á víðtækri samstöðu að halda á næstu misserum til að fá notið réttar síns sem sjálfstæð þjóð. Þeir eiga skilinn fullan stuðning, ekki síst frá íslendingum.
Birtist í Frjáls Palestína.