Sjálfboðastörf í Palestínu

Í áratugi hafa Palestínumenn notið alþjóðlegrar samstöðu og aðstoðar sjálfboðaliða við sérstakar aðstæður. Þeim sem búa við ófrelsi og ofbeldi hernáms er slíkt afar mikilvægt, bæði til að létta undir í óþolandi aðstæðum og þá er styrkur að vita að erlendir sjálfboðaliðar segja milliliðalaust frá þeim ómannúðlegu aðstæðum sem Palestínumenn búa við.

Íslendingar hafa verið öflugir í sjálfboðastörfum og hefur Félagið Ísland-Palestína stutt við bakið á mörgum þeirra með styrkjum fyrir fararkostnaði. Flestir sjálfboðaliðar hafa verið á vegum samtakanna IWPS / International Women‘s Peace Servive og ISM / International Solidarity Movement. Jafnframt hafa einstaklingar farið á eigin vegum og sinnt margvíslegum verkefnum bæði á Vesturbakkanum og Gaza.

IWPS og ISM

Faysa Souf sagar til ólífutré við bæinn Haris

IWPS og ISM eru systursamtök, bæði stofnuð af sjálfboðaliðum árið 2002 sem þá voru fjölmennir í Palestínu á tímum annarrar Intifada. Konur sem vildu starfa og búa sjálfstætt stofnuðu IWPS á meðan ISM vildi taka við fólki óháð kyni. Allar götur síðan hafa samtökin unnið náið saman, þjálfa til að mynda sína sjálfboðaliða sameiginlega og nýta sömu tengiliði.

Síðastliðinn áratug hefur samstöðustarfið verið hvað mest á tímum ólífuuppskerunnar frá byrjun október og fram í desember. Þá verða bændur fyrir margvíslegu ofbeldi af hendi ísraelska hersins og landránsfólksins sem reynir að koma í veg fyrir uppskeru bænda. Ef það tekst nokkur ár í röð getur landránsfólkið tekið yfir svæðið samkvæmt ísraelskum „lögum“ sem að sjálfsögðu eru hvergi viðurkennd utan Ísraels.

Fjáröflun í stað ferða í heimsfaraldri

Síðastliðin tvö haust hefur landa­mærum að Ísrael verið lokað vegna heimsfaraldurs, og breyttist ekkert nú haustið 2021 þó ísraelska þjóðin væri sú best bólusetta í heimi. Landamærareglur breytast stöðugt og hvöttu Palestínumenn sína tengiliði til að setja sig ekki í hættu með að reyna að komast inn í landið.

Sjálfboðastörfin hafa því breyst og hafa samtökin IWPS, ISM og fleiri safnað fé fyrir bændur á helstu átakasvæðunum. Bændur hafa keypt ólífutínsluvélar til að flýta uppskeru og þá hafa ungar konur og karlar verið þjálfuð í að aðstoða bændur og skrásetja það ofbeldi sem þau verða vitni að. Fá þau sem nemur 50 bandaríkjadölum á dag auk ferðakostnaðar. Við fyrrum sjálfboðaliðar höfum haldið utan um þessa fjáröflun og eru áhugasömum bent á að hafa samband við undirritaða vilji þeir taka þátt.

Ofbeldi landránsfólks

Árlega hefur Sam­hæfingarskrifstofa Sam­einuðu þjóðanna í mannúðarmálum (OC­HA) skrásett ofbeldi sem Palestínumenn og Ísraelsmenn verða fyr­ir af hendi hvors annars. Lesendur þessa fréttabréfs vita væntanlega hver stóra myndin er í þeim efnum.

Vopnaður landránsmaður kemur í veg fyrir að bændur komast á akurinn. Sjálfboðaliðinn hringir eftir aðstoð þeirra sameiginlegrar skrifstofu Ísraels og Palestínu sem gefa út leyf til ólífutínslu.
Ísraelski herinn að stugga okkur sjálfboðaliðum og bændum af akrinum, við bæinn As Sawiva.

Við ólífuuppskeruna er það þekkt að ísraelski herinn hamlar bændum að komast á akra sína og landránsfólkið beitir margvíslegum aðferðum svo sem að höggva tré, brenna tré, grýta bændur og aðstoðarfólks þess og tína sjálfir ólífurnar og taka í sína vörslu. Allt gert til að koma í veg fyrir uppskeru vegna fyrrgreindra laga. OCHA heldur skrá um þessi ofbeldisverk sem og annað og eru lesendur hvattir til að fylgjast með stöðunni hjá https://www.ochaopt.org/ Því miður virðist sem ofbeldið hafi vaxið talsvert síðastliðin haust, þegar ekki eru aðilar frá alþjóðasamfélaginu að fylgjast með á sama hátt og áður.

Sjálfboðaliðar á vegum IWPS og heimakona á leið á akurinn. Algegnt er að mun fleiri séu í bílunum en gert er ráð fyrir. Við konurnar frá Íslandi, Englandi og Svíþjóð fnnst voða gaman að brjóta umferðarreglurnar sem við höfum alist upp við.

Sjálfboðastörf í náinni framtíð

Þegar ferðalög gefast er víst að allt það fólk, sem hefur þraukað hersetuna í áratugi og nú útilokun frá alþjóðlegu samstöðustarfi, verður þyrst í félagsskap og stuðning. Haustið 2021 hafði FÍP samþykkt að veita styrk til fundar fyrir áhugasama einstaklinga um sjálfboðastörf í Palestínu. Um leið og færi gefst verður boðað til slíks fundar. Þangað til eru lesendur hvattir til að fylgjast með á samfélagsmiðlum.

Björk Vilhelmsdóttir

Scroll to Top