Samfélagspólitísk öfl að baki síonistastjórninni í Ísrael

Tveimur mánuðum eftir að ríkisstjórn Ísraels var kjörin er eðli hennar orðið skýrara og augljósara og virðist sem mögulegt sé að fá upplýstari sýn á samsetningu hennar, persónur og hugsanlega framtíðarstefnu og viðbrögð við henni.

Það væru ekki ýkjur að skilgreina Benjamin Netanyahu sem hógværasta einstaklinginn í þessari ríkisstjórn, sem segir margt og mikið um persónuleika og stefnu allra hinna.

Það eru þrjár aðalfylkingar í ríkis­stjórninni og ég er ekki að vísa hér til stjórnarflokkanna heldur til félagspólitískra (socio-political) fylkinga.

FP Samfelagspolistiks ofl Ilan Pappe nov

Strangtrúargyðingar snúast til síonisma

Í fyrstu fylkingunni eru strang­trúaðir (orthodox) gyðingar, rétt­trún­aðargyðingar bæði evrópskir og gyðingar upprunnir í löndum Araba. Það sem einkennir þá eru „siðaskiptin“ yfir til síonisma sem þeir hafa gengið í gegnum síðan 1948.

Frá því að vera jaðarsettir í stjórnmálum vegna samfélagsgerðar sem þeir aðhylltust eru þeir nú áhrifamiklir í nýja Ísrael. Frá því að vera hófsamir og fylgja lögmálum gyðinga sem heimila ekki fullveldi gyðinga í Landinu helga, líkja þeir nú eftir veraldlegum hægrisinnum í Ísrael: Þeir styðja landrán á Vesturbakkanum, umsátur um Gazaströndina, beita kyn­þátta­fordómum gegn Pal­estínumönnum hvar sem þeir eru, beita sér fyrir harðneskjulegri og árásargjarnari stefnu og reyna um leið að ná undir sig almannarýminu og gera gyðingdóminn ráðandi þar samkvæmt þeirra eigin hugmyndum um stranga útgáfu gyðingdómsins.

Eina undantekningin meðal strangtrúaðra gyðinga eru þeir sem fylgja samtökunum Neturei Karta, sem eru staðfastir and-síonistar og styðja Palestínumenn.

Trúaðir og þjóðernissinnaðir gyðingar

Í næstu fylkingu eru trúaðir og þjóðernissinnaðir gyðingar, sem búa flestir í landtökubyggðum á landi Palestínumanna á Vesturbakkanum og hafa nýlega stofnað „námsmiðstöðvar“ fyrir landnema í miðju bæja þar sem bæði arabar og gyðingar búa í Ísrael.

Þeir styðja bæði refsistefnu Ísraelshers og aðgerðir landtökumanna sem áreita Palestínumenn, uppræta ræktarlönd þeirra, skjóta á þá og svipta þá lífsafkomu sinni.

Markmið þeirra er að gefa bæði hernum og vopnuðum landtökumönnum á Vesturbakkanum frjálsari hendur til að kúga fólkið á hernumdu svæðunum í von um að þvinga fleiri Palestínumenn til að yfirgefa landið. Þessi hópur er líka uppistaðan í leyniþjónustu Ísraels og fjöldi háttsettra yfirmanna í hernum eru úr þeirra röðum.

Þessar tvær fylkingar sem hafa verið nefndar eiga það sameiginlegt að vilja herða aðskilnaðarstefnuna (apartheid) innan Ísraels gegn Palestínumönnunum sem hafa búið í Ísra­el allt frá 1948 og hefja um leið krossferð gegn samfélagi samkynhneigðra og krefjast strangari jaðarsetningar kvenna í almenningsrýminu.

Fylkingarnar tvær fylgja báðar messíanskri (hreintrúarlegri) afstöðu og telja sig nú vera í stakk búna til að hrinda henni í framkvæmd.

Í miðju þessarar messíanisku afstöðu er yfirtaka gyðingdómsins á helgum stöðum sem eru „enn“ íslamskir eða kristnir. Sá staður sem þeir ásælast mest núna er Haram al-Sharif (Musterishæðin).

Fyrsta skrefið var ögrandi heimsókn Itamar Ben Gvir, þjóðar­öryggisráðherra, á Musterishæðina. Næsta skref verður stigið á páskum með því að reyna að ráðast að fullu inn í Haram al-Sharif, þyljandi gyðingabænir og í fylgd ráðherra. Svipaðar aðgerðir verða í Nablus, Hebron og Betlehem. Erfitt er að spá fyrir um hversu langt þeir ganga.

Jaðarsetning veraldlegra gyðinga í Likudflokknum

Fylking trúaðra og þjóðernissinnaðra gyðinga á einnig fulltrúa í Likud­flokki Netanyahus, stærsta ríkisstjórnarflokknum. En flestir félagar í Likud tilheyra þriðju samfélagsfylkingunni, veraldlegu gyðingunum sem einnig aðhyllast hefðbundna gyðinglega siði.

Þeir reyna að aðgreina sig með því að halda því fram að frjálshyggja í efnahagsmálum og stjórnmálum sé enn mikilvæg stoð í stefnu Likud. Netanyahu var áður einn þeirra en virðist nú ætla að yfirgefa hópinn þegar kemur að því að skipta herfanginu, og jaðarsetja þá í ríkisstjórninni. Hann þarf meira á hinum tveimur fylkingunum að halda en sínum eigin flokki, til þess að komast sjálfur hjá réttarhöldum og halda völdum.

Síonistaverkefnið

Helstu fulltrúar allra þessara fylkinga í nýju ríkisstjórninni komu með fyrirfram undirbúinar lagatillögur og stefnu: Öll vilja þau, án nokkurrar undantekninga, leyfa öfga-hægristjórninni að afnema það sem eftir hefur staðið af skrípaleiknum sem kallaður er ísraelska lýðræðið.

Fyrsta aðgerðin er hafin, að gelda dómskerfið á þann hátt að það geti ekki, ef það vildi, varið réttindi minnihlutahópa almennt eða rétt Palest­ínumanna sérstaklega.

Satt best að segja voru allar fyrri ríkisstjórnir Ísraels sammála um þessa almennu lítilsvirðingu á bæði borgaralegum réttindum og mannréttindum Palestínumanna. Þetta er aðeins áfangi í því að gera hana stjórnskipulegri, almennari og greinilegri, án þess að reynt sé að fela markmiðið að baki: Að yfirtaka sem mest af upprunalegri Palestínu með eins fáa Palestínumenn í landinu og mögulegt er.

Ef þetta verður að veruleika í framtíðinni mun það hins vegar færa Ísrael lengra í greipar ný-síonismans; þ.e. raunverulega uppfyllingu og endastöð síonismans: miskunnarlausa nýlendustefnu landtökubyggðanna, byggða á aðskilnaðarstefnu (apartheid), þjóðernis­hreinsunum, hernámi, landráni og þjóðarmorði.

Þessari stefnu hefur hingað til ekki verið andmælt að marki af hálfu vestrænna ríkja og er umborin af umheiminum, jafnvel þótt margir í hinu alþjóðlega borgaralega samfélagi fordæmi stefnuna og hafni henni. Enn sem komið er hefur öfgastefnan ekki sigrað, en það er eingöngu vegna stað­fastrar mótstöðu og þrautseigju Palestínumanna sem það hefur mistekist.

Endalok „tálsýnarinnar um Ísrael“

Þessi nýi veruleiki vekur margar spurningar sem menn verða að spyrja, jafnvel þótt við getum ekki svarað þeim á þessari stundu.

Munu arabískar og múslímskar ríkisstjórnir, sem eru nýbyrjaðar að taka þátt í að mynda „ónæmi“ gagnvart þessari blekkingu og vingast við Ísrael, gera sér ljóst að það er ekki of seint að breyta um stefnu?

Munu nýjar vinstri-ríkisstjórnir, eins og sú sem kosin var í Brasilíu, geta verið í fararbroddi viðhorfsbreytinga í efri lögum þjóðfélagsins og framfylgja með lýðræðislegum hætti kröfunni sem kemur að neðan, þ.e. frá al­menningi?

Munu samfélög gyðinga verða nægilega skekin svo þau vakna upp af draumnum um „tálsýnina Ísrael“ og átta sig á hættunni sem stafar af Ísrael nútímans, ekki aðeins gagnvart Palestínumönnum heldur gyðingum og gyðingdómi líka?

Það er ekki auðvelt að svara þessum spurningum. Við getum lagt áherslu á að enn á ný er þörf fyrir samstöðu Palestínumanna til að glæða baráttuna gegn þessari stjórn og hugmyndafræðinni sem hún stendur fyrir. Slík samstaða yrði eins og áttaviti fyrir öfluga, hnattræna andstöðu sem er þegar til staðar, þökk sé BDS hreyfingunni, og er tilbúin að halda áfram samstöðustarfinu og efla það enn frekar og víðar: að herja á stjórnvöld og samfélög og vekja athygli alls heimsins á málstað Palestínu.

Þessar þrjár fylkingar nýrrar ísraelskrar ríkisstjórnar hafa ekki alltaf átt auðvelt með að starfa saman, þannig að það er einnig möguleiki á skyndilegu pólitísku hruni, því að þegar allt kemur til alls erum við að tala um hóp vanhæfra stjórnmálamanna gagnvart því verkefni að reka jafn flókið hagkerfi og það ísraelska. Sennilega munu þeir ekki geta staðið af sér mikla verðbólgu, hækkun verðlags og vaxandi atvinnuleysi.

En jafnvel þó að þetta hrun verði að veruleika, er ekki til neinn fjórði þjóðfélagshópurinn sem væri valkostur til að stjórna Ísrael. Ný ríkisstjórn yrði því mynduð með annarri samsetningu sömu afla, með sama ásetning og sömu stefnu.

Við eigum að líta á þetta sem áskor­un um grundvallarbreytingu, ekki tímabundna áskorun, heldur búa okkur undir langa baráttu, sem byggist á enn meiri alþjóðlegri samstöðu og þétt­ari einingu Palestínumanna.

Þessi óheiðarlega ríkisstjórn og það sem hún stendur fyrir verður ekki til staðar að eilífu, við eigum að gera allt sem við getum til að stytta biðina eftir að henni verði skipt út með miklu betri valkosti, ekki bara fyrir Palestínumenn heldur einnig fyrir gyðinga og alla aðra sem búa í hinni sögulegu Palestínu.

Þýðandi: Hjálmtýr Heiðdal

Birtist í Frjáls Palestína.

  • Höfundur er prófessor í sagnfræði við háskólann í Exeter.

Félagið Ísland-Palestína boðar til samstöðufundar "Hvílum Júróvisjón" n.k. miðvikudag 10. desember 2025, kl. 14:30 hjá RÚV í Efstaleiti 1, sjá nánar.

Scroll to Top