Rasísk lög í Knesset

Í þingkosningunum 2009 komst öfgafyllsta samsteypustjórn í sögu Ísraels til valda. Afleiðingarnar létu ekki á sér standa: Nýkjörnu þingmennirnir – sér í lagi þeir sem koma úr Yisrael Beteinu, flokki Liebermans og þeir þjóðernissinnuðustu úr Likud – lögðu fram fjölda umdeildra lagafrumvarpa. Sum voru allt of öfgakennd til að þau yrðu samþykkt, til dæmis lögin sem áttu að þvinga arabíska borgara í landinu til að sverja Ísrael hollustu sem ríki gyðinga. En mörg frumvarpanna hlutu samþykki meirihluta þingsins, þar á meðal hin svokölluðu sniðgöngulög sem gera það refsivert að hvetja til sniðgöngu gagnvart Ísrael. Önnur lög þvinga frjáls félagasamtök – og þá sérstaklega mannréttindahreyfingar á vinstri væng – að upplýsa hvaðan þau þiggja styrki. Þetta getur torveldað þeim að fá fjármagn frá opinberum aðilum erlendis frá.

Flestum nýju lögunum er beint gegn arabíska minnihlutanum í landinu og gegn Palestínumönnum á herteknu svæðunum. Þar með verður auðveldara, í skjóli laganna, að viðhalda þeirri aðskilnaðarstefnu og mismunun sem þegar er til staðar í Ísrael.

Ein lögin veita leyfi fyrir því að selja einkaaðilum land sem tilheyrir palestínskum flóttamönnum eða sem tekið var eignarnámi þegar Ísraelar náðu arabískum þorpum á sitt vald árið 1948. Það gerir réttmætum eigendum ókleyft að gera tilkall til þeirra fyrir rétti þegar fram líða stundir, t.d. í kjölfar friðarsamninga.

Önnur lög kveða á um að ekki megi selja land, og leigja nema til fimm ára, öðrum en ísraelskum ríkisborgurum og gyðingum. Þetta þýðir að palestínskir flóttamenn geta ekki fengið landið sitt aftur, fengju þeir að snúa heim, þar sem þeir eru „útlendingar“ samkvæmt nýrri skilgreiningu. Fram að því voru þeir sagðir „fjarverandi“ og landskikinn var í vörslu fram að því að samið yrði um frið. Þingið færði einnig í lög að um það bil 700 smærri samfélög í Galíleu og Negeveyðimörkinni megi dæma um „hæfi“ þeirra sem vilja setjast að þar. Tilgangurinn með þessu er auðvitað að halda aröbum og öðrum minnihlutahópum sem ekki eru álitnir falla að samfélaginu í burtu. Lögin gera þessum samfélögum kleyft að setja eigin skilyrði fyrir hverjir megi búa þar, til dæmis að þeir þurfi að aðhyllast „síonísk sjónarmið“. Önnur lög leyfa mismunun í ríkisstyrkjum þar sem sumir (gyðinga)bæir og landsvæði fá „forgang á þjóðernisgrundvelli“.

Samkvæmt sömu lögum eru börn sem hafa ekki fengið bólusetningu samkvæmt tilmælum heilbrigðisráðuneytisins ekki rétt á barnabótum. Þetta bitnar fyrst og fremst á bedúínum í Negev eyðimörkinni þar sem þeir eiga síður aðgengi að heilsugæslu en aðrir í Ísrael.

Önnur lög veita hermönnum sem hafa lokið herskyldu frekari fríðindi, en það eykur enn á mismuninn milli gyðinga og araba. Fyrrverandi hermönnum býðst t.d. ókeypis menntun og hlunnindi á húsnæðismarkaðnum. Palestínumenn gegna ekki herþjónustu og er því mismunað á grundvelli þjóðernis síns.

Eins eru lög sem er beint sérstaklega að einhverri ákveðinni manneskju, til að mynda lögin sem leyfa það að stöðva launa- og eftirlaunagreiðslur til þingmanns í Knessetinu ef hann er grunaður um alvarleg brot og mætir ekki fyrir dóm. Þessum lögum er beint sérstaklega gegn palestínska stjórnmálamanninum Ahmed Bishara sem yfirgaf Ísrael 2007 í kjölfar þess að hann var ásakaður um að hafa veitt Hizbollah upplýsingar í Líbanonsstríðinu árið 2006. Ríkið hefur enn ekki lagt fram neinar sannanir gegn Bishara.

Önnur lög fela í sér að hægt er að svipta mann ríkisborgararétti ef maður er grunaður um landráð, njósnir, hryðjuverk eða þvíumlíkt. Þess konar lögum er beint sérstaklega gegn arabíska minnihlutanum og setur ríkisborgararétti þeirra skilyrði.

Hér bergmálar slagorð öfgahægrimanna: „Enginn hollusta, enginn ríkisborgararéttur“.

Enn ein lögin sem traðka á lýðræðislegum réttindum Palestínumanna í Ísrael eru Nakba­lögin svokölluðu, en þau gefa ríkinu rétt til þess stöðva fjárstyrki til hreyfinga ef þær lýsa efasemdum yfir því að Ísrael eigi að vera „ríki gyðinga“ eða vekja athygli á flóttamannavandamálinu sem skapaðist þegar Ísraelsríki var stofnað. Lögin hefta þannig tjáningarfrelsi Palestínumanna og minnka möguleika þeirra á að geta viðhaldið sögu sinni og menningu.

Þessi nýju lög spanna augljóslega mörg svið – réttin til að eiga land og taka þátt í stjórnmálastarfi, máls­ og félagafrelsi og ríkisborgararétt – en þau eiga það sameiginlegt að þau ráðast kerfisbundið gegn Palestínumönnum í Ísrael og skerða réttindi þeirra, eingöngu á grundvelli þjóðernis þeirra. Eins bitnar þetta á Palestínumönnum á herteknu svæðunum og flóttamönnum.

Debbie Gild­-Hayo, lögfræðingur hjá Samtökunum um borgaraleg réttindi í Ísrael (ACRI) hikar ekki við að kalla lögin rasísk og andlýðræðisleg.

„Það er alveg ljóst að þau eru það. Megintilgangurinn með þeim er að vega að stöðu Palestínumanna í Ísrael. Með þessu er ráðist gegn réttindum þeirra eða grafið undan stöðu þeirra í samfélaginu með því að skilgreina Ísrael sem „ríki gyðinga“. Það er svívirðilegt að lýðræðislegra kjörnir fulltrúar í meirihluta á þingi hagnýti sér stöðu sína til að skaða minnihlutahópa í landinu.“

Í og með eru lögin aðeins táknræn.

„Hollustueiður hefur enga hagnýta merkingu. Hver sem er getur jú sagst trúr án þess að meina það. Eini tilgangurinn með lögunum er að senda Palestínumönnum þau skilaboð að þeir séu annars flokks borgarar og að við séum að gera þeim greiða með því að leyfa þeim að vera hérna.“

Gild-Hayo telur þetta allt bera að sama brunni: „Öll þessi lög eru til þess gerð að sigta Palestínumenn út sem óvininn. Krefjist maður af einhverjum að hann geri grein fyrir trúnaði sínum hlýtur það að vera vegna þess að mann gruni að hann sé ótrúr. Því er svipað farið með lögin sem er beint gegn mannréttindasamtökunum. Þeir álíta alla óvini sem eru ekki sömu skoðunar og þeir – sem deila ekki sýn þeirra á það hvernig Ísrael eigi að vera.“

Gild-Hayo telur að jafnvel þau lagafrumvörp sem ekki eru samþykkt valdi skaða þar sem skoðanirnar sem þau tjá síist inn í almenningsvitundina. Þetta hafi orðið þess valdandi að æ meira beri á öfgafullum skoðunum í Ísrael.

„Fólk venst því að það sé í lagi að hata Palestínumenn og að líta svo á að þeir eigi ekkert heima í Ísrael. Það reynir ekki lengur að dylja þá skoðun. Þetta er til marks um þá stefnu sem er að leiða Ísrael í uggvænlega átt.

Öfgahægrivængurinn hefur sí og æ reynt að fá ámóta lög samþykkt en það hefur aldrei tekist. Nú er allt í einu mikill meirihluti á þingi fylgjandi slíkri lagasetningu.“

Seinasta lagafrumvarpið – og kannski það hættulegasta – sem kveður á um að Ísrael skuli í senn að teljast ríki gyðinga og lýðræðisríki, á öruggt fylgi í Knessetinu, þökk sé stuðningi margra félaga í Kadima, miðjuflokkinum sem Tzipi Livni fer fyrir.

„Þetta hefur versnað“, segir Gild-Hayo. Áður fyrr hafi öfgahægrivængurinn verið vanur að fallast á að það sé til fólk sem er á annarri skoðun. En nú þurfi hann ekki lengur að þykjast vera fylgjandi lýðræði.

Hún álítur að það megi vel notað hugtakið apartheid yfir ástandið í Ísrael.

„Það á svo sannarlega við sum lög og kringumstæður – til dæmis þegar Palestínumenn og Ísraelar fá ekki að aka á sömu vegum, eða fá ekki að búa á sama stað eða eru dæmdir eftir ólíkum lögum. Í Ísrael eru sérstök lög sem er alveg ljóst að mismuna fólki, til dæmis lögin um endurkomu.“

Haldi þetta svona áfram getur það grafið undan lýðræði í Ísrael. – Þá verður það apartheid þar sem fólk hefur ólík tækifæri og réttindi. Gild-Hayo hefur miklar áhyggjur af því hvað geti gerst. Henni líður sífellt verr í því Ísraelsríki sem hægrivængurinn er að reyna að koma á fót, en hún getur jafnframt ekki hugsað sér að búa annars staðar.

„Ég álít þetta landið mitt. Ég get ekkert annað farið. Ég trúi því að það þurfi að vera til þjóðríki fyrir gyðinga. Ég kalla mig síonista. En ég get ekki hugsað mér að búa í ríki sem er ekki fyrst og fremst lýðræðisríki og stendur vörð um mannréttindi fyrir minnihlutahópa og skilur að Palestínumenn tilheyra þessu landi og hafa sama rétt – já meira að segja alveg sérstakan rétt til varnar menningu sinni og tungumáli. Þeir voru nú einu sinni hérna á undan okkur. Ég get ekki farið frá Ísrael, svo það eina sem ég get gert er að reyna að verja lýðræðið“.

Greinin birtist í þriðja tölublaði sænska tímaritsins Kolonialism och Apartheid árið 2011, en það er útgefið af Palestinagrupperna I Sverige, sænskri samstöðuhreyfingu með Palestínu.

Einar Steinn Valgarðsson þýddi.

Birtist í Frjáls Palestína.

Scroll to Top