Ræða Önnu Thorsteinsdóttur frá ljósagöngu gærdagsins

Íþróttahreyfingin á ekki að fá afslátt. Þorum að taka afstöðu.

8000 er fjöldi barna undir 15 ára og yngri í Kópvogi. 8000 er fjöldi barna sem hafa verið myrt á Gaza síðastliðnar 7 vikur. Yfir 8000 myrt börn eru ekki nóg til þess að valdahafar heimsins taki sig saman og krefjist í viðvarandi friðar og vopnahlés í Palestínu. Það virðist sem það skipti máli hvaða 8000 þúsund börn er um að ræða.

Árið 2017 var ég stödd á á þjóðarleikvangi Palestínu í Ramallah. Þar fékk ég að hitta og fylgjast með ungum knattspyrnukonum taka þátt í æfingum knattspyrnusambands Palestínu. Stelpurnar nutu þess alveg jafnmikið og ég á þeirra aldri á æfingu hjá Breiðablik enda er fótbolti allstaðar eins, leikur sem byggist á sömu reglum og sama markmiði.

Íþróttahreyfingin er ein valdamesta hreyfing heims og þá sérstaklega fótboltinn sem nýtur vinsælda allstaðar í heiminum einmitt vegna þess að hann er eins allsstaðar. Fótbolti nýtur sérstakleg mikilla vinsælda meðal barna enda vinsælasta íþrótt í heimi og á Íslandi. Mörg vilja trúa því að fótbolti geti verið algjörlega frjáls frá pólitík og hörmungum heimsins en þannig hefur það aldrei verið og sérstaklega ekki síðan þjóðverjar voru útilokaðir fyrst frá ólympíuleikunum árið 1920. Síðan þá hafa valdhafar íþróttahreyfinga notað bönn og útilokun frá íþróttakeppnum til að beita þjóðir þrýstingi vegna ofbeldis og mannréttindabrota. Suður Afríka var útilokuð vegna aðskilnaðarstefnu sinnar og Rússland hefur verið útlokað frá flestum alþjóðakeppnum eftir innrásina í Úkraínu 2022.

Það vekur því augljóslega upp mikla reiði og spurningar þegar Ísreal fær að taka þátt í öllum alþjóðakeppnum og er sérstaklega boðið í keppnir sem þau tilheyra ekki landfræðilega. Ísrael hefur í áratugi brotið alþjóðalög með aðskilnaðarstefnu, landráni og herkví. Það hefði því alls ekki þótt óeðlilegt að nú þegar ofan á þetta bætast við meira en 8000 þúsund myrt börn á 7 vikum að nú yrði Ísrael loks bannað að taka þátt.

En svo er ekki og í næstu viku spilar uppeldisliðið mitt Breiðablik fótboltaleik við ísraelskt félagslið og í vikunni varð það ljóst að íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu keppir við Ísrael um seinustu sætin á Evrópukeppninni næstu sumar.

KSÍ og Breiðablik munu að öllu ekki verða við þeirri óska að hunsa þennan leik. Leikirnir verða spilaðir einfaldlega vegna þess að þau hafa ekki efni á öðru. Því eins og oft áður snýst þetta allt um pening og ef þjóð hefur ekki verið formlega útilokuð frá alþjóðakeppnum þá fylgja háar sektir fyrir félög og þjóðir að taka málstað mannréttinda.

KSÍ og Breiðablik munu nota sömu rök og íslensk stjórnvöld, við erum of lítil til að hafa áhrif ein. Þessi rök eru einfaldlega orðin óþolandi. Við megum hafa skoðun og við megum standa upp á móti stóru þjóðunum og benda þeim á hvenær meðvirknin, peningar og fordómar eru farnir að hafa slæm áhrif á gildismat okkar sem hefur bein áhrif börnin okkar. Því það er einfaldlega svo að afstöðuleysi KSÍ, Breiðabliks og stjórnvalda hefur áhrif á skoðun barna okkar þegar kemur að verðleikamati þeirra á manneskjunni. Núna erum við einfaldlega að senda þau skilaboð að börn í Palestínu séu minna virði en til dæmis börn í Úkraínu.

Ég skora á KSÍ, Breiðablik og íslensk stjórnvöld að þora að tjá sig opinberlega um þá mótsögn sem felst í því að íþróttaheimurinn leyfa Ísrael að taka þátt í öllum keppnum á meðan þúsundir barna eru drepin á Gaza.

Við verðum að þora að segja okkar skoðun. Finnst KSÍ, Breiðabliki og stjórnvöldum í alvöru eðlilegt að Ísrael sé að taka þátt í alþjóðakeppnum? Ætla þau í alvöru ekki að tjá sig um þessar staðreyndir málsins? Hvernig ætla þau að útskýra mótmælin fyrir utan völlinn? Hvaða skilaboð ætlum við að senda börnunum okkar? Hvaða skilaboð ætla leikmenn og forráðafólk þessara liða að senda börnum okkar?

Á meðan það er ekkert samræmi og engar reglur um það hvernig við beitum viðskiptaþvingunum, pólitískum stuðningi og útilokun frá alþjóðakeppnum kennum við börnum okkar að lif barna í heiminum eru misverðmætt. Þorum að segja Bandaríkjunum að við séum ekki sammála og sjáum svo til hvað þau gera? Ég efast um að afleiðingarnar verði eins alvarlega og það að ala börnin okkar við það gildismat sem vesturveldin eru nú í sameiningu með aðgerðaleysi sínu.

Birtist á FB síðu Félagsins Ísland-Palestína.

Höfundur

Scroll to Top