Helgina 12.–15. maí á þessu ári fóru tveir meðlimir félagsins Ísland – Palestína á ráðstefnu í London um sniðgöngu stefnuna gegn Ísrael. Markmið ráðstefnunnar var að fá sem flesta sem vinna að sniðgöngumálum í Evrópu til að koma saman og bera saman bækur sínar um sniðgöngumál. Ráðstefnan var fróðleg og gagnleg í alla staði og kom snemma í ljós að Ísland stæði framarlega í málefnum sniðgöngu. Risafyrirtækin sem styðja Ísrael hafa ekki herjað mikið á íslenskan markað og því eru vandamálin sem við glímum við umfangsminni. Þrátt fyrir það var horft til Íslands vegna aðferðanna sem við höfum beitt í sniðgöngumálum. Fundarmenn lýstu einnig yfir mikilli ánægju vegna viðurkenningar Íslands á sjálfstæði Palestínu.
Á fundinum var helst rætt um málefni fyrirtækja á borð við G4S, Veolia, Ahava, Mehederin og fleiri sem hafa átt viðskipti við Ísrael sem auka landrán þeirra og stór ísraelsk fyrirtæki sem herja á evrópskan markað. Sniðgönguhreyfingin í Evrópu er vel skipulögð og velur hún sér málefnin mjög gaumgæfilega. Ekki er ráðist á einstaklinga eða einstaka vörur heldur er meginmarkmið hennar að herja á þau stóru fyrirtæki sem vitað er að stuðli að auknu landráni í Palestínu og skýrar sannanir liggja fyrir um iðju þeirra. Þegar verkefnin eru valin er farið vel yfir það hverju herferðin getur skilað en reynt er að tengja herferðina við þau vandamál sem fyrirtæki valda Palestínumönnum, til dæmis skorti á vatni. Reynt er að hafa aðgerðirnar það stórar í sniðum að þær nái athygli fjölmiðla ásamt því að ná yfir sem breiðasta hóp af fólki til þess að fjöldi einstaklinga geti tekið þátt og sniðgengið vörur frá ísrael. Einnig er reynt að fá fyrirtæki til að hætta að selja ísrealskar vörur og fá innflutningsaðila til að hætta viðskiptum við þau fyrirtæki sem herferð in beinist að.
Árangur
Herferðir sniðgönguhreyfingarinnar eru þó mismunandi eftir löndum, en með samvinnu er hægt að ná góðum þrýstingi á fyrirtæki sem versla við Ísrael. Lagalegur bakgrunnur er mjög mikilvægur í öllum herferðum hreyfingarinnar og hefur það sýnt góðan árangur þar sem oft er verið að brjóta alþjóðalög í viðskiptum við ólöglegar landræningjabyggðir.

Sniðgangan hefur sýnt viðunandi árangur og hafa mörg fyrirtæki hætt við framkvæmdir á ólöglegum byggðum landræninga á palestínsku landsvæði. Veoila er gott dæmi þar sem kom í ljós að framkvæmdir þeirra í ólöglegum landræningjabyggðum voru brot á alþjóðalögum og tapaði fyrirtækið gríðarlegum fjármunum þegar önnur fyrirtæki hófu að sniðganga það vegna mannréttindabrota þess.
Sniðganga gagnvart Ísrael hefur verið að aukast jafnt og þétt frá því að ákall til sniðgöngu kom árið 2005 frá Palestinian Civil Society. Ákallið kom reyndar ekki bara úr einni átt heldur voru 170 samtök, pólitísk og ópólitísk, sem studdu þessa yfirlýsingu og hvöttu heiminn til að sniðganga Ísrael. Kveikjan að þessari baráttu var 9.júlí 2005 þegar Alþjóðadómstólinn í Haag úrskurðaði að aðskilnaðarmúr Ísraels, sem er að stórum hluta byggður inn á palestínsku landsvæði, væri ólöglegur og það beri að rífa hann niður.
Þrjú meginmarkmið
Sniðgöngustefnan hefur þrjú megin mark mið sem byggja á mismunandi aðstæðum Palestínumanna; palestínskra flóttamanna, Palestínumanna sem búa við hersetu og svo Palestínumanna sem búa í Ísrael.
Markmiðin eru:
- Að Ísrael hætti hersetu sinni og landráni á öllu landi araba sem hernumið var í júni 1967 og rífi niður aðskilnaðarmúrinn
- Að Ísrael viðurkenni og virði grundvallarmannréttindi Palestínumanna með ísraelskan ríkisborgararétt að jöfnu við aðra ríkisborgara
- Að Ísrael virði, verndi og virði rétt palestínskra flóttamanna til að snúa aftur til síns heima eins og að ályktun SÞ númer 194 segir til um.
Sniðgöngustefna skilaði góðum árangri í S-Afríku á tíma aðskilnaðarstefnunnar. Ísrael er ríki sem ástundar kynþáttaaðskilnað (apartheid), brýtur mannréttindi daglega og hunsar alþjóða- og mannréttindalög. Barnasáttmáli SÞ er ítrekað brotinn og virðist ísraelska ríkið ekki hafa neinn áhuga á því að breyta rétt og framfylgja alþjóðalögum. Á meðan Ísrael heldur þessu áfram þá verður almenningur að þrýsta á sín stjórnvöld um að sniðganga Ísrael og einnig að sniðganga vörur frá Ísrael! Með samheldnu átaki náum við góðum árangri!
Þær vörur sem helst standa Íslendingum til boða og koma frá Ísrael eru Kings vörur sem fást í stærri verslunum á Íslandi, Jaffa appelsínur, verkfæri einsog málbönd og svo mikill fjöldi af snyrtivörum m.a. Volare sem framleiddar eru úr Dauðahafinu í landræningjabyggðum.
Fleiri upplýsingar um sniðgöngustefnuna má finna á heimasíðu BDS, www.bdsmovement.net
Birtist í Frjáls Palestína.