Í mars 2009 setti leikkonan Þóra Karítas Árnadóttir upp einleikinn Ég heiti Rachel Corrie (e. My Name is Rachel Corrie) eftir Alan Rickman og Katherine Viner, sem hefur hlotið mikla athygli. Einleikurinn byggir á lífshlaupi bandarísku stúlkunnar Rachel Corrie sem lést með voveiflegum hætti á Gaza, aðeins 23ggja ára að aldri árið 2003, þar sem hún var að störfum með International Solitary Movement (ISM). Leikritið unnu Rickman og Viner upp úr tölvupóstum og dagbókum Rachel Corrie. Í tilefni sýningarinnar og þess að Corrie hefði orðið þrítug í ár bað blaðið Þóru Karítas að segja aðeins frá henni:
Rachel Corrie fæddist í Bandaríkjunum þann 10. apríl 1979. Heimurinn þekkir hana vegna þess hörmulega atburðar sem átti sér stað árið 2003 þegar ísraelskur jarðýtuökumaður valtaði yfir hana þar sem hún tók þátt í friðsamlegum mótmælum í Rafah.
Þegar Rachel var 10 ára spurði vinur pabba hennar hvað hana langaði að verða þegar hún yrði stór. „Ég er skáld“, svaraði hún ákveðin. Orð voru henni heilög enda hafa dagbækur hennar og tölvupóstar frá Palestínu vakið mikla athygli. Eftir dauða hennar var heildarsafn dagbókarskrifanna gefið út og breski leikstjórinn og leikarinn Alan Rickman og blaðakonan Katherine Viner unnu leikgerð upp úr dagbókarskrifunum. Verkið hefur vakið mikla athygli víða um heim; í Bandaríkjunum, Palestínu og víða í Evrópu.

Rachel Corrie var skáld. Hún tjáði í dagbókum sínum, sem hún skrifaði markvisst frá tíu ára aldri, þessa þörf sem hún hafði fyrir að skrifa og skapa. Þörfina á að setja hugmyndir sínar í orð og festa þau á blað. Einnig elskaði hún að teikna og bjó frá unga aldri til skopteikningar af vinum sínum og sögur um teikningarnar. „Ég höndla ekki kraftinn í þessum villtu tilfinningum. Ég verð að finna leið til að deila þeim með öðrum og þess vegna skrifa ég. Ég bara verð. Það er eins og að vera með eldfjall inn í sér“.
Rachel var einnig náttúrubarn. Hún tengdist náttúrunni, dýrum og fólki þannig að hún upplifði allt sem eina heild – allt sem hluta af sjálfri sér – eins og hún væri hluti af öllu.
Hún hafði líka áhuga á pólitík og fór að starfa með ungliðahreyfingum í heimalandi sínu áður en hún hélt til Palestínu árið 2003. Hún hafði komist í kynni við ísraelska konu í Bandaríkjunum sem hafði átt fjölskyldu sem lifði af helförina. Þessi ísraelska kona barðist gegn hernámi Ísraela í Palestínu og í kjölfarið fór Rachel að kynna sér átök Ísraela og Palestínumanna. Hún einsetti sér að læra arabísku og fór að safna sér fyrir ferð og skipuleggja líf sitt í kringum sjálfboðaliðastarf í Palestínu. Hún kynntist sjálfboðaliðum í Bandaríkjunum sem höfðu starfað á Vesturbakkanum og komst í kynni við ISM-sjálfboðaliðahreyfinguna sem viðhefur friðsamleg mótmæli á Vesturbakkanum.
Þegar Rachel var að leggja af stað til Palestínu hringdi pabbi hennar í hana og sagði við hana: „Rachel, þú veist að þú þarft ekki að fara. Það ásakar þig enginn ef þú ákveður að hætta við“. „Ég veit það, pabbi“, svaraði Rachel, „og ég er mjög hrædd, en ég held að ég geti gert þetta og ég veit að ég verð að reyna“. Pabbi hennar hefur sagt að eins mikið og hann langaði að banna henni að fara þá hafi hann ekki getað fengið af sér að biðja dóttur sína um að vera eitthvað annað eða minna en hún var.
Þegar Rachel kom til Rafah lenti hún mitt í heimi skriðdreka, jarðýtna, eftirlitsturna og leyniskyttna, eyðilagðra húsa, og riasastórs aðskilnaðarmúrs sem var verið að byggja við landamæri Egyptalands. Aftur á móti hitti hún líka fyrir fólk og fjölskyldur sem veitti þessu öllu friðsamlegt viðnám með því einfaldlega að lifa af einn dag í einu og reyna að láta ástandið ekki á sig fá eða hafa áhrif á sitt daglega líf. Í gegnum þennan heim hélt Rachel áfram að skrifa og nú skrifaði hún bréf til mömmu sinnar og pabba heima í Bandaríkjunum. Hún gerði sér grein fyrir því að hún væri á hættusvæði og þegar hún hringdi heim hljómaði hún óttaslegin. Pabbi hennar sagði að hún hefði oft spurt “Heyrirðu þetta?” og hafi þá átt við sprengjuhljóðin sem féllu fyrir utan húsið sem hún bjó í.
Hún starfaði við að standa vörð um vatnsbrunna og koma í veg fyrir eyðileggingu á palestínskum heimilum, en þeim átti að rústa fyrir tíu metra háan aðskilnaðarmúr í kringum borgina. Meðan sjálfboðaliðarnir stóðu vörð um brunnana og reyndu að gera við var oft skotið á þá.
Rachel kenndi þeim palestínsku börnum, sem hún bjó hjá meðan á sjálfboðastarfinu stóð, ensku og þau kenndu henni arabísku. Hún horfði á teiknimyndir með þeim og reyndi að dreifa athygli barnanna þegar hernaðarleg ógn stafaði að heimilunum. Þá vann hún að mótmælum í Rafha þann 15. febrúar 2003 gegn stríðinu í Írak. Hún hafði miklar áhyggjur af ástandi heimsins og þvi að Bush myndi ráðast inn í Írak – eins og raunin varð eftir dauða hennar. Hún reyndi að sannfæra fólk í Palestínu um að það væri ekki endilega vilji bandarísku þjóðarinnar að ráðast inn í Írak, heldur þjóðarleiðtoga. Eitt af helstu markmiðum Rachel var að koma á systrasambandi milli borgarinnar Rafah og heimabæjar síns, Olympiu.
Það var svo hinn 16. mars 2003 að jarðýta keyrði í áttina að heimili apótekarans sem Rachel bjó hjá í Rafah. Þegar jarðýtan nálgaðist vissi Rachel að tvær fjölskyldur sem bjuggu í húsinu voru innandyra. Rachel Corrie tók sér stöðu milli jarðýtunnar og heimilis fjölskyldunnar sem hún hafði búið hjá. Hún var klædd appelsínugulu vesti, með gjallarhorn í hönd og umkringd öðrum sjálfboðaliðum. Aðgerðir hennar voru í samræmi við aðgerðir annarra sjálfboðaliða á vegum ISM hreyfingarinnar. En í þetta sinn enduðu aðgerðirnar á því að jarðýtan valtaði yfir Rachel þrátt fyrir að aðrir sjálfboðaliðar hefðu baðað út höndum og öskrað á ökumann jarðýtunnar. Rachel náði að klifra upp á hrúgu sem stóð henni nærri til að flýja en missti fótanna og hvarf undir jarðýtuskófluna. Jarðýtan keyrði og bakkaði yfir Rachel – eftir atvikið var Rachel enn á lífi en sagði vinum sínum að hún héldi að bak hennar væri brotið. Rachel Corrie lést af sárum sínum í sjúkrabíl á leið á spítalann. Ariel Sharon lofaði Bush ítarlegri rannsókn á málinu en ekki var staðið við það loforð. Ísraelski herinn lýsti því yfir að atburðurinn hefði verið slys og enn hefur enginn verið sakfelldur.
Við störf sín á Gaza vann Rachel með Palestínumönnum, Ísraelum, gyðingum, múslimum og kristnu fólki, öllum þeim sem höfðu það markmið að enda hernámið í Ísrael með friðsamlegum aðgerðum. Hún hafnaði öllum ofbeldisaðgerðum og barðist jafnt við hlið múslima og gyðinga.
Rachel Corrie vissi ekki enn hvað hún vildi taka sér fyrir hendur í lífinu eftir að dvölinni á Gaza lyki. Hún vissi það eitt að hún vildi upplýsa Bandaríkjamenn (helst allan heiminn í leiðinni) um ástandið, stríðsglæpina og mannréttindabrotin sem viðgangast á Gaza svæðinu.
Heimurinn þekkir Rachel Corrie út af dauða hennar en foreldrar hennar minnast hennar sem lifandi, listrænnar og hrifnæmrar stúlku. Nú halda foreldrar Rachel Corrie ótrauðir áfram baráttunni sem dóttir þeirra hóf. Þeir halda meðal annars uppi minningu hennar með því að efla samskipti Rafah og Olympiu.
Birtist í Frjáls Palestínu.