Að sögn mannréttindasamtakanna Betzelem, sem starfa í Jerúsalem, sæta allir Palestínuarabar, sem handteknir eru, misþyrmingum. Í skýrslu sem Betzelem gaf út og samin var af dr. Dafna Golan og próf. Stanley Cohen, er greint frá viðtölum við 41 fyrrverandi fanga. Þeir höfðu verið yfirheyrðir á mismunandi tímum og stöðum. Aðeins einn þeirra, blaðamaður að atvinnu, sagðist ekki hafa verið barinn. Samkvæmt skýrslunni hefur enginn þessara manna verið sakfelldur, ekki einu sinni grunaður um ,,hryðjuverkastarfsemi“.
Ísraelsk nefnd á vegum hæstaréttardómarans Landau kvað árið 1987 upp þann úrskurð að rannsóknarlögreglan mætti beita ,,hóflegum líkamlegum þrýstingi“ á fanga þegar um meinta hryðjuverkastarfsemi væri að ræða. Höfundar skýrslunnar telja að með þessum úrskurði hafi nefndin í reynd réttlætt pyndingar. Forseti Ísraels afhenti nýlega Landau þessum Ísraels-verðlaunin fyrir að auka veg og virðingu ísraelska réttarkerfisins … og styrkja gildi siðmenntaðs samfélags og mannréttinda“.
Samtökin gegn pyntingum, Amnesty International og fleiri mannréttindasamtök í Ísrael héldu mótmælafund fyrir framan leikhúsið í Jerúsalem, þar sem afhending verðlaunanna fór fram.
ED tók saman
Birtist í Frjáls Palestína.
