Project Hope eru skráð sjálfseignarstofnun og góðgerðarsamtök með rætur í palestínskri forystu og studd af breiðu alþjóðlegu neti staðfastra sjálfboðaliða, fyrrverandi þátttakenda og samstarfsaðila. Sem grasrótarfrumkvæði leggjum við áherslu á gagnsæi í samskiptum og samvinnu milli palestínskra og alþjóðlegra meðlima okkar til að tryggja að öll verkefni miðast við raunverulegar þarfir nærsamfélagsins.
Þátttaka samfélagsins hefur verið lykilatriði í vexti okkar. Við erum í samstarfi við tugi staðbundinna félagsmiðstöðva víðs vegar um Nablus, nærliggjandi þorp og flóttamannabúðir, þar sem við bjóðum upp á námskeið og afþreyingu á vanræktum svæðum og hjálpum þessum miðstöðvum um leið að efla getu sína.

Markmið okkar er að skapa öruggt opið rými þar sem allir geta sótt stuðning, þar sem börn, ungmenni og aðrir í samfélaginu geta lært, tjáð sig og dafnað. Með fjölbreyttri fræðslu-, lista- og tómstundadagskrá stefnum við að því að efla palestínsk börn og ungmenni sem hafa alist upp við hernám og erfiðleika og gefa þeim tæki til að byggja upp bjartari framtíð.
Þrátt fyrir sterka skuldbindingu okkar stöndum við enn frammi fyrir verulegum áskorunum. Undanfarin ár hefur alþjóðlegum sjálfboðaliðum fækkað vegna ástandsins í Palestínu og nokkur námskeið voru felld niður í kjölfar innrása í gamla borgarhlutann í Nablus og nærliggjandi flóttamannabúðir. Varðstöðvar og lokanir vega koma oft í veg fyrir að við getum skipulagt viðburði í nærliggjandi þorpum. Auk þess komast færri sjálfboðaliðar til okkar og fjármagn okkar hefur minnkað miðað við fyrri ár.
Engu að síður heldur Project Hope áfram að bjóða upp á fjölbreytta dagskrá, þar á meðal tungumálanámskeið (ensku, frönsku og arabísku fyrir þá sem ekki hafa arabisku að móðurmáli), listir, tónlist, íþróttir, matreiðslunámskeið, leiki og kvikmyndasýningar fyrir börn. Tónlistarskólinn okkar býður upp á kennslu á nokkur hljóðfæri, svo sem oud (líkist lútu), fiðlu, píanó, qanoun (svipað langspili) og gítar.

Með arabískunámskeiðum okkar fyrir þá sem ekki tala: arabísku, læra nemendur ekki aðeins tungumálið, heldur öðlast þeir einnig dýpri skilning á palestínskri menningu. Nýlega, vegna öryggisástandsins, hafa mörg þessara námskeiða farið fram á netinu.
Á þessu ári fékk hópur nemenda okkar einstakt tækifæri til að ferðast til Frakklands sem hluti af menningarskiptaverkefni með Secours Populaire-samtökunum, sem gerði þeim kleift að upplifa nýja menningu og æfa tungumálið með öðru ungu fólki.
Hjá Project Hope trúum við því að palestínsk börn, ungmenni og konur eigi skilið aðgang að góðri menntun og öruggu, uppbyggilegu umhverfi. Þrátt fyrir allar hindranir er skuldbinding okkar við þessa framtíðarsýn óbilandi.
Project Hope
Birtist í Frjáls Palestína.
