Palestínumálið í hnotskurn

Félagar í Íslandi-Palestínu hafa eflaust allir einhverja þekkingu á Palestínumálinu. Sumir meiri en aðrir en allir eru þó einhuga í stuðningi sínum við baráttu undirokaðrar þjóðar. Hver svo sem þekking manna er þá er okkur öllum hollt að rifja upp sögu Palestínumálsins og það er ætlunin að gera hér á eftir í örstuttu máli. Athugið að hér er aðeins um nokkur ártöl að ræða sem öll hafa sinn aðdraganda og eftirmála.

Vopn okkar í baráttu fyrir góðum málstað eru ekki síst þau að standa í málefnalegri baráttu. Þeir sem vilja kafa dýpra er m.a. bent á bók Rögnvaldar Finnbogasonar, Jerúsalem: borg hinna talandi steina (ath. sérstaklega viðauka eftir Elías Davíðsson). Harmsaga Palestínuaraba sem kom út á vegum félagsins 1990 og kafli í bók Jóns Orms Halldórssonar um Íslam gefa einnig góða mynd af Palestínumálinu.

1897 – Upp kemur hugmynd á þingi síonista um stofnun sérstaks gyðinga ríkis í Palestínu.

1917 – Viljayfirlýsing Breta um stofnun ,,þjóðarheimilis gyðinga“ í Palestínu – en þar með ákveður ein þjóð að gefa annarri land þeirrar þriðju, þ.e. Palestínumanna sem voru þá 93% íbúanna.

1947 – 29. nóvember leggja S.þ. til að Palestínu verði skipt milli aðfluttra gyðinga og hinna arabísku íbúa landsins, mynda tvö ríki, en Jerúsalem yrði alþjóðlegt svæði. Palestínuaröbum, 1300 þúsund talsins, var úthlutað 45% af landinu en gyðingar, 600 þúsund talsins, fengu 55%.

1948 – 14.maí lýsa síonistar yfir stofnun Ísraelsríkis og í kjölfarið blossar stríð á milli araba og Ísraela sem leiddu af sér meiri landvinninga til handa Ísraelsríki. Aðeins 160 þúsund Palestínuarabar urðu eftir í nýstofnuðu gyðingaríki. Flóttamönnum var og er meinaður aðgangur að sínum fyrri heimkynnum og þar með brjóta Ísraelar eina helgustu grein Mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

1964 – Frelsissamtök Palestínumanna, PLO, eru stofnuð í Kaíró.

1967 – Ísraelar fara í stríð við araba, sexdagastríðið, og hernema Vesturbakkann, Gazasvæðið, Gólanhæðir og Sínaískagann. Síðan þá hefur þriðjungur palestínsku þjóðarinnar búið við hernám síonista þar sem þeir njóta hvorki almennra borgaralegra réttinda sem ísraelskir þegnar né hafa þeir sjálfsákvörðunarrétt í eigin málum.

1982 – Ísraelar ráðast inn í Líbanon og hrekja Palestínumenn úr landinu með ofsafengnum hætti.

1987Intifada, uppreisn Palestínumanna á hernumdu svæðunum hefst. Upp er vakin barátta Davíðs, hlutverk Palestínumanna vopnuðum steinum, og Golíats, hins vígvædda Ísraelsríki. Umheimurinn verður vitni að hroðalegum aðförum Ísraelsmanna á hendur Palestínumönnum.

1988 – Palestínska þjóðarráðið lýsir yfir stofnun Palestínuríkis á herteknu svæðunum og viðurkennir tilverurétt Ísraelsríkis til að liðka fyrir samningum. Meira en 90 ríkisstjórnir hafa viðurkennt Palestínu.

1992 – Friðarviðræðum Ísraelsmanna og araba er framhaldið frá árinu á undan án nokkurs sýnilegs árangurs hingað til. Framtíð palestínsku þjóðarinnar er óviss sem fyrr.

Birtist í Frjáls Palestína.

Scroll to Top