Þriðja frásögn Árna Ragnars Árnasonar alþingismanns úr Palestínuferð.
Árni Ragnar Árnason, alþingismaður Sjálfstæðisflokksins fyrir Reykjaneskjördæmi, ferðaðist til ísrael, Jórdan og herteknu svæðanna með þingmannasamtökum um samvinnu Evrópu- og Arabaþjóða (PAEAC) í samstarfi við Hjálparstofnun Sameinuðu þjóðanna fyrir flóttamenn frá Palestínu (UNRWA). Ferð þessi var farin fyrir tæpum tveim árum, 22. febrúar – 1. mars 1992 og ritaði Árni fjölda greina um þessa ferð, sem því miður eiga jafnmikið erindi í dag og þá.
Greinar hans um aðkomuna til Gaza og ástandið þar hafa birst í fyrri tölublöðum af Frjálsri Palestínu (des. ‘92 og maí ‘93). Þessi grein er í beinu framhaldi af hinum fyrri og segir frá heimsókn Árna til Jerúsalem og Vesturbakkans og byrjar hann á að segja frá starfi UNRWA.
Miðvikudagurinn 26. febrúar rann upp með rigningu. Um alla Jerúsalemborg og nágrenni var erfið færð og flaumur vegna asahláku og yfirborðsvatns eftir snjókomuna á mánudagskvöld og þriðjudag. Við vorum snemma á fótum, eftir langar göngur í snjó og krapi á gangstéttum og götum hinnar helgu borgar daginn áður, og síðan strangar umræður um kvöldið.
UNRWA, Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna í Palestínu, á Vesturbakkanum og Jerúsalem svæðinu sótti okkur heim um morguninn og haldið var til höfuðstöðvanna.
Heimurinn er stundum Iítill
Hann Henning Gjellerod varð aldeilis upprifinn og ánægður þegar hann komst að því að bílstjórinn talaði dönsku – hvílík gleði. Blessaður maðurinn hafði reyndar aldrei til Danmerkur komið. Heldur haft þann starfa um tíma að vera ekill og leiðsögumaður danskra ferðalanga um Jerúsalem – og lært af þeim hina auðlærðu, auðtöluðu og fögru dönsku tungu – eða nóg til að bjarga sér. Hann tók því vel að vera ávarpaður sem Ahmed danski það sem eftir var dags.
Andlit og hönd hins alþjóðlega samfélags

Það var verið að moka snjó með öllum tiltækum vinnuvélum. Við áttum fund með Yves Besson, svissneskum forstöðumanni. Hann hefur starfað lengi fyrir UNRWA og er ómyrkur í máli.
UNRWA var stofnað 1950 á grundvelli samþykkta Sameinuðu þjóðanna um hjálp við palestínska flóttamenn vegna stríðsins sem braust út 1948 og skiptingar landsins milli Ísrael og Palestínu. Stofnunin starfrækir flóttamannabúðir í Líbanon, Sýrlandi, Jórdaníu og á hernumdu svæðunum í Palestínu, sem Ísrael hertók 1967. Búðirnar eru yfirleitt á landi í eign Jórdaníu. UNRWA hefur meir en 19 þúsund starfsmenn, þar af um 19 þúsund annarrar þjóðar, þar á meðal þeir sem koma þurfa fram gagnvart Ísrael. UNRWA er næststærsti vinnuveitandi á Vesturbakkanum á eftir Ísrael, stærsti á Gaza og einn hinna stærstu í Jórdaníu.
Hið alþjóðlega samfélag notar UNRWA til að veita menntun, heilsugæslu og aðra hjálp til að hið hernumda fólk haldi þolinmæði sinni meðan leitað er stjórnmálalegra lausnar – sem hins vegar var ekki leitað fyrr en að friðarviðræður hófust í Madrid.
Starf UNRWA er fjármagnað af þjóðum í öðrum heimshlutum að mestu, og nær eingöngu síðan þjóðirnar við Persaflóa drógu úr framlögum eftir Flóastríðið. Það léttir í raun skyldum af Ísrael, því samkvæmt alþjóðasamþykktum, sem Ísrael hefur skuldbundið sig til að virða, ber hernámsríki skylda til að veita alla slíka þjónustu á svæðum sem það hefur hernumið – en það gerir Ísrael ekki og hefur augljóslega aldrei ætlað að gera.
Þrisvar til fjórum sinnum í viku verða árekstrar vegna tilrauna Ísraela til að hindra starfsemi UNRWA. Eignir UNRWA verða oft fyrir skemmdum vegna hernaðaraðgerða Ísraels. Ísraelar skulda UNRWA um 4 milljónir Bandaríkjadala vegna slíkra skemmda. Þeir hafa sagst mundu greiða – en aldrei staðfest kröfurnar – og greiða aðeins staðfesta reikninga.
Fólki í flóttamannabúðum hefur frá árinu 1977 ekki verið leyft að velja sér sveitarstjórn eða sambærileg yfirvöld samfélagsins innan þeirra.
Einangruð verndarsvæði – eða þrælabúðir?
Ísrael breytti mörkum Jerúsalemsvæðisins eftir hernámið. Nú sker það Vesturbakkann í tvennt og telst ekki hluti hans. Síðan komast Palestínumenn ekki leiðar sinnar milli norður- og suðurhlutans nema um varðstöðvar hernámsliðsins. Á Vesturbakkanum eru framkvæmdir og mannvirkjagerð Ísraela eftir „stjörnu-skipulagi“ sem þeir nefna svo, og miðar að því að umkringja byggðir Palestínumanna sem einangruð „verndarsvæði“.

Efnahagsleg tengsl Ísrael og hernumdu svæðanna eru þannig að íbúar þeirra eru nánast þrælavinnuafl, sem fær lágt launaða vinnu þegar hún býðst, hefur engin réttindi þess á milli og nýtur ekki þjónustu sem borgurum ríkisins stendur til boða.
Ef ekki næst árangur af núverandi friðarviðræðum og Palestínumenn eiga sitt undir náð og miskunn Ísraels – nú þegar í þrældómi, beittir misrétti, njóta ekki opinberrar þjónustu né mannréttinda til jafns við aðra íbúa ríkisins, arðrændir, skattpíndir, kúgaðir og hraktir af löndum og eignum sínum – þá höfum við brugðist einmitt þeirri þjóð sem við erum nú að reyna að hjálpa.
Skammt frá helgidómi að útlegðardómi
Frá höfuðstöðvunum var farið í Deheishe-búðirnar, sem eru örskammt frá Betlehem. Þær standa í miklum bratta í útjaðri bæjar Palestínumanna sem ekki flúðu 1948, og liðsinna þeir eftir mætti, m.a. þeirra vegna er atvinnuástand með skárra móti. Við fjölgun í búðunum hefur orðið mjög erfitt að leysa húsnæðisþörf, því allt að 150 metra frá jaðri búðanna er bannað að byggja hærra en einnar hæðar hús svo ekki trufli sjónsvið gyðinga sem eiga leið um. Í Deheishe unnu konur, aldraðir, unglingar og börn við að ausa út úr húsum, moka frá niðurföllum og greiða yfirborðsvatninu leið niður göturnar um brattar brekkurnar. Vatnselgurinn tók enn í ökkla.
Síðan var komið við í Betlehem og skoðaðir helgidómar fæðingar Krists. Aðeins er sjónhending frá fæðingarstað frelsarans, sem boðaði náungakærleik og umburðarlyndi, að búðum þessa hrakta fólks sem er í raun útlægt frá heimkynnum sínum. Örskammt frá helgidómi að útlegðardómi.
Á leiðinni til baka inn í Jerúsalem var ætlunin að sjá nýjustu „landnámabyggð“ Ísraela í nágrenninu, en niðaþoka skalla á eins og hendi væri veifað, svo ekki varð af. Jahve gamli styður þjóð sína kannske enn með ráðum og dáð.
Í hópi einangraðra stjórnarerindreka
Um kvöldið bauð aðalræðismaður Bretlands í Jerúsalem okkur til kvöldverðar ásamt aðalræðismönnum sem staðsettir eru þar og palestínskum framámönnum á ýmsum sviðum.
Umræður leiddu í Ijós talsverðan áherslumun Palestínumanna og skoðanamun, einkum gagnvart friðarviðræðum þeim sem nú standa yfir og því hverjar vonir þeir gera sér um árangur.
Á hernumdu svæðunum hafa Palestínumenn búsettir í Jerúsalem mest réttindi og gefa t.d. vikulega út blað. Í því fara nú fram skoðanaskipti um þessi efni. En einmitt þar ganga gyðingar harðast fram í „landnámi“, hafa jafnvel ráðist inn á fólk og hrakið það úr húsum sínum og síðan eignað sér þau – með aðstoð Ísraelshers – því næst tekur dómstóll við og gerir húseignina upptæka, þar sem hún hafi verið yfirgefin af palestínskum eiganda sínum.
Palestínumönnum er gert að greiða tólf-falt verð fyrir vatn samanborið við gyðinga, og fá samt sem áður ekki alltaf vatn því gyðingar hafa forgang – þeir vökva hverja ekru ræktarlands, a.m.k. tífalt meir en Palestínumenn.
Eftir hernámið 1967 lýsti Ísrael Jerúsalem hluta ríkisins höfuðborg þess að eilífu og flutti þingið, Knesset, og ráðuneyti þangað frá Tel Aviv. Vestræn ríki mótmæltu hernáminu, eins og aðrir, og hafa neitað að flytja sendiráð sín. Frá fyrri tíð voru aðalræðismenn í Jerúsalem og er svo enn af hálfu þessara ríkja, en sendiráð þeirra eru enn í Tel Aviv.
Birtist í Frjáls Palestína.
